Skip to main content
4. mars 2015

Hvalaskoðun ólíkleg til að hafa neikvæð áhrif á hrefnur

Hvalaskoðun er ekki líkleg til þess að hafa langvarandi neikvæð áhrif á lífslíkur hrefna samkvæmt rannsókn sem Marianne H. Rasmussen, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík, og samstarfsfólk hennar vann nýverið. Grein um rannsóknina birtist nýverið í vísindatímaritinu The Journal of Wildlife Management.

Rannsóknin var hluti af doktorsverkefni Frederiks Christiansen, sem lauk sameiginlegri doktorsgráðu frá Háskóla Íslands og Háskólanum í Aberdeen í Skotlandi árið 2013. Verkefnið vann hann undir leiðsögn Marianne og Davids Lusseau, vísindamanns við Háskólann í Aberdeen. Lusseau hefur m.a. rannsaka áhrif smáhvelaskoðunar á höfrunga við strendur Nýja-Sjálands og meðal annars komist að því að slík hvalaskoðun hefur neikvæð áhrif á lífsskilyrði dýranna. „Við Lusseau töldum því mikilvægt, í ljósi vaxandi vinsælda hvalaskoðunar á Íslandi, að kanna áhrif greinarinnar á hvali við Íslandsstrendur,“ segir Marianne. Auk Marianne, Christansens og Lusseaus kom Chiara Bertulli, doktorsnemi í líffræði við Háskóla Íslands, einnig að rannsókninni.

Í greininni, sem ber heitið „Estimating Cumulative Exposure of Wildlife to Non-Lethal Disturbance Using Spatially Explicit Capture-Recapture Models“, kemur fram að fylgst hafi verið með hegðun hrefna í Faxaflóa í sumrin 2008-2013. Var það gert með tvennum hætti. Annars vegar úr Garðskagavita þar sem notaður var svokallaður sjónhornamælir og sjónaukar til verksins og hins vegar um borð í hvalaskoðunarbát þar sem myndavélar voru m.a. notaðar til að meta fjarlægð bátsins frá hrefnu.

Fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að hegðun hrefnanna væri ólík við þessar mismunandi aðstæður og að ferðir hvalaskoðunarbáta hefðu áhrif á hrefnur í leit að æti. Með því að notast við frekari gögn, meðal annars ljósmyndagreiningu þar sem hægt er að bera kennsl á einstakar hrefnur, komst rannsóknarhópurinn hins vegar að því að hvalaskoðunarbátar rekast ekki mjög oft á sömu einstaklingana og því eru heildaráhrif hvalaskoðunar á fæðuhegðun hrefnanna ekki mikil. Rannsóknarhópurinn ályktaði því að hvalaskoðun í núverandi mynd væri ekki líkleg til þess að hafa langvarandi neikvæð áhrif á lífslíkur dýranna.

Þess má geta að greinin í The Journal of Wildlife Management er ein af fimm vísindagreinum sem Frederik Christiansen vann í tengslum við doktorsnám sitt og hlaut hann sérstök verðlaun fyrir rannsóknir sínar á ráðstefnu um sjávarspendýr á Nýja-Sjálandi árið 2013.
 

Marianne H. Rasmussen, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík.
Marianne H. Rasmussen, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík.