Skip to main content
9. ágúst 2016

Leita umsagna um drög að næringarráðleggingum

""

Rannsóknarstofa í næringarfræði, Háskóli Íslands, Landspítali og Embætti landlæknis hafa gefið út drög að fræðilegum bakgrunni leiðbeininga um næringarmeðferð einstaklinga með sykursýki af tegund 2 og óskað er eftir umsögnum. Ráðleggingarnar eru ætlaðar heilbrigðisstarfsfólki sem sinna einstaklingum með sykursýki af tegund 2 og öðrum sem veita leiðbeiningar um næringu þessa hóps. Í framhaldi verður unnið að fræðslu og endurskoðun ráðlegginga og fræðsluefnis til heilbrigðisstarfsmanna og til skjólstæðinga. 

Drögin eru unnin af faghópi á vegum Háskóla Íslands og Landspítala. Í hópnum eru:

Bertha María Ársælsdóttir, næringarfræðingur (MSc) á Landspítala.

Bryndís Eva Birgisdóttir, næringarfræðingur (PhD) og prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands.

Óla Kallý Magnúsdóttir, næringarfræðingur (PhD) á Landspítala.

Fjöldi annarra hefur komið að leiðbeiningunum og m.a. var unnið eftir athugasemdum sem bárust á vinnustofu um sykursýki 2 sem haldin var á vegum Rannsóknastofu í næringarfræði á Háskólatorgi þann 7. apríl síðastliðinn.

Sérstök áhersla var lögð á að skoða hvort auka megi meðferðarheldni og hvort heilsufarslegur ávinningur væri af því að bjóða upp á fjölbreyttari tegundir mataræðis og minnka kolvetnismagn í næringarmeðferð við sykursýki af tegund 2. Ráðleggingarnar eru í samræmi við norrænar, evrópskar og amerískar ráðleggingar. 

Nú gefst tækifæri til að koma með athugasemdir við drögin og er gefinn frestur til 7.september til að koma athugasemdum á framfæri. Athugasemdir sendist til olakally@landspitali.is merkt: Athugasemdir við næringarmeðferð sykursýki.

Frá vinnustofu um sykursýki 2 sem Rannsóknastofa í næringarfræði stóð fyrir á Háskólatorgi 7. apríl sl.
Frá vinnustofu um sykursýki 2 sem Rannsóknastofa í næringarfræði stóð fyrir á Háskólatorgi 7. apríl sl.