Skip to main content

„Þetta er gargandi snilld!“

Guðmundur Sæmundsson, aðjunkt  í Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild

„Doktorsrannsókn mín snýr að málnotkun í umfjöllun um íþróttir og markmið hennar er að draga saman upplýsingar um ástæður þess sérmáls sem þar tíðkast.“ Þetta segir Guðmundur Sæmundsson, aðjunkt í íslensku við íþróttafræðasetrið á Laugarvatni.

„Einna áhugaverðust er sú sérstaka orðræða sem einkennir íþróttirnar en hún skapast sennilega af samspili umhverfis og eðlis íþrótta en þar er mikill hraði, samkeppni og spenna. Allt þetta skapar sterkari stílbrögð en í öðru málfari.“

Guðmundur Sæmundsson

„Í íþróttamáli er mikið um frávik frá „réttu“ málfari, og menn ætla sér beinlínis þessi frávik. Frávikunum er ætlað að skapa ákveðna stemningu og hyggist einstaklingar verða gjaldgengir innan íþróttanna þurfa þeir í raun að tileinka sér þetta málfar,“

Guðmundur Sæmundsson

 „Í íþróttum er myndmál til dæmis notað meira en ella og þar er meira um ýkjur. Við þekkjum svipuð sérmál meðal unglinga og sjómanna sem einkennast af þessum sama krafti. Þó hefur íþróttamálfarið sín sérstöku einkenni sem aðgreina það frá öllu öðru,“ segir Guðmundur. Rannsókn hans ber hið sérstaka og lýsandi heiti „Það er næsta víst“, en margir kannast við þann frasa úr barka Bjarna Felixsonar, íþróttafréttamanns hjá Ríkissjónvarpinu.

„Ég ætla að reyna að greina þessa sérstöðu íþróttamálfarsins og á von á komast að því að umhverfi og eðli íþróttanna hafi mestu áhrifin. Til að mynda er fólk í yngri aldurshópum stærstur hluti þeirra sem stunda íþróttir. Beinar spennuþrungnar útsendingar frá íþróttaviðburðum eru hraðar og fullar af tilfinningum. Hvort tveggja á sinn þátt í að skapa sérstaka stemningu og málfar, ásamt ýmsum öðrum þáttum.“

Guðmundur er íslenskufræðingur, málvísindamaður og menntunarfræðingur og hefur kennt við íþróttafræðasetur KHÍ og nú HÍ á Laugarvatni í sjö ár. Hann hóf rannsókn sína fyrir rúmu ári undir leiðsögn leiðbeinenda sinna, þeirra Sigurðar Konráðssonar, prófessors við Háskóla Íslands, og Ingólfs Á. Jóhannessonar, prófessors við Háskólann á Akureyri.

„Þetta málfar kemur sterkt fram hjá nemendum mínum sem flestir koma beint úr íþróttaiðkun. Þannig kviknaði áhugi minn á því að fjalla um og tengja saman íþróttir og málfar.“

„Í íþróttamáli er mikið um frávik frá „réttu“ málfari, og menn ætla sér beinlínis þessi frávik. Frávikunum er ætlað að skapa ákveðna stemningu og hyggist einstaklingar verða gjaldgengir innan íþróttanna þurfa þeir í raun að tileinka sér þetta málfar,“ segir Guðmundur. „Málfarið tengist líka þeirri hetjuímynd sem íþróttir hafa yfir sér. Fornhetjurnar okkar voru dáðar á svipaðan hátt og íþróttamennirnir okkar nú á dögum og kölluðu því á sömu stílbrigði í máli.

Við sjáum til að mynda ýkjurnar um Gunnar á Hlíðarenda sem sagður var stökkva hæð sína í loft upp bæði afturábak og áfram í fullum herklæðum! Í sumum sögum, t.d. Grettis sögu, eru ýktar lýsingar á ómannlegum aflraunum. Er þetta ekki eitthvað svipað og þegar fjölmiðlamenn lýsa Ólafi Stefánssyni eða Eiði Smára og kalla tilþrif þeirra „gargandi snilld“ eða eitthvað enn hástemmdara?“