Skip to main content

Vill stuðla að öruggari og árangursríkari notkun lyfja 

Vill stuðla að öruggari og árangursríkari notkun lyfja  - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Með hækkandi aldri þjóða fjölgar þeim sem eru með langvinna sjúkdóma og glíma við fjölveikindi. Þetta leiðir af sér líkur á fjöllyfjameðferð og samfara því hættu á lyfjatengdum skaða. Rannsóknarefnið mitt er byggt upp í kringum þá áskorun sem lyfjatengdur skaði er fyrir sjúklinga og heilbrigðiskerfið í heild sinni.“

Þetta segir Freyja Jónsdóttir, lektor í lyfjafræði, um doktorsverkefnið sitt sem hún vinnur nú að við Háskóla Íslands. Það er til mikils að vinna að úr rannsóknum Freyju komi tillögur um úrbætur á sviði lyfjameðferðar því aldur íslensku þjóðarinnar hækkar sífellt með auknum áskorunum fyrir einstaklinga og heilbrigðiskerfið allt. Freyja hefur nú þegar ýmislegt að byggja á en frumniðurstöður úr rannsókninni benda til þess að algengi og nýgengi fjöllyfjameðferðar sé há í tengslum við innlögn á sjúkrahús vegna skurðaaðgerðar. 

„Auk þess eru þeir sjúklingar sem eru á fjöllyfjameðferð eða ofurfjöllyfjameðferð í aukinni áhættu á lengri sjúkrahúsdvöl og líkur aukast á endurinnlögn til viðbótar því að dánartíðni eykst,“ segir Freyja og bætir því við að næstu skref í rannsókninni séu að rýna hve viðeigandi lyfjameðferð aldraðra sé auk þess að spá fyrir um lyfjatengdan skaða í kjölfar aðgerðar.  

Doktorsverkefni sitt vinnur Freyja undir leiðsögn Martins Inga Sigurðssonar, prófessors við Læknadeild HÍ, sem er gríðarlega afkastamikill vísindamaður, og Önnu Bryndísar Blöndal, lektors í lyfjafræði við HÍ. Auk þess eru í doktorsnefndinni þau Aðalsteinn Guðmundsson, öldrunarlæknir á Landspítala og klínískur dósent við Háskóla Íslands, og Elín Soffía Ólafsdóttir, prófessor í lyfjafræði við HÍ, ásamt tveimur breskum sérfræðingum, þeim Ian Bates við University College í London og Jennifer Stevenson við King‘s College í London.  

Niðurstöður stuðla að öryggari notkun lyfja

Verkefni af þessum toga skipta miklu varðandi það að auka lífslíkur fólks með langvinna sjúkdóma, bæta heilsu þess og líðan samtímis því að draga úr kostnaði heilbrigðiskerfisins. Þessi rannsókn Freyju er þess vegna í fullkomnum tengslum við áherslur nýrrar stefnu Háskóla Íslands, HÍ26, þar sem þunginn er á að leysa verkefni sem tengjast áskorunum samtímans, að hagnýta nýsköpun til að bæta hag samfélagsins og að leita lausna sem skilgreind eru í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Þar er m.a. áhersla á heilsu og vellíðan og sérstaklega tiltekið að draga eigi úr ótímabærum dauðsföllum af völdum annarra sjúkdóma en smitsjúkdóma með fyrirbyggjandi aðgerðum. 

„Rannsóknin mun veita okkur dýrmætar upplýsingar, m.a. um hvernig við stöndum okkur í að veita viðeigandi lyfjameðferð. Tengslin við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna felast m.a. í því hvernig við getum fyrirbyggt óviðeigandi fjöllyfjameðferð og lyfjatengdan skaða og þannig bætt heilsu okkar. Við sem komum að rannsókninni teljum að niðurstöður hennar muni stuðla að öruggari og árangursríkari notkun lyfja á Íslandi,“ segir Freyja.   

Verkefni Freyju og samstarfshóps hefur eins og ráða má af framansögðu mikil samfélagsleg áhrif enda er vísindastarf gjarnan forsenda framþróunar í heilbrigðisþjónustu. „Rannsóknir gefa okkur tækifæri til að skoða sífellt hvort við erum að beita réttum aðferðum, meðferðum eða þjónustu. Þannig erum við sífellt að bæta við nýrri þekkingu sem stuðlar að framþróun í heilbrigðisþjónustu,“ segir Freyja.   

Freyja segir að rannsóknin sé mikilvæg til þjónustuþróunar í lyfjamálum innan heilbrigðiskerfisins, ekki síst við að forgangsraða verkefnum. „Við munum fá gagnlegar upplýsingar til að spá fyrir um hvaða sjúklingahópar búa við auknar líkur á lyfjatengdum skaða eftir innlögn, sem gerir okkur þar með kleift að leita leiða til að fyrirbyggja hann.“  

Freyja Jónsdóttir

Markmiðið að draga úr skaða vegna lyfja

Þegar Freyja er spurð um kveikjuna að rannsókninni svarar hún því til að átak Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, sem nefnist „Lyf án skaða,“ hafi vakið athygli á mikilvægi lyfjatengds skaða sem alþjóðlegri lýðheilsuvá.  

„Einn af þeim þáttum sem taldir eru skipta miklu máli er notkun margra lyfja samtímis, áðurnefnd fjöllyfjameðferð. Það hefur vakið athygli mína í störfum mínum sem klínískur lyfjafræðingur á Landspítala hve brýnt er að leggja aukna áherslu á að bæta gæði og öryggi í lyfjamálum. Ég hef meðal annars unnið í töluverðan tíma á bráðamóttöku og þar hef ég séð hversu algengt það er að sjúklingar leggist inn vegna lyfjatengdra vandamála sem oft hefði mátt fyrirbyggja áður en til innlagnar kom.“

Spálíkan notað til að meta líkur á lyfjaskaða

Freyja segir að í verkefninu verði framkvæmd faraldsfræðirannsókn á fjöllyfjameðferð og metið hversu viðeigandi lyfjameðferðin sé, áhættuþættir verði skoðaðir ásamt afdrifum sjúklinga í kjölfar innlagnar á spítala. „Einnig munum við beita spálíkani til að meta líkur á lyfjatengdum skaða í kjölfar innlagnar á spítala.“  
 
Freyja segir að rannsóknin sé mikilvæg til þjónustuþróunar í lyfjamálum innan heilbrigðiskerfisins, ekki síst við að forgangsraða verkefnum. „Við munum fá gagnlegar upplýsingar til að spá fyrir um hvaða sjúklingahópar búa við auknar líkur á lyfjatengdum skaða eftir innlögn sem gerir okkur þar með kleift að leita leiða til að fyrirbyggja hann.“