Skip to main content

Að ljóðvæða málið og heiminn um leið

Að ljóðvæða málið og heiminn um leið - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
18. október 2019 12:15 til 13:00
Hvar 

Gimli

Stofa 102

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Stefán Snævarr, prófessor í heimspeki, flytur fyrirlestur þar sem hann kynnir heimatilbúna speki sína sem hann nefnir „póetíska verk- og byggingarhyggju“ (PVB) (e. poetic pragmatism-constructivism). Kjarninn í byggingarhyggjunni er að  heimsmynd okkar, jafnvel heimurinn sjálfur, séu kannski að einhverju leyti okkar eigið sköpunarverk, ekki síst í krafti málsins. Að skapa er að vinna verk, þess vegna er þetta „verkhyggja“ (e. pragmatism), einnig í merkingunni hentistefna,  en fyrirlesari tekur hugmyndir að láni héðan og hvaðan. Ein þeirra er hugmynd Roberts Nozick um að raða (e. rank) heimspekikenningum eftir ágæti, í stað þess að trúa á þær. Enda hafi heimspekinni gengið illa að finna sannleikann. Ein meginhugmynd PVB er sú að fyrirbæri sem sköpuð eru úr fiksjónum, frásögum, og myndhvörfum megi teljast póetísk og/eða hafa póetískan þátt. Fyrirlesari gerir tilraun til að athuga hvort málið sé a.m.k. að einhverju marki skapað úr þessum þremur þáttum og sé því einhvern hátt póetískt. Sé heimurinn að nokkru leyti afurð málsins þá er póetískur þáttur í honum líka. 

Stefán Snævarr er prófessor í heimspeki við Háskólann í Innlöndunum í Noregi. Hann hefur mest fengist við listspeki og þá aðallega heimspeki bókmennta og alþýðulistar. Einnig hefur hann lagt stund á  heimspekilega sálarfræði, auk stjórnspeki og vísindaheimspeki hugvísinda. Hann hefur stundað margháttuð ritstörf og er höfundur sautján bóka. Helsta heimspekirit hans er Metaphors, Narratives, Emotions. Their Interplay and Impact (Rodopi 2009).

Fyrirlesturinn verður haldinn í Gimli 102, þann 18. október kl. 12:15.

Stefán Snævarr, prófessor í heimspeki við Háskólann í Innlöndunum í Noregi.

Að ljóðvæða málið og heiminn um leið