Skip to main content
8. október 2017

Kynseginfræðsla og kynlaus klósett á Jafnréttisdögum HÍ

Kynseginfræðsla og kynlaus klósett á Jafnréttisdögum HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Kynseginfræðsla, vinnustofa um líkamsvirðingu og fitufordóma, kvöldstund með feðraveldinu og fræðsla um aðgengiskvíða, tónlist í karllægum heimi og kynjajafnrétti í framhaldsskólum er aðeins brot af því sem í boði verður á Jafnréttisdögum í Háskóla Íslands dagana 9.-20. október. Jafnréttisdagar eru jafnframt samstarfsverkefni allra háskóla landsins og bjóða flestir þeirra upp á áhugaverða viðburði á næstu dögum og vikum.

Jafnréttisdagar í Háskóla Íslands hefjast mánudaginn 9. október kl. 12 á Háskólatorgi með setningarávarpi  Jóns Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands, en í framhaldi verður sýningin „Af hverju kynlaus klósett?“ opnuð. Á sýningunni eru teknar saman reynslusögur kynsegin, trans og intersex fólks af almenningssalernum. Sýningin fer fram á salernum á öllum hæðum Háskólatorgs. Valgerður Hirst Baldurs, formaður jafnréttisnefndar Stúdentaráðs Háskóla Íslands, mun svo fjalla um sýninguna og mikilvægi þess að bjóða upp á kynlaus salerni. Loks verður Snjólaug Lúðvíksdóttir með uppistand um jafnrétti.

Dagana á eftir og allt fram til 20. október verður svo boðið upp á fjölbreytta viðburði sem snerta jafnrétti í afar víðum skilningi, en alls verða þeir hátt í 20 talsins. Meðal þess sem fjallað verður um er kynbundið ofbeldi og ábyrgð stofnana, sálrænar afleiðingar af skorti á aðgengi í lífi fatlaðra kvenna, stöðu kynjanna í íslenskum tónlistarheimi, helstu hugtök sem tengjast kynseginleika og kynjajafnrétti í framhaldsskólum landsins.  Þá verður boðið upp á vinnustofu um líkamsvirðingu og fitufordóma 12. október þar sem nýsjálenski fræðimaðurinn og aktívistinn Cat Pausé flytur erindið „What's size got to do with it? Bodies, Fatness, and Fairness“. Vinnustofan er í samstarfi við Samtök um líkamsvirðingu. Jafnréttisdögum lýkur svo með veglegu lokapartíi HÍ, HR og LHÍ á Kex Hostel  föstudaginn 20. október kl. 20 en þar spila tónlistarmennirnir GKR og ALVIA, auk þess sem fulltrúar flokkanna ræða jafnréttismál í aðdraganda kosninganna. 

Jafnréttisdagar eru nú haldnir í níunda sinn í Háskóla Íslands en markmið þeirra er að tvinna saman hinar ýmsu víddir jafnréttis og femínisma og skoða fjölbreytileika, forréttindi, þöggun, jafnréttisbaráttu, vald og mismunun. Áhersla er lögð á þau tækifæri sem skapast með því að setja hugmyndir um normið – hið „eðlilega“ – og hið undirskipaða undir smásjána. Dagskráin er fjölbreytt og byggist á þverfaglegu samstarfi þar sem gerð er tilraun til að sameina hátíðarbrag og gagnrýna sýn á stöðu jafnréttismála. Ætlunin er einnig að auka sýnileika jafnréttismála og virkja slagkraft þeirra fjölmörgu aðila sem vinna að jafnrétti. Háskólar landsins hafa smám saman aukið samstarf sitt á þessu sviði og munu flestir þeirra bjóða upp á viðburði tengda jafnrétti undir hatti Jafnréttisdaga á næstunni.

Ókeypis er á alla viðburði Jafnréttisdaga og aðgangur öllum heimill.
Nánari upplýsingar um dagskrá Jafnréttisdaga í Háskóla Íslands má finna á vef skólans og Facebook-síðu Jafnréttisdaga.

logo jafnréttisdaga