Skip to main content

Um BA-nám í sænsku

Sænskunámið miðar að því að nemendur nái hratt og örugglega valdi á sænsku máli. Þeir fá innsýn í sænska málfræði og bókmenntir, sænskt þjóðfélag og menningu, t.a.m. kvikmyndir og tónlist. Auk þess læra þeir margt um tungumál og bókmenntafræði almennt.

Íslendingar hafa átt margvísleg pólitísk, menningarleg og efnahagsleg samskipti við Svíþjóð, líkt og aðrar Norðurlandaþjóðir. Margir Íslendingar hafa dvalið í Svíþjóð við nám eða stundað þar störf af fjölbreyttu tagi.

Hægt er að tengja sænskunámið við ýmsar aðrar greinar eftir áhugasviði, t.d. málvísindi, þýðingafræði, önnur tungumál eða jafnvel greinar utan Hugvísindasviðs.

Markmið
Markmiðið með sænskukennslunni er að nemendur  geti tjáð sig bæði í tali og riti á góðri sænsku. Auk þess öðlast þeir undirstöðuþekkingu í í sænskum bókmenntum ásamt sögu, menningu Svíþjóðar.
 
Íslendingar eiga ekki erfitt með að læra sænsku. Sænska er Norðurlandamál eins og íslenska – við töluðum meira að segja sama tungumálið fyrir þúsund árum!
 
Kennsluhættir
Kennsla í sænsku fer fram í Norræna húsinu og í byggingum Háskóla Íslands. Á bókasafni Norræna hússins er lestraraðstaða fyrir nemendur og er þar gott safn sænskra blaða, bóka, myndbanda, tónlistarefnis á geisladiskum og tímarita til útláns. Þar geta nemendur einnig fengið aðgang að Internetinu og upplýsingarefni á margmiðlunardiskum. Nemendur hafa aðgang að bókasafni á skrifstofu sænska lektorsins og að auki er þeim bent á Landsbókasafn – Háskólabókasafn.

Auk staðnáms er hægt að taka sænskunámið í fjarnámi.

Nemendahóparnir eru yfirleitt litlir svo að námið er sveigjanlegt eftir þörfum og óskum nemenda.

Kennsla fer fram á sænsku nema annað sé tekið fram. Krafist er stúdentsprófs í einu af Norðurlandamálunum, sænsku, norsku eða dönsku.

Húsnæði
Skrifstofa sænska lektorsins er í Norræna húsinu. Kennsla fer að mestu fram þar en einnig í byggingum Háskólans.

Námsleiðir í sænsku
Sænska er kennd til BA-gráðu (sem aðalgrein og aukagrein).

Erlent samstarf

Sænskunemum stendur til boða að taka hluta námsins við sænska háskóla sem Nordplus- eða Erasmus-skiptinemar.

Heimasíða
Vefur sænskunámsins
 

Hægt er að hafa samband við verkefnastjóra deildar og verkefnastjóra alþjóðamála til að fá nánari upplýsingar um nám og skiptinám.