Skip to main content

Skilyrt fjárhagsaðstoð

Lena Hrönn Marteinsdóttir, MA-nemi við Félagsráðgjafardeild

„Í rannsókninni er fjallað um skilyrðingar í fjárhagsaðstoð en mörg nágrannalanda okkar hafa sett í löggjöf sína skilyrðingar fyrir slíkri aðstoð. Oft er skilyrðið einhvers konar virkni, til dæmis að taka þátt í námskeiði eða starfsþjálfun,“ segir Lena Hrönn Marteinsdóttir um MA-rannsókn sína við Félagsráðgjafardeild.
 

Lena Hrönn Marteinsdóttir

„Í rannsókninni er fjallað um skilyrðingar í fjárhagsaðstoð en mörg nágrannalanda okkar hafa sett í löggjöf sína skilyrðingar fyrir slíkri aðstoð. Oft er skilyrðið einhvers konar virkni, til dæmis að taka þátt í námskeiði eða starfsþjálfun.“

Lena Hrönn Marteinsdóttir

Lena Hrönn segir mikla áherslu í Evrópu á virkni þeirra sem þar þiggja velferðarþjónustu. Hún segir að hér hafi löggjöf um atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir verið endurskoðuð, en ólíkt löggjöf um félagsþjónustu á Norðurlöndum, hafi ákvæði um fjárhagsaðstoðina ekki tekið jafnmiklum breytingum hér. „Hér hafa tvö frumvörp farið fyrir Alþingi þess efnis að leyfa sveitarfélögum að skilyrða fjárhagsaðstoð, en
báðum verið synjað. Það er þó ljóst að einhver sveitarfélög hérlendis skilyrða fjárhagsaðstoðina þótt það sé ekki heimilað í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga,“ segir Lena.

Hún bætir við að með rannsókninni verði meðal annars kannað hversu mörg sveitarfélög skilyrði fjárhagsaðstoðina og hvort þau geri það á grundvelli laga. „Þess vegna er mikilvægt að kortleggja hvernig sveitarfélögin haga framkvæmd fjárhagsaðstoðar,“ segir Lena Hrönn. „Rannsóknin mun líka sýna hvort mikill munur sé á milli einstakra sveitarfélaga.“

Lena Hrönn segir mikilvægt að skoða á hvaða hátt löggjöf Norðurlandanna hafi breyst og bera hana saman við það sem hér tíðkast samhliða því að meta hvort norræna módelið virki hérlendis. „Það er mikilvægt að fylgjast með þróun í velferðarþjónustu nágrannalandanna, en jafnframt verður að athuga hvort aðferðir þar henti hér áður en þær eru teknar í notkun.“

„Við erum í efnahagsþrengingum,“ segir Lena Hrönn, „þar sem aukið atvinnuleysi skekur landið. Sá hópur stækkar sem þarf að nýta sér fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Því er mikilvægt að huga að því hvernig fjárhagsaðstoð kann að nýtast sem tæki til skilyrðinga og hvort krafa um framlag eða virkni hafi jákvæð áhrif,“ segir Lena Hrönn. Hún bætir við að rannsóknin gæti þannig gefið vísbendingar um réttmæti skilyrðinga og þá hvort þörf sé á lagabreytingum sem yrðu samtímis í þágu þeirra sem þiggja fjárhagsaðstoð og samfélagsins.

Lena Hrönn segist vonast til að rannsóknin hafi gildi fyrir einstaklinga, ríkið og einnig sveitarfélögin um setningu og framkvæmd laga og reglna um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga.

Leiðbeinandi: Guðný Björk Eydal, prófessor við Félagsráðgjafardeild.