Skip to main content

Lokaverkefnið var laktósafrí ísbúð

Arna María Hálfdánardóttir, BS frá Viðskiptafræðideild

„Fjölskylda mín rekur mjólkurvinnsluna Örnu og í kjölfarið á endurteknum tilraunum til að koma laktósafrírri ísblöndu í ísbúðir á höfuðborgarsvæðinu án árangurs kom upp sú hugmynd að opna laktósafría ísbúð. Ég var á þessum tíma að reyna að finna áhugavert rannsóknarefni fyrir lokaverkefnið mitt og langaði til þess að fjalla um eitthvað öðruvísi, helst eitthvað úr raunveruleikanum.“

Þannig lýsir Arna María Hálfdánardóttir því hvernig hugmyndin að lokaverkefni hennar í BS-námi í viðskiptafræði kviknaði. Þar skoðaði hún hvort grundvöllur væri fyrir því að opna laktósafrítt kaffihús og ísbúð í einum og sama rekstrinum. „Ég gerði viðskipta- og markaðsáætlun fyrir slíkan rekstur,“ segir Arna um verkefnið.

Arna María Hálfdánardóttir

„Sífellt fleiri gera sér grein fyrir því að þeir eru með mjólkuróþol svo að sá hópur fer ört stækkandi.“

Arna María Hálfdánardóttir

Flestir ættu að kannast við vestfirsku mjólkurvinnsluna Örnu. Hún hefur komið með látum inn á íslenskan mjólkurvörumarkað og sækir reyndar nafn sitt til viðskiptafræðingsins unga. „Ég hef verið viðloðandi mjólkurvinnsluna Örnu frá upphafi og það hefur verið mjög skemmtilegt ferli að fylgjast með þeim árangri sem fyrirtækið hefur náð á þessum þremur starfsárum sínum. Því þótti mér tilvalið að tengja lokaverkefnið mitt með einhverjum hætti við Örnu og þegar umræðan um laktósafría ísbúð kom til tals þá fannst mér það áhugavert viðfangsefni enda engin slík til hér á landi,“ segir hún enn fremur.

Rannsókn hennar leiddi í ljós að spurn væri eftir slíkri ísbúð. „Sífellt fleiri gera sér grein fyrir því að þeir eru með mjólkuróþol svo að sá hópur fer ört stækkandi. Valkostir fyrir þann hóp hafa verið takmarkaðir fram til þessa en þeim er þó alltaf að fjölga, ekki síst vegna tilkomu Örnu. Niðurstöður greininga sýndu einnig að fyrirtækið eigi góða möguleika á markaðnum og þá sérstaklega vegna sérstöðu sinnar og tengingar sinnar við Örnu,“ segir Arna.

Ísbúð og kaffihús var svo opnað á haustmánuðum 2016 á Eiðistorgi á Seltjarnarnesi. „Viðtökurnar við því hafa verið frábærar, fólk hefur tekið okkur vel og virðist ánægt með tilkomu staðarins. Það á bæði við um einstaklinga sem koma þangað vegna laktósafría vöruúrvalsins og eins íbúa Seltjarnarness og nágrennis sem gleðjast yfir því að fá kaffihús og ísbúð í hverfið,“ segir Arna að endingu.

Leiðbeinandi: Eðvald Möller, aðjunkt við Viðskiptafræðideild.