Skip to main content

Verðmætamat orku og umhverfis

David Cook, doktorsnemi í umhverfis- og auðlindafræði

David Cook, doktorsnemi í umhverfis- og auðlindafræði, vinnur að því að þróa ramma fyrir verðmætamat á umhverfislegum áhrifum jarðhitavirkjana. Þar hyggst hann nota allra nýjustu aðferðir til að reikna út heildarverðmæti svæðis sem á að nýta fyrir jarðhitaiðnaðinn. Heildarverðmæti er reiknað út áður en litið er til þeirrar virðisbreytingar sem kann að verða vegna virkjunarinnar sjálfrar.

David er menntaður í hagfræði og lauk einnig MS-námi í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands með áherslu á málefni tengd endurnýtanlegri orku. „Möguleikinn á að hefja doktorsnám hér var frábært tækifæri til að auka við færni mína og þekkingu með leiðsögn góðra sérfræðinga,“ segir David.

Doktorsverkefnið er þríþætt. Því er ætlað að setja upp kenningalegan ramma til að meta umhverfiskostnað tengdan þróun og nýtingu jarðhita og prófa ýmsar aðferðir sem nýta má til að meta slíkan umhverfiskostnað. Enn fremur verður framkvæmd frumrannsókn á verðmætamati á umhverfisáhrifum sérvalinnar jarðhitavirkjunar á Íslandi.

David Cook

„Rannsóknin mun styrkja stöðu Íslands sem leiðandi afls í þróun sjálfbærrar nýtingar á jarðhita og tengdu umhverfismati.“

David Cock

„Rannsóknin mun styrkja stöðu Íslands sem leiðandi afls í þróun sjálfbærrar nýtingar á jarðhita og tengdu umhverfismati,“ bætir David við. Verkefnið muni auk þess auka veg nýrra aðferða sem hægt er að beita við mat á nýtingu umhverfisauðlinda á Íslandi en hingað til hefur verið einblínt á hefðbundna efnahagslega mælikvarða í mati á orkuverkefnum.

„Engar afgerandi niðurstöður liggja fyrir enn þá enda hóf ég verkið haustið 2014. Ég hef verið að skrá niðurstöður úr rannsókn á verðmætamati á Heiðmörk. Þar voru notaðar aðferðir til að meta fjárhagslegt gildi staða sem hafa ekki ákveðið markaðsvirði þar sem þá er vart hægt að selja. Þessu fyrsta stigi verkefnisins er ætlað að kynna til sögunnar þá aðferð sem notuð verður til að meta afskekkt svæði sem oft eru nýtt í jarðhitaiðnaði; staði sem fólk sækir ekki oft heim en eru þó verðmætir í krafti tilveru sinnar,“ segir David að lokum.

Leiðbeinandi: Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði.