Skip to main content
11. október 2016

Rannsókn á ósæðarrofi valin ein af greinum ársins 2015

Grein rannsóknarhóps af Landspítala og úr Háskóla Íslands sem fjallar um lífshættulegt ósæðarrof í brjóstholi var valin ein af fimm bestu greinum í European Journal of Cardiothoracic Surgery (EJCTS) á síðastliðnu ári.

Árlegt Evrópuþing hjarta- og lungnaskurðlækna (European Assiocation of Cardio-Thoracic Surgery, EACTS) fór fram í októberbyrjun í Barcelona  en um er að ræða fjölmennasta þing innan hjarta- og lungnaskurðlækna í heiminum. Á þinginu voru sérstaklega kynntar bestu vísindagreinarnar sem birst höfðu á síðastliðnu ári í EJCTS, sem er eitt þriggja stærstu vísindarita innan hjarta- og lungnaskurðlækninga í heiminum. Það voru ritstjórar blaðsins sem völdu greinina úr hópi 240 greina sem birtust í blaðinu á síðasta ári en árlega eru sendar til blaðsins hátt í 2.300 greinar en aðeins 15% þeirra eru samþykktar til birtingar í blaðinu. 

Einstök og mikilvæg rannsókn 

Í greinargerð ritstjóranna kom fram að rannsókn vísindamanna Landspítala og Háskóla Íslands væri einstök þar sem hún næði til heillar þjóðar en þó sérstaklega fyrir þá staðreynd að ekki var aðeins litið á sjúklinga sem gengust undir skurðaðgerð heldur einnig þeirra sem greindust fyrst við krufningu eða létust fyrir komu á sjúkrahús. Þetta var unnt með því skoða allar krufningaskrár á tímabilinu og leita að sjúklingum í miðlægum skrám sjúkrahúsa á Íslandi.

Einnig kom fram í máli ritstjóranna að rannsóknin staðfesti hversu hættulegur sjúkdómur ósæðarrof í brjóstholshluta slagæðar er. Þannig létust 18% sjúklinga áður en þeir náðu á sjúkrahús, önnur 21% dóu innan sólarhrings eftir komu á sjúkrahús og þegar allt var talið létust 55% innan 30 daga frá greiningu. Loks voru tölur yfir nýgengi sjúkdómsins taldar mikilvægar vegna þess hversu vel skilgreint þýðið var og skráning nákvæm. Svo viðamikil rannsókn hefur ekki verið gerð áður með þessum hætti á sjúklingum með þennan sjúkdóm en samtals náði rannsóknin til 152 sjúklinga og reyndust 2/3 þeirra hafa hættulegri gerð ósæðarrofs þar sem beita verður bráðaskurðaðgerð til að bjarga lífi sjúklingsins.  

Fyrsti höfundur greinarinnar er Inga Hlíf Melvinsdóttir, unglæknir sem lauk kandídatspróf í læknisfræði frá Háskóla Íslands í fyrra en aðrir höfundar eru Bjarni Agnarsson meinafræðingur, Kristinn Sigvaldason svæfinga- og gjörgæslulæknir, Sigrún Helga Lund, tölfræðingur við Læknadeild Háskóla Íslands ,og hjarta- og lungnaskurðlæknarnir Tómas Guðbjartsson prófessor og Arnar Geirsson sem stýrði rannsókninni. 

Rannsóknin er liður í stóru samnorrænu rannsóknarverkefni á ósæðarrofi og árangri skurðaðgerðar við því (NORCAAD study) en hún nær til 8 sjúkrahúsa á Norðurlöndunum og er stýrt af Tómasi Guðbjartssyni prófessor.

Læknanemi á skurðstofu
Læknanemi á skurðstofu