Skip to main content
29. apríl 2016

Tefla saman mannvísindum og náttúruvísindum

„Spurningin um „hverra manna“ við erum hefur öðlast nýja merkingu í kjölfar vaxandi áherslu á alþjóðavettvangi á erfðamörk og aukinna fólksflutninga, ekki síst í Evrópu,“ segir Gísli Pálsson, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands og einn af aðstandendum alþjóðlega rannsóknarverkefnisins CITIGEN. Verkefnið hlaut nýverið 170 milljóna króna styrk frá HERA, samstarfsvettvangi á sviði hugvísinda í Evrópu, og um 40 milljónir af þeirri upphæð koma í hlut íslenska hluta verkefnisins sem er í umsjón Gísla.

Nánari yfirskrift verkefnisins er CITIGEN – Identity, citizenship, and nationhood in the post-genome era og er það eitt 18 verkefna sem hlutu styrk að þessu sinni frá HERA í afar harðri samkeppni. „Í CITIGEN-verkefninu freistum við þess að (1) fylgjast grannt með því hvernig fólk notfærir sér erfðarannsóknir til að skilja hið liðna, (2) varpa ljósi á gagnkvæm áhrif erfðarannsókna og þjóðernis og (3) leita leiða til að tefla saman mannvísindum og náttúruvísindum með það að leiðarljósi að stuðla að ábyrgum skilningi á fortíðinni,“ útskýrir Gísli. 

Í verkefninu koma saman fulltrúar ólíkra en skyldra fræðasviða, fornleifafræði, erfðafræði, mannfræði og sagnfræði að sögn Gísla. „Þeir hafa unnið að rannsóknum sem varða sjálfsmynd og samsömun hópa og þjóða undanfarin ár, hver á sínu sviði. Áætlun HERA um sérstakt átak í þverfræðilegum rannsóknum um þemað „Uses of the Past“ varð til þess að CITIGEN-hópurinn stillti saman strengi sína og skilgreindi sértstakt nýtt verkefni með áskoranir samtímans í huga.“ 

Sem fyrr segir fer Gísli fyrir verkefninu hér á landi og með honum mun starfa Sarah Abel, nýdoktor í mannfræði, en hún hefur stundað nám í mannfræði við Cambridge-háskóla (M.Phil.) og Parísarháskóla (Ph.D.) „Verkefnið lýtur stjórn þýsks fornleifafræðings, Hannesar Schroeder, sem starfar við Kaupmannahafnarháskóla en einnig koma Daniel Bradley, prófessor í erfðafræði við Trinity College í Dyflinni, og Mark Ormrod, prófessor í miðaldasögu við York-háskóla, að því,“ segir Gísli. 

Aðspurður um ávinninginn af þessu þverfræðilega samstarfi bendir Gísli að á að sagnfræðingurinn David Lowenthal hafi sagt skömmu fyrir síðustu aldamót að fortíðin væri „framandi land“. „Þrátt fyrir framfarir í erfðarannsóknum, kannski að einhverju leyti vegna þeirra, hefur framandleikinn aukist. Breytileiki mannhópa, skilin á milli þeirra og samsemdin bæði innan þeirra og þvert á markalínur eiga rætur í fortíðinni en ekki síður í menningarlegum og pólitískum aðstæðum samtímans. Fortíðin er sífellt að koma okkur á óvart og þar er „gamli heimurinn“ alls ekki undanskilinn. Samsemd og þjóðerni eru afar mikilvæg stef í samtímanum og til að skilja þau á fullnægjandi hátt er brýnt að tefla saman vitneskju um erfðafræði, fornleifar, sögu og samfélag,“ segir Gísli enn fremur. 

Gísli segir enn fremur mikilvægt að öðlast skilning á því hvaða merkingu fólk leggur í erfðamörk og sögulegar „staðreyndir“ og hvernig einstaklingar og hópar nota sér slíka vitneskju. „Fátt sýnir þetta betur en „innflytjendavandi“ Evrópu allra síðustu ár. Mannfræðin leggur sitt af mörkum í þessu samhengi, meðal annars vegna þess að hún er sjálf þverfræðileg, fléttar saman rannsóknir á líkamsgerð og menningu, erfðarannsóknir og „etnógrafískar“ þátttökurannsóknir. Hvað vísindin sjálf áhrærir er gagnlegt að spyrja með hvaða hætti hægt sé að tefla saman erfðafræðilegum, fornleifafræðilegum og sögulegum sannindum og spyrja hvað vinnist við að líta svo á að þau séu óaðskiljanleg, ekki aðeins samverkandi,“ segir Gísli að endingu.  

Gísli Pálsson og beinagrind