Skip to main content

Um MA-nám í fornleifafræði

Fornleifafræði fjallar um samfélög með því að rannsaka minjar um þau. Fortíðin er meginviðfangsefni fornleifafræðinnar en í vaxandi mæli er aðferðum hennar einnig beitt til að greina samfélög nútímans. Fornleifafræði getur verið söguleg eða forsöguleg. Söguleg fornleifafræði fjallar um þau tímabil sem ritheimildir eru einnig til um en forsöguleg fornleifafræði fjallar um þá tíma sem fornleifar einar eru til frásagnar um.

Fornleifafræði getur varpað ljósi á langtímaþróun samfélaga, efnahagsleg og pólitísk kerfi og breytingar á þeim, landnýtingu og framleiðsluferli, tækni og tísku, handverk og listsköpun, sjálfsmynd og vitund en einnig tiltekna einstaklinga og hugmyndir þeirra. Fornleifafræði sækir aðferðafræði sína og kennilegan grunn jöfnum höndum til hug- og félagsvísinda auk þess sem raunvísindalegar aðferðir hafa skipað stóran sess í fornleifarannsóknum síðan um 1960. Er þar helst að nefna greiningar manna- og dýrabeina, skordýra, fræja og frjókorna, auk aldursgreininga af ýmsu tagi. Hin síðustu ár hafa rannsóknir fornleifafræðinga beinst í auknum mæli að félagslegum þáttum sem lesa má úr efnismenningu fortíðar.

Fornleifafræði fæst við að lesa úr, túlka og draga ályktanir um horfin samfélög útfrá brotakenndum heimildum og reynir því oft á rökhyggju og öguð vinnubrögð. Við vettvangsvinnu reynir ennfremur á verkvit og líkamlegt úthald. Fornleifarannsóknir – einkum vettvangsvinna – felast oftar en ekki í samstarfi margra fræðimanna og reynir slíkt á félagsþroska og getu til að skilja og nýta ólík sjónarmið og ólíkar fræðigreinar.

Námsleiðir
Meistaranám í fornleifafræði er 120e nám sem tekur tvö ár miðað við full námsafköst. Einnig er boðið upp á 90e meistaranám í hagnýtri fornleifafræði og 30e viðbótardiplómu í hagnýtri fornleifafræði.

Doktorsnám í fornleifafræði er 180e rannsóknarnám. Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu Hugvísindastofnunar.

Markmið
Nám í fornleifafræði til MA-prófs og doktorsprófs er ætlað þeim sem hyggja á rannsóknarstörf á sérhæfðari sviðum innan greinarinnar.

Kennsluhættir
Verkleg kennsla í fornleifafræði fer fram á vettvangi fornleifarannsókna og í kennslustundum. Bókleg kennsla fer fram í fyrirlestrum, samræðuformi og málstofum. Tímasókn er mikilvæg en því aðeins hafa menn gagn af henni að þeir komi vel undirbúnir og frumskilyrði er að hafa lesið það efni sem fjalla á um hverju sinni.

Nánari upplýsingar
Hægt er að hafa samband við verkefnastjóra deildar og verkefnastjóra alþjóðamála til að fá nánari upplýsingar um nám og skiptinám. Upplýsingar um námið má nálgast í kennsluskrá og á vefsíðu fornleifafræðinnar.