Skip to main content

Viðbrögð við náttúruvá

Guðrún Gísladóttir, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild, og Guðrún Pétursdóttir, forstöðumaður Stofnunar Sæmundar fróða

Þverfræðilegur hópur vísindamanna undir stjórn Guðrúnar Pétursdóttur, forstöðumanns Stofnunar Sæmundar fróða við Háskóla Íslands, og Guðrúnar Gísladóttur, prófessors í landfræði við Háskóla Íslands, hlaut í fyrra 420 milljóna króna norrænan styrk til að koma á fót norrænu öndvegissetri um rannsóknir á því hvernig auka megi öryggi samfélaga andspænis náttúruhamförum.

„Við nöfnur höfum um árabil unnið að rannsóknum á áhrifum náttúruhamfara og viðbrögðum við þeim,“ segir Guðrún Pétursdóttir sem hefur m.a. rannsakað áhrif eldgossins í Eyjafjallajökli á heilsu manna og dýra. Hún hefur einnig unnið að umfangsmikilli rannsókn á endurreisn samfélaga eftir náttúruhamfarir.

Guðrún Gísladóttir hefur einnig unnið að víðtækum rannsóknum á áhrifum Eyjafjallajökulsgossins sem m.a. snúast um áhrif á umhverfi, íbúa, ferðamenn og samfélög og hvernig auka megi viðnámsþrótt þeirra. Rannsóknir hennar hafa einnig beinst að áhrifum ár- og strandflóða á sömu þætti. „Ég hef stundað rannsóknir á skilningi fólks á náttúrvá og upplifun á viðbragðsáætlunum vegna hennar og hvort og þá hvernig nota megi þekkingu heimafólks til að efla viðbragðsáætlanir,“ segir Guðrún Gísladóttir.

Verkefnið sem þær nöfnur stýra kallast NORDRESS og er það bæði víðtækt og þverfræðilegt og mun fjöldi vísindamanna og stofnana á Norðurlöndum vinna að því næstu fimm árin. Stærstur hluti verkefnisins verður unninn hér.

Áhersla er lögð á náttúruvá og seiglu samfélaga, svo þau geti sem best búið sig undir hamfarir og rétt sig við eftir áföll. Sjónum verður beint að einstaklingum, hópum, stofnunum og innviðum samfélagsins. Unnið verður með mismunandi ógnir, allt frá staðbundnum, eins og ofanflóðum, til víðtækra eins og fárviðris, sjávar- og árflóða og eldgosa sem geta ógnað stórum svæðum.

Guðrún Gísladóttir og Guðrún Pétursdóttir

„Við nöfnur höfum um árabil unnið að rannsóknum á áhrifum náttúruhamfara og viðbrögðum við þeim.“

Guðrún Gísladóttir og Guðrún Pétursdóttir

Meðal þess sem rannsakað verður eru áhrif náttúruhamfara á andlega og líkamlega heilsu fólks og hvernig búa má börn og fullorðna betur undir að takast á við slík áföll. Sérstaklega verður hugað að þætti fjölmiðla og samfélagsmiðla. Viðvaranir og viðbragðsáætlanir eru mikilvægur þáttur forvarna, en menn skilja þær með mismunandi hætti og því þarf að laga þær að mismunandi hópum.

Almenn snjallsímaeign gefur nýja möguleika á að virkja almenning til þátttöku í vöktun vegna náttúruhamfara eins og flóða eða skógarelda, en setja þarf upp skilvirk kerfi til að gagn verði að því og eru ráðleggingar um slíkt meðal viðfangsefna verkefnisins.

Einnig verða metin spálíkön um náttúruvá og möguleg viðbrögð, til dæmis við lokun samgangna á láði, legi og í lofti, til að finna skilvirkustu leiðir fram hjá slíkum truflunum. „Síðast en ekki síst verður reynslu og þekkingu á löggjöf og kerfum sem varða náttúruhamfarir, einkum velferðarkerfinu og almannavörnum, miðlað milli norrænu ríkjanna,“ segir Guðrún Pétursdóttir.

Til viðbótar beinum rannsóknarverkefnum verður áhersla lögð á menntun og þjálfun með fjölda námskeiða fyrir fjölbreytta hópa, s.s. björgunarsveitir, fjölmiðla, heilbrigðisstarfsmenn og doktorsnema á ýmsum fræðasviðum.

Vísindamenn m.a. á sviði landfræði, lýðheilsuvísinda, félagsráðgjafar, sálfræði, jarðvísinda, byggingar-, umhverfis- og samgönguverkfræði og jarðskjálftarannsókna innan Háskóla Íslands ásamt sérfræðingum frá almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, Veðurstofu Íslands, Landhelgisgæslu Íslands og Viðlagatryggingar Íslands koma að verkefninu fyrir Íslands hönd.