Skip to main content
14. júní 2021

Jarðvísindafólk HÍ hlýtur verðlaun fyrir frumkvæði og forystu

Jarðvísindafólk HÍ hlýtur verðlaun fyrir frumkvæði og forystu - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jarðvísindafólk við Háskóla Íslands hlaut í morgun ársfundarverðlaun Háskóla Íslands. Verðlaunin voru nú veitt í þriðja sinn en með þeim vill Háskóli Íslands heiðra hóp eða teymi sem sýnt hefur sérstakt frumkvæði og forystu við uppbyggingu framúrskarandi starfs innan skólans.

„Við Háskóla Íslands starfar einstaklega öflugur hópur jarðvísindafólks við Jarðvísindadeild, Jarðvísindastofnun og Norræna eldfjallasetrið, sem hefur í sameiningu gegnt algjöru lykilhlutverki í tengslum við eldsumbrotin á Reykjanesskaga undanfarna mánuði,“ sagði Háskólarektor á ársfundi skólans í morgun þegar verðlaunin voru afhent. 

„Þarna eru á ferðinni jarðfræðingar, jarðeðlisfræðingar, jarðskjálftafræðingar, og jarðefnafræðingar, svo dæmi séu tekin, sem hafa unnið þrekvirki undanfarna mánuði og undirstrika með þekkingu sinnu, fagmennsku, reynslu og ósérhlífni mikilvægi og gæði þess öfluga starfs sem unnið er í Háskóla Íslands alla daga.“

Mikilvægar upplýsingar til stjórnvalda og almennings

Jón Atli sagði að auk þess að sinna mikilvægum rannsóknum hafi jarðvísindafólk HÍ verið óþreytandi að miðla upplýsingum og þekkingu út í samfélagið, eins og Háskóli Íslands hefur alltaf lagt áherslu á.

„Þetta hafa þau gert með upplýsingagjöf og samvinnu við fjölmiðla þannig að almenningur hafi aðgang að bestu mögulegu upplýsingum hverju sinni og skilji betur þá atburðarrás sem birtist okkur daglega í sjónvarpi, dagblöðum og á vefmiðlum.“

Jón Atli sagði að þetta hefði vísindafólkið einnig gert með samstarfi og ráðgjöf til stjórnvalda og almannavarna þannig að ráðamenn hafi getað tekið upplýstar og skynsamlegar ákvarðanir með almannahagsmuni að leiðarljósi. 

„Ég er þess fullviss að þetta virka samtal sem jarðvísindafólkið okkar hefur átt við samfélagið í gegnum stjórnvöld og fjölmiðla skipti miklu máli. Þetta á sérstaklega við á tímum þegar upplýsingaóreiða og vantraust í garð vísinda virðist fara vaxandi. Með verðlaununum viljum við undirstrika að alla daga er unnið stórmerkilegt starf innan Háskóla Íslands – starf sem verðskuldar viðurkenningu, hvort sem það er á sviði náms og kennslu, rannsókna og nýsköpunar, jafnréttismála, samfélagsþátttöku eða frumkvæðis nemenda, svo dæmi séu tekin,“ sagði Háskólarektor í morgun. 

Freysteinn Sigmundsson, deildarforseti Jarðvísindadeildar, veitti verðlaununum viðtöku fyrir hönd alls jarðvísindafólks við HÍ ásamt þeim Önnu Jónu Baldursdóttur, Bryndísi Brandsdóttur, Chiara Lanzi, sem var fulltrúi doktorsnema, Eniko Bali, Esther Ruth Guðmundsdóttur, Guðfinnu Aðalgeirsdóttur, Halldóri Geirssyni, Magnúsi Tuma Guðmundssyni, Rikke Pedersen, Steffen Mischke, Sæmundi Ara Halldórssyni og Þorvaldi Þórðarsyni.

Handhafar verðlaunanna eru valdir í sameiningu af rektor og forsetum allra fimm fræðasviða Háskóla Íslands.

Verðlaunin afhent