Skip to main content

Samþjöppun í sjávarútvegi

Þórólfur Matthíasson, prófessor við Hagfræðideild, og Sveinn Agnarsson, dósent við Viðskiptafræðideild

Snemma á níunda áratugnum voru sett lög sem takmarka aðgengi að sjávarauðlind Íslendinga og svokölluðu kvótakerfi var komið á. Markmið fiskveiðistjórnunar snúa að verndun nytjastofnanna og að hafa hag af veiðunum á sama tíma. Hagfræðingar hafa lengi velt fyrir sér tengslum fiskveiðistjórnunar og arðsemi í sjávarútvegi enda skapar greinin hér efnahagslegan grundvöll fyrir margháttaðan atvinnurekstur. Áhrif kvótakerfisins á samþjöppun aflaheimilda hafa verið til umræðu á Íslandi frá árdögum kvótakerfisins. Að sögn Þórólfs Matthíassonar, prófessors í hagfræði, hafa margir og ekki síst stjórnmálamenn talið of mikla samþjöppun aflaheimilda óæskilega.

„Sigurður Ingi Jóhannsson, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, hefur t.d. bent á að reglur hafi verið settar um hámarksaflahlutdeild til að koma í veg fyrir of mikla samþjöppun. Með rannsókn okkar vildum við sjá hversu mikið samþjöppun hefur aukist í greininni frá því að kvótakerfi var tekið upp. Enn fremur að sjá hvort þróunin hefði orðið eitthvað önnur í krókakerfinu en í almenna kvótakerfinu. Í krókakerfinu eru fyrst og fremst smærri bátar sem veiða á línu og handfæri en í almenna kerfinu eru öll stærri veiðiskip,“ segir Þórólfur um nýja rannsókn sem hann hefur unnið í félagi við Svein Agnarsson, dósent við Viðskiptafræðideild, og meistaranemann Florent Gyri frá Agro Paris Tech í Frakklandi.

Þórólfur Matthíasson og Sveinn Agnarsson

„Með rannsókn okkar vildum við sjá hversu mikið samþjöppun hefur aukist í greininni frá því að kvótakerfi var tekið upp. Enn fremur að sjá hvort þróunin hefði orðið eitthvað önnur í krókakerfinu en í almenna kvótakerfinu.“

Þórólfur Matthíasson og Sveinn Agnarsson

Markmiðið var að skoða samþjöppun veiðiheimilda frá árinu 1990 til 2014. Að sögn Þórólfs var notast við nokkra mælikvarða á samþjöppun. „Við notuðum hlutdeild stærsta fyrirtækis í heildarkvóta og einnig hlutdeild fimm, tíu og 25 stærstu fyrirtækjanna. Einnig voru notaðir mælikvarðar til að slá máli á samþjöppun á borð við svokallaða Herfindal-Hirschman-vísitölu og Gini-vísitölu en hvort tveggja eru mælikvarðar sem hagfræðingar hafa lengi notað. Samþjöppun í atvinnugrein getur aukist þó svo hlutdeild 10 eða 25 stærstu fyrirtækjanna breytist ekki og vísitölurnar tvær taka tillit til þess hvor með sínum hætti,“ segir Þórólfur.

Þeir félagar hafa þegar birt grein í tímaritinu Marine Policy þar sem gerð er grein fyrir niðurstöðum og þær settar í samhengi. „Við útreikning á Herfindal-Hirschman-vísitölunni fyrir fyrirtæki innan beggja kerfa frá fiskveiðiárinu 2001 til 2002 til fiskveiðiársins 2014 til 2015 sést að þeim mun stærri sem vísitalan er, þeim mun meiri er samþjöppun í greininni. Vísitalan tæplega tvöfaldaðist í almenna kerfinu en fjórfaldaðist í krókaflakerfinu. Meðalfyrirtækið hafði yfir að ráða 2,56% af kvótanum í almenna kerfinu fiskveiðiárið 2001 til 2002 en 4,32% fiskveiðiárið 2014 til 2015. Í krókakerfinu var staðan þannig að meðalfyrirtækið réð yfir 0,45% af heildarkvótanum í upphafi en 1,83% í lokin á rannsóknatímabilinu. Við skoðuðum einnig breytingar á dreifingu kvóta milli landssvæða og þar er samþjöppunin ekki eins áberandi sem bendir til þess að sameining fyrirtækja leiði ekki endilega til tilflutnings aflaheimilda milli landshluta.“

Þórólfur segist vonast til að þessi rannsókn auðgi og bæti umræðu um sjávarútvegsmál og stjórn fiskveiða. „Það er mikilvægt að sú umræða eigi sér stað á grundvelli staðreynda eftir því sem staðreyndir liggja fyrir.“

Skip úti á sjó