Skip to main content
26. nóvember 2015

Opið fyrir umsóknir í Gulleggið 2016

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í frumkvöðlakeppnina Gulleggið 2016. Klak Innovit stendur árlega fyrir frumkvöðlakeppninni sem hefur það að markmiði að skapa vettvang fyrir ungt athafnafólk til að koma hugmyndum sínum á framfæri.

Þátttakendur öðlast dýrmæta reynslu í mótun nýrra viðskiptahugmynda og rekstri fyrirtækja og keppnin er því frábær vettvangur fyrir frumkvöðla á öllum sviðum sem vilja koma hugmynd sinni í framkvæmd á markvissan hátt. Með skráningu býðst þátttakendum fjöldi vinnusmiðja, m.a. í húsakynnum Háskóla Íslands, og aðstoð ýmissa sérfræðinga, reyndra frumkvöðla og stjórnenda í íslensku atvinnulífi. 

Gulleggið er nú haldið í 9. sinn við frábæran orðstír og hefur alið af sér fjöldan allan af sprotafyrirtækjum og eru mörg þeirra orðin að stórum fyrirtækjum. Sem dæmi um fyrri þátttakendur má nefna Meniga, Karolina Fund, Clara og Cooori ásamt mörgum öðrum. Sigurvegarar Gulleggsins í ár voru aðstandendur verkefnisins Strimillinn. Samtals voru 251 hugmyndir sendar inn í keppnina en á bak við þær stóðu um 500 manns. 

Bakhjarlar Gulleggsins eru Landsbankinn, KPMG, Alcoa Fjarðarál, NOVA og Advel Lögmenn og er Háskóli Íslands í hópi stuðningsaðila hennar. Keppnin er opin fyrir alla með eða án hugmyndar en allar nánari upplýsingar má finna á www.gulleggid.is

Mynd: Haraldur Guðjónsson – Topp tíu hópur Gulleggsins 2015 ásamt samstarfsaðilum. 

Á myndinni má sjá aðstandendur þeirra tíu verkefna sem kepptu til úrslita í Gullegginu fyrr á þessu ári.
Á myndinni má sjá aðstandendur þeirra tíu verkefna sem kepptu til úrslita í Gullegginu fyrr á þessu ári.