Skip to main content

5. háskólafundur 6. apríl 2001

5. háskólafundur haldinn 6. apríl 2001 í hátíðasal Háskóla Íslands á 2. hæð í Aðalbyggingu

Fundartími: Kl. 13:00 – 17:00

Kl. 13.00 - Fundarsetning

Rektor setti fimmta háskólafund Háskóla Íslands og bauð fundarmenn velkomna til starfa. Hann fór yfir dagskrá og tímaáætlun fundarins og gerði grein fyrir framkomnum tillögum sem bárust innan tilskilins frests og lista yfir útsend gögn og viðbótargögn sem lágu fyrir fundinum.

Rektor skipaði Magnús Diðrik Baldursson, aðstoðarmann rektors, og Halldór Jónsson, framkvæmdastjóra rannsóknasviðs, ritara fundarins.

Rektor fór yfir framlagt minnisblað sitt um verkefni og mál sem eru á döfinni hjá Háskóla Íslands. s.s. kjaradeilu Félags háskólakennara og ríkisins; rannsóknasamninginn; væntanlega endurskoðun kennslusamningsins; húsnæðis- og byggingamál; samning milli Háskóla Íslands og Landspítala-háskólasjúkrahúss; málþing um fjármögnun háskóla; skipun starfshóps um framkvæmd umhverfisstefnu Háskóla Íslands og ársfund Háskóla Íslands 23. maí n.k. Þá gat rektor þess að árið 2001 er margfalt afmælisár í Háskóla Íslands, en á þessu ári verður Háskóli Íslands 90 ára, viðskipta- og hagfræðideild 60 ára, félagsvísindadeild 25 ára, kennsla í læknaskóla 125 ára og í sjúkraþjálfun 25 ára.
 

Kl. 13:10 - Dagskrárliður 1: Vísinda- og menntastefna Háskóla Íslands

Fyrir fundinum lágu til umræðu og afgreiðslu drög að vísinda- og menntastefnu Háskóla Íslands. Með drögunum fylgdi skrifleg samantekt á umsögnum og tillögum deilda og stofnana sem eiga fulltrúa á háskólafundi og undirbúningshóps rektors fyrir háskólafund. Rektor kynnti stefnudrögin og fyrirliggjandi gögn og lýsti meðferð málsins. Lagði rektor til að málsmeðferðin yrði með þeim hætti að hann færi yfir fyrirliggjandi umsagnir og tillögur lið fyrir lið og mælti síðan sjálfur fyrir einni þeirra og bæri hana undir atkvæði. Lagði rektor áherslu á að hér væri um vinnuaðferð að ræða og að allar tillögurnar væru til umræðu. Einnig minnti hann á að málið hefði þegar verið rætt ítarlega á háskólafundi, í deildum og stofnunum, sérstökum vinnuhópum og í starfsnefndum.

Næst bar rektor upp tillögur um breytingar á fyrirliggjandi drögum að vísinda- og menntastefnu Háskóla Íslands:

1) Í þeim hluta inngangskaflans sem fjallar um „hlutverk Háskóla Íslands“ er því lýst stuttlega, hvað átt er við með hugtökunum „kennsla“, „rannsóknir“, „fræðsla“ og „þjónusta“ í vísinda- og menntastefnunni.

Fram hafði komið sú tillaga frá tannlæknadeild að í þriðju setningu þessa undirkafla verði bætt við orðunum „þjónustu í þágu heilbrigðis landsmanna“. Setningin hljóði þá svo breytt: „Fræðsla og þjónusta eru framhald þess [þ.e. kennslu- og rannsóknahlutverks Háskólans]; ýmist sem skipulegt framhald í mynd ákveðinnar fræðslu og þjónustu við samfélagið, s.s. endurmenntunar á vegum deilda, þjónustu í þágu heilbrigðis landsmanna eða fræðslu og þjónustu sem byggist á frumkvæði einstakra kennara eða sérfræðinga í samstarfi þeirra við ýmsa aðila í þjóðfélaginu.“

Undirbúningshópur rektors hafði lagt fram þá tillögu að setningin standi óbreytt. Inngangskaflinn fjalli um almenn stefnumið Háskólans í heild, en ekki útfærslu þeirra í einstökum atriðum, sbr. það sem segir í 1. hluta inngangskaflans: „Háskólafundurinn setur fram almenna stefnu fyrir Háskólann í heild, sem er einskonar yfirlýsing um það hvað Háskólinn er og hvað hann vill vera. Hver háskóladeild fyrir sig mótar sína eigin stefnu og áherslur á vettvangi deildarfunda að frumkvæði deildarforseta.“

Rektor mælti með tillögu undirbúningshópsins og bar upp tillögu tannlæknadeildar sem var felld með 10 atkvæðum gegn 8 og stendur umrædd setning því óbreytt.

2) Frá guðfræðideild hafði komið tillaga um að fremst í þeim hluta kennslukaflans sem fjallar um „stefnu“ verði bætt við tveimur svohljóðandi setningum: „Háskóli Íslands er kennslustofnun á háskólastigi og hluti af hinu alþjóðlega vísindasamfélagi. Metnaður hans er að vera þar í fremstu röð með vandaðri kennslu sem stenst fræðilegan samanburð á alþjóðlegum vettvangi.“

Frá Vésteini Ólasyni kom breytingartillaga um að sleppt verði orðunum „kennslustofnun á háskólastigi og...“.

Rektor mælti með tillögu guðfræðideildar ásamt breytingartillögu Vésteins og bar tillöguna upp svo breytta og var hún samþykkt með þorra atkvæða, eða 32 gegn einu.

3) Fram kom tillaga frá tannlæknadeild um að í þeim hluta kennslukaflans sem fjallar um „framkvæmd og útfærslu“ verði í 4. efnisgrein 2. setningu látin falla niður orðin „í framhaldsnámi“. Setningin hljóði þá svo breytt: „Jafnframt leitist kennarar Háskólans við að virkja nemendur til þátttöku í rannsóknum sínum.“ Rökin fyrir þessari tillögu eru þau að þátttaka nemenda í rannsóknum þarf ekki að takmarkast við framhaldsnema, heldur má einnig virkja nemendur í grunnnámi til þátttöku í rannsóknum, t.d. með eflingu Aðstoðarmannasjóðs.

Rektor mælti með tillögu tannlæknadeildar, bar hana upp og var hún samþykkt með þorra atkvæða gegn einu.

4) Frá hjúkrunarfræðideild lá fyrir fundinum tillaga um að í þeim hluta rannsóknakaflans sem fjallar um „framkvæmd og útfærslu“ komi í 5. efnisgrein 1. setningu orðin „kennarar og sérfræðingar“ í stað orðanna „starfsfólk“ og „starfsfólk með rannsóknaskyldu“. Setningin hljóði þá svo breytt: „Kennarar og sérfræðingar skulu gera Háskólanum reglulega grein fyrir rannsóknum sínum og niðurstöðum þeirra.“

Rektor mælti með tillögu hjúkrunarfræðideildar, bar hana upp og var hún samþykkt samhljóða.

5) Frá heimspekideild lá fyrir fundinum tillaga í tveimur liðum:

Í síðari efnisgreininni í þeim hluta fræðslu- og þjónustukaflans sem fjallar um „stefnu“ komi (a) orðin „hluti af félagslegri ábyrgð“ í stað „félagsleg skylda“ og (b) síðustu tvær setningarnar verði látnar falla niður.

Svo breytt hljóði setningin og þar með síðari efnisgreinin svo: „Fræðslu og þjónustuhlutverkið er hluti af félagslegri ábyrgð kennara og sérfræðinga Háskólans sem leiðir af þekkingu þeirra og stöðu í samfélaginu.“

Rektor mælti með tillögu heimspekideildar, bar hana upp og var hún samþykkt samhljóða.

Rektor tók fram að fleiri tillögur hefðu borist, en of seint. Einkum vísaði hann til tillagna læknadeildar, sem verða sendar væntanlegum undirbúningshópi til úrvinnslu fyrir næsta háskólafund.

Vísinda- og menntastefnan var loks borin upp í heild sinni og samþykkt svo breytt einróma.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors, Peter Holbrook, Reynir Tómas Geirsson, Guðmundur K. Magnússon, Hjalti Hugason, Sigurður H. Richter, Valdimar K. Jónsson, Sigmundur Guðbjarnason og Vésteinn Ólason.
 

Kl. 13:45 - Dagskrárliður 2: Þróunaráætlanir deilda og stofnana sem eiga fulltrúa á háskólafundi

Rektor byrjaði á því að þakka deildum og stofnunum fyrir mjög gott starf við gerð þróunaráætlana sinna. Hann rifjaði upp aðdraganda málsins og tengsl þróunaráætlana deilda og stofnana við vísinda- og menntastefnu Háskóla Íslands. Á þessum fundi yrði deildarforsetum og forstöðumönnum stofnana (eða staðgenglum þeirra) gefinn kostur á að greina stuttlega frá stöðu stefnumótunarstarfsins og helstu álitamálum sem upp hafa komið í starfinu.

Deildarforsetar og forstöðumenn lýstu almennt ánægju sinni með þá vinnu sem lögð hefur verið í þessar áætlanir. Fram kom að verkefni þetta hefur veitt deildum og stofnunum tækifæri til að gaumgæfa skipulag og starfsemi sína betur en oft er unnt í dagsins önn. Deildir og stofnanir eru komnar mjög mislangt á veg með áætlanir sínar. Sumar þeirra hafa þegar lokið þróunaráætlunum sínum eða eru í þann veginn að ljúka þeim. Margvísleg álitamál hafa komið upp í tengslum við gerð þróunaráætlananna. Þau lúta t.d. að húsnæði og aðstöðu, fjármálum, bóka- og tímaritakosti, jafnréttismálum, samkeppni við aðra háskóla, skipulagi og stjórnun deilda og stofnana, námsframboði og nýmælum í kennslu.
 

Kl. 15:00 – 15:20 - Kaffihlé

Kl. 15:20 - Dagskrárliður 2 (frh.): Þróunaráætlanir deilda og stofnana sem eiga fulltrúa á háskólafundi

Að loknu kaffihléi var umræðum um þróunaráætlanir haldið áfram. Að þeim loknum hvatti rektor deildarforseta og forstöðumenn til að kynna þróunaráætlanirnar sínar sem víðast. Þá lét rektor þess getið að fyrirhugað væri að stofna sérstakt kynningarráð Háskóla Íslands.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors, Einar Sigurðsson, Gísli Már Gíslason, Guðmundur K. Magnússon, Guðrún Kvaran, Hjalti Hugason, Jón Torfi Jónasson, Marga Thome, Margrét S. Björnsdóttir, Páll Sigurðsson, Peter Holbrook, Reynir Tómas Geirsson, Sigríður Þorgeirsdóttir, Sigurður Richter, Stefán Arnórsson, Valdimar K. Jónsson, Vésteinn Ólason, Vilhjálmur Árnason og Þorsteinn Loftsson.

Kl. 15:50 - Dagskrárliður 3: Málsmeðferð stefnumótunarstarfs

Rektor gerði grein fyrir tillögu sinni um málsmeðferð stefnumótunarstarfs. Tillagan er í tveimur hlutum, annars vegar um vísinda- og menntastefnu Háskóla Íslands, og hins vegar um þróunaráætlanir deilda og stofnana sem eiga fulltrúa á háskólafundi.

Fyrri hluti tillögunnar um málsmeðferð vísinda- og menntastefnunnar er í þremur undirliðum:

1. Vísinda- og menntastefna Háskóla Íslands

a.    Á háskólafundi 6. apríl 2001 verði skipaður starfshópur sem hafi það hlutverk að fylgjast með framkvæmd vísinda- og menntastefnunnar í samráði við þá aðila sem tilgreindir eru í köflunum um „umsjón og ábyrgð“ í vísinda- og menntastefnunni. Jafnframt verði starfshópurinn tengiliður milli háskólafundar og háskólaráðs og brúi þannig bilið milli stefnu og framkvæmdar. Starfshópurinn verði skipaður þremur fulltrúum á háskólafundi, þar af einum úr röðum stúdenta, og formönnum vísindanefndar, kennslumálanefndar og fjármálanefndar háskólaráðs. Með starfshópnum starfi þrír fulltrúar úr undirbúningshópi rektors fyrir háskólafund, sem rektor tilnefnir. Þegar kjörtímabili fulltrúa á háskólafundi sem eiga sæti í starfshópnum lýkur, skal fundurinn kjósa nýja fulltrúa í þeirra stað. Starfshópurinn geri grein fyrir starfi sínu og framkvæmd vísinda- og menntastefnunnar á háskólafundi a.m.k. árlega. Rektor kalli hópinn saman til fyrsta fundar.
b.    Markmiðið með skipun starfshópsins er m.a. að tryggja að vísinda- og menntastefnan sé sífellt yfirveguð og endurskoðuð í ljósi þess hvernig til tekst með framkvæmd.
c.    Hljóti vísinda- og menntastefna Háskóla Íslands samþykki á háskólafundi 6. apríl hyggst rektor beita sér fyrir víðtækri kynningu hennar innan skólans sem utan.

Samþykkt var samhljóða að setja á laggirnar vinnuhóp eins og lýst er í tillögunni:

Rektor bar upp tillögu um tvo fulltrúa háskólafundar sem taka skulu sæti í hópnum, þeir eru: Ágústa Guðmundsdóttir og Erla Kolbrún Svavarsdóttir.

Samþykkt samhljóða.

Síðari hluti tillögunnar um þróunaráætlanirnar hljóðar svo:

2. Þróunaráætlanir deilda og stofnana sem eiga fulltrúa á háskólafundi

Drögum að þróunaráætlunum deilda og stofnana verður skilað fyrir 30. mars og þau kynnt á 5. háskólafundi 6. apríl. Að fundinum loknum er lögð til eftirfarandi verkáætlun:
a.    Þróunaráætlanir deilda og stofnana sem eiga fulltrúa á háskólafundi verði sendar fullfrágengnar til skrifstofu rektors fyrir 20. september 2001.
b.    Í framhaldinu verði þróunaráætlanirnar sendar starfsnefndum háskólaráðs til umsagnar.
c.    Nefndirnar skili deildum og stofnunum umsögnum sínum fyrir 6. háskólafund sem fyrirhugaður er í nóvember 2001.
d.    Á 6. háskólafundi geri starfsnefndir háskólaráðs grein fyrir umsögnum sínum og deildir skýri sjónarmið sín.

Fram komu tvær breytingartillögur við síðari lið tillögunnar:
1) Liður c: Bætt verði við orðunum „eigi síðar en tveimur vikum fyrir...“ Liður c hljóðar þá svo breyttur: „Nefndinar skili deildum og stofnunum umsögnum sínum eigi síðar en tveimur vikum fyrir 6. háskólafund sem fyrirhugaður er í nóvember 2001.“

2) Liður d: Liðnum verði breytt þannig: „Á 6. háskólafundi geri starfsnefndir háskólaráðs grein fyrir starfi sínu og deildir og stofnanir skýri frá áætlunum sínum.“

Tillagan um málsmeðferð stefnumótunarstarfs var borin undir atkvæði svo breytt: Samþykkt samhljóða.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors, Guðmundur K. Magnússon, Jakob Jakobsson, Jón Torfi Jónasson, Sigmundur Guðbjarnason, Stefán Arnórsson, Valdimar K. Jónsson og Vilhjálmur Árnason.

Kl. 16:20 - Dagskrárliður 4: Tillögur að ályktunum háskólafundar um einstök málefni sem fyrir liggja

4.1 Tillaga stúdenta til ályktunar um bætta fjárhagsstöðu framhaldsnema og aukna þátttöku stúdenta í rannsóknum

Þorvarður Tjörvi Ólafsson, formaður Stúdentaráðs, gerði grein fyrir tillögu stúdenta til ályktunar um bætta fjárhagsstöðu framhaldsnema og aukna þátttöku stúdenta í rannsóknum.

Háskólafundur leggur áherslu á bætta fjárhagsstöðu stúdenta í framhaldsnámi og aukna þátttöku stúdenta í rannsóknum innan Háskólans. Mikilvægt er að stúdentum sé gert kleift að einbeita sér að fullu að því námi sem þeir stunda og að þeir öðlist hæfni í faglegum vinnubrögðum með því að taka virkari þátt í rannsóknarstarfsemi skólans. Þess vegna er nauðsynlegt að efla aðstoðarmannasjóð Háskóla Íslands og auka aðgengi stúdenta að styrkjum.

Fram kom breytingartillaga um að bætt verði við „m.a.“ á undan „nauðsynlegt“ í síðustu setningunni.

Tillagan borin undir atkvæði, svo breytt:

Samþykkt samhljóða.

Í umræðu um tillöguna kom m.a. fram að nauðsynlegt er að gera stúdentum kleift að helga sig náminu með því að efla styrki og sjóði, t.d. Aðstoðarmannasjóð, einkum fyrir framhaldsnema. Einnig var rætt um það hvort Aðstoðarmannasjóði sé betur fyrir komið miðlægt eða í deildum. Loks var á það bent að sjóðakerfi Háskólans væri e.t.v. of flókið og skipt í of margar litlar einingar.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Þorvarðar Tjörva, þeir Gísli Már Gíslason, Guðmundur K. Magnússon, Gunnar Karlsson, Jón Atli Benediktsson, Rögnvaldur Ólafsson, Stefán Arnórsson og Valdimar K. Jónsson.

Að lokum þakkaði rektor deildarforsetum og forstöðumönnum stofnana fyrir vel unnin störf við gerð þróunaráætlana sinna. Þá þakkaði hann fundarmönnum fyrir málefnalega umræðu og þeim sem unnu að undirbúningi fundarins fyrir þeirra starf.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 17:00.

Listi yfir gögn sem lögð voru fram á 5. háskólafundi:

1. Dagskrá háskólafundar 6. apríl.
2. Vísinda- og menntastefna Háskóla Íslands. Drög til til umræðu og afgreiðslu á háskólafundi 6. apríl 2001.
3. Skýringar og tillögur varðandi fyrirliggjandi drög að vísinda- og menntastefnu Háskóla Íslands.
4. Tillaga stúdenta til ályktunar um bætta fjárhagsstöðu framhaldsnema og aukna þátttöku stúdenta í rannsóknum.
5. Mál á döfinni í Háskóla Íslands. Minnisblað rektors, lagt fram á háskólafundi 6. apríl 2001.
6. Samþætting jafnréttissjónarmiða við gerð þróunaráætlunar, sbr. jafnréttisáætlun Háskóla Íslands 2000-2004.
7. Landsbókasafn Íslands-Háskólabókasafn fyrstu fimm árin.
8. Þekking, vísindi og menning við aldaskil. Stefnumótun fyrir Landsbókasafn Íslands-Háskólabókasafn.
9. Frá Landsbókasafni Íslands-Háskólabókasafni. Til háskólafundar 6. apríl 2001.