Ungu fólki umhugað um tækifæri innflytjenda | Háskóli Íslands Skip to main content

Ungu fólki umhugað um tækifæri innflytjenda

Sigrún Aðalbjarnardóttir, prófessor við Uppeldis- og menntunarfræðideild„

„Samfélög okkar verða æ fjölmenningarlegri með tilliti til mismunandi þjóðernis fólks, menningar og trúarbragða. Það vekur ýmsar flóknar spurningar sem brýnt er að fást við, m.a. um hvað það er að vera borgari og um lýðræði, mannréttindi og menntun. Við verðum að búa unga fólkið undir þessar áskoranir og leggja þar sérstaka áherslu á að efla vitund þess um félagslegt réttlæti og virðingu fyrir margbreytileika.“ Þetta segir Sigrún Aðalbjarnardóttir, prófessor við Uppeldis- og menntunarfræðideild, sem hefur að undanförnu unnið að rannsóknarverkefninu „Borgaravitund ungs fólks í lýðræðisþjóðfélagi“.

Sigrún hefur um árabil stundað rannsóknir á félags- og siðgæðisþroska barna og ungmenna og segir rannsóknir á borgaravitund ungmenna eðlilegt framhald þeirra. Hún bendir á að finna þurfi betra jafnvægi í menningu okkar á milli lýðræðisgildanna frelsis annars vegar og bræðralags/systkinalags hins vegar. „Í því efni er mikilvægt að efla ekki aðeins skilning ungs fólks á rétti sínum heldur einnig ábyrgð þess gagnvart öðru fólki og náttúru með því að rækta sjálfstæði þess og frumkvæði jafnt sem umhyggju og samlíðan með öðrum,“ segir hún.

Sigrún hefur því í samstarfi við fleiri vísindamenn og doktors- og meistaranema leitað eftir hugmyndum ungs fólks um lýðræði, mannréttindi, borgaralega þátttöku fólks og aðgerðir til heilla fyrir einstaklinga og samfélag þegar til framtíðar er litið.

Sigrún Aðalbjarnardóttir

Sigrún hefur um árabil stundað rannsóknir á félags- og siðgæðisþroska barna og ungmenna og segir rannsóknir á borgaravitund ungmenna eðlilegt framhald þeirra.

Sigrún Aðalbjarnardóttir

Niðurstöður um viðhorf ungmenna til réttinda innflytjenda hafa þegar litið ljós. „Þær sýna að þeim ungmennum sem fannst þau fá tækifæri í skólastarfi til að ræða mál frá ýmsum hliðum og þeim sem fannst þau einnig virk í slíkri umræðu höfðu jákvæðari viðhorf til slíkra réttinda innflytjenda. Þannig skiptir máli að veita nemendum tækifæri til opinna umræðna. Í viðtölum við ungmennin kom einnig fram að flestum þeirra er umhugað um tækifæri innflytjenda í samfélaginu og þau leggja áherslu á mikilvægi íslenskukunnáttu þeirra, að þeir hafi sömu réttindi og innfæddir og búi ekki við fordóma í samfélaginu. Neikvæð umræða meðal þeirra um innflytjendur einkenndist hins vegar að nokkru leyti af andstöðu og ótta við breytingar á íslenskri menningu, trú og samfélagi,“ segir Sigrún.

Rannsókn Sigrúnar og samstarfsfélaga er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi og gefur tækifæri til samanburðar við önnur lönd sem læra má af. „Við bindum einnig vonir við að niðurstöður rannsóknarinnar hvetji til uppeldis- og kennsluhátta þar sem unga fólkið er hvatt til að skoða mál frá mismunandi hliðum, rökræða, leita lausna og hafa áhrif. Í víðara samhengi og þegar til framtíðar er litið eru vonir bundnar við að þátttaka barna og unglinga í umræðum um málefni samfélagsins á lýðræðislegum nótum leggi grunn að víðsýnna og réttlátara samfélagi,“ segir Sigrún að lokum.

Netspjall