Skip to main content

Háskólaráðsfundur 16. júní 2011

06/2011

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2011, fimmtudaginn 16. júní var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 12.00.

Fundinn sátu: Kristín Ingólfsdóttir, Börkur Hansen, Fannar Freyr Ívarsson, Guðrún Sóley Gestsdóttir, Guðrún Hallgrímsdóttir, Gunnlaugur Björnsson (varamaður Önnu Agnarsdóttur), Hilmar B. Janusson, Pétur Gunnarsson, Sigríður Ólafsdóttir, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir og Þórður Sverrisson. Fundinn sat einnig Jón Atli Benediktsson. Fundargerð ritaði Magnús Diðrik Baldursson.

1.    Aldarafmæli Háskóla Íslands.
Rektor greindi frá því að í tilefni aldarafmælis Háskóla Íslands hefðu Ríkisstjórn Íslands og Alþingi samþykkt að stofna Aldarafmælissjóð Háskóla Íslands með 150 m.kr. stofnframlagi á árinu 2011. Í framhaldinu verður settur á fót starfshópur sem mun gera tillögu um framlög í Aldarafmælissjóðinn á árunum 2012-2020. Einnig var samþykkt á Alþingi þingsályktunartillaga um stofnun prófessorsstöðu við Háskóla Íslands í nafni Jóns Sigurðssonar. Starfsskyldur prófessorsins verða meðal annars við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum og í samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða.

Málið var rætt og samþykkti háskólaráð svohljóðandi ályktun:

„Háskólaráð Háskóla Íslands færir Ríkisstjórn Íslands og Alþingi miklar þakkir fyrir að sýna Háskóla Íslands þá velvild og viðurkenningu að stofna á 100 ára afmæli skólans til sérstaks Aldarafmælissjóðs Háskóla Íslands og til prófessorsstöðu í nafni Jóns Sigurðssonar.  
    Gjafir Ríkisstjórnar Íslands og Alþingis eru ómetanlegt framlag til að auka þekkingu, vísindastarfsemi, nýsköpun og frumkvöðlahugsun. Það er gleðiefni að stjórnvöld og þingmenn allra flokka séu samtaka um nauðsyn þess að hefja nýja sókn í þágu lands og þjóðar og vera reiðubúnir að fylgja henni eftir í verki með stuðningi við Háskóla Íslands.
    Aldarafmælissjóðurinn er dýrmætt framlag til að gera Háskóla Íslands kleift að hrinda í framkvæmd skýrri framtíðarstefnu sinni og metnaðarfullum vísindamarkmiðum og munu framlög úr honum grundvallast á ströngustu alþjóðlegum mælikvörðum um árangur og gæði.
    Háskóli Íslands var stofnsettur á Alþingi 17. júní 1911 á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar. Stofnun Háskóla Íslands markaði tímamót í sögu þjóðarinnar. Prófessorsstaðan verður tengd Rannsóknasetri Háskóla Íslands í Bolungarvík og Háskólasetri Vestfjarða á Ísafirði og mun þannig efla enn frekar rannsókna- og nýsköpunarstarf Háskóla Íslands á landsbyggðinni í þágu íslensks samfélags.“

Þá greindi rektor frá nokkrum viðburðum framundan í afmælisdagskrá Háskóla Íslands. Eftir fund háskólaráðs í dag fer fram úthlutun úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta við Háskóla Íslands, en að þessu sinni hljóta styrk 14 afburðanemendur sem hefja nám á komandi hausti. Þann 17. júní býður Alþingi til hátíðarsamkomu til að minnast stofnunar Háskóla Íslands á Alþingi og veru skólans í Alþingishúsinu fyrstu 29 starfsárin. Háskóli unga fólksins verður haldin við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á landsbyggðinni í ágúst. Septembermánuður verður helgaður afmælisdagskrá Menntavísindasviðs og október verður mánuður Félagsvísindasviðs. Þá mun Kaupmannahafnarháskóli efna til dagskrár um akademísk tengsl Danmerkur og Íslands í september nk. og verður m.a. haldið málþing og sýning í aðalbyggingu skólans. Aðal hátíðardagskrá Háskóla Íslands verður haldin 7. og 8. október nk.

2.    Fjármál Háskóla Íslands.

a)    Ársreikningur Háskóla Íslands fyrir árið 2010 til staðfestingar, ásamt endurskoðunarskýrslu Ríkisendurskoðanda.
b)    Fjárhagsstaða háskólans, yfirlit eftir fimm mánuði.
c)    Ársreikningur styrktarsjóða Háskóla Íslands og endurskoðuð fjárfestingarstefna fyrir þá.
d)    Fjárhagsáætlun fyrir MPM-nám í Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands.

Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs, og Sigurður J. Hafsteinsson, sviðsstjóri fjármálasviðs og gerðu grein fyrir ársreikningi Háskóla Íslands fyrir árið 2010. Málið var rætt og svöruðu þeir Guðmundur og Sigurður spurningum ráðsmanna.
- Ársreikningur Háskóla Íslands fyrir árið 2010 samþykktur einróma.

Þá fóru þeir Guðmundur og Sigurður yfir fjárhagsstöðu háskólans eftir fyrstu fimm mánuði ársins 2011. Einnig gerðu þeir grein fyrir ársreikningi styrktarsjóða Háskóla Íslands og endurskoðaðri fjárfestingarstefnu fyrir þá. Loks skýrðu Guðmundur og Sigurður fjárhagsáætlun fyrir MPM-nám Iðnaðarverkfræði- vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands. Málin voru rædd og svöruðu þeir Guðmundur og Sigurður spurningum fulltrúa í háskólaráði.
- Fjárhagsáætlun MPM-náms Iðnaðarverkfræði- vélaverkfræði- og tölvunarfræðideildar Verkfræði- og náttúruvísindasviðs samþykkt einróma.

3.    Tölulegur samanburður Háskóla Íslands og háskóla á Norðurlöndum.
Guðmundur R. Jónsson gerði grein fyrir framlögðum gögnum og tölulegum upplýsingum um samanburð Háskóla Íslands og háskóla á Norðurlöndunum. Málið var rætt ítarlega og brást Guðmundur við spurningum og athugasemdum ráðsmanna.

4.    Niðurstaða starfshóps um stjórnunarhluta starfs akademískra starfsmanna, sbr. fund ráðsins 3. febrúar sl.
Fyrir fundinum lá greinargerð starfshóps um stjórnunarhluta starfs akademískra starfsmanna sem og bréf frá fráfarandi formanni Félags prófessora, dags. 19. maí sl., bréf frá formanni Félags háskólakennara, dags. 30. maí sl., auk þess sem núverandi formaður Félags prófessora sendi fulltrúum í háskólaráði tölvupóst, dags. 16. júní. Inn á fundinn kom Jóhannes Rúnar Sveinsson, formaður starfshópsins, og gerði grein fyrir málinu, en auk hans voru í hópnum þau Guðmundur R. Jónsson, Gunnar J. Gunnarsson, lektor við Menntavísindasvið, Inga Þórsdóttir, prófessor við Heilbrigðisvísindasvið, Sólveig Bachmann, lögfræðingur starfsmannasviðs, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, lektor við Félagsvísindasvið og fulltrúi í háskólaráði og Vilhjálmur Árnason, prófessor við Hugvísindasvið. Málið var rætt ítarlega og svaraði Jóhannes Rúnar spurningum ráðsmanna.
- Tillögur starfshóps háskólaráðs um stjórnunarhluta akademískra starfsmanna samþykktar samhljóða, en tveir sátu hjá.

5.    Niðurstaða starfshóps um samkennslu, sbr. fund ráðsins 17. desember sl.
Gunnlaugur Björnsson, formaður starfshóps háskólaráðs um samkennslu og varafulltrúi í háskólaráði, gerði grein fyrir tillögum starfshópsins. Í hópnum voru, auk Gunnlaugs, þau Daði Már Kristófersson, dósent við Félagsvísindasvið, Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísindasviðs, Sigríður Ólafsdóttir, fulltrúi í háskólaráði, Amalía Björnsdóttir, dósent við Menntavísindasvið, Ásdís Rósa Magnúsdóttir, prófessor við Hugvísindasvið, Guðmundur Freyr Ólafsson, prófessor við Verkfræði- og náttúruvísindasvið, Ingjaldur Hannibalsson, prófessor við Félagsvísindasvið og Sesselja S. Ómarsdóttir, dósent við Heilbrigðisvísindasvið. Málið var rætt ítarlega og svaraði Gunnlaugur spurningum ráðsmanna.
- Samþykkt einróma að fela forsetum fræðasviða að leggja fram tillögur um samkennslu og tölfræðihlaðborð fyrir 1. nóvember nk. Málið verður áfram á dagskrá háskólaráðs eftir sumarhlé.

6.    Nefndir, stjórnir og ráð.
a)    Starfsnefndir háskólaráðs, sbr. 7. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009.

Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt. Bar rektor upp eftirfarandi tillögu um skipun starfsnefnda háskólaráðs frá 1. júlí nk. að telja:

Fjármálanefnd: Í samræmi við ákvörðun háskólaráðs frá 4. júní 2009 verði nefndin áfram skipuð forsetum fræðasviða og framkvæmdastjóra fjármála og reksturs sem verði formaður. Skipunartími núverandi nefndar verði framlengdur um tvö ár eða til 30. júní 2013, til samræmis við ráðningartíma núverandi forseta fræðasviða. Erindisbréf nefndarinnar verði óbreytt.
- Samþykkt einróma.

Kennslumálanefnd: Nefndin verði áfram skipuð formönnum kennslunefnda fræðasviða, og formaður verði áfram Róbert H. Haraldsson, prófessor við Hugvísindasviðs. Skipunartími nefndarinnar verði til þriggja ára eða til 30. júní 2014. Erindisbréf nefndarinnar hefur verið uppfært, m.a. til samræmis við Stefnu Háskóla Íslands 2011-2016.
- Samþykkt einróma.

Jafnréttisnefnd: Til samræmis við fyrirkomulag kennslumálanefndar verði nefndin skipuð formönnum jafnréttisnefnda fræðasviða. Formaður verði Hrefna Friðriksdóttir, lektor við Lagadeild Félagsvísindasviðs. Skipunartími nefndarinnar verði til þriggja ára eða til 30. júní 2014. Erindisbréf nefndarinnar hefur verið uppfært, m.a. til samræmis við Stefnu Háskóla Íslands 2011-2016.
- Samþykkt einróma.

Vísindanefnd: Til samræmis við fyrirkomulag kennslumálanefndar og jafnréttisnefndar verði nefndin skipuð formönnum vísindanefnda fræðasviða. Formaður verði skipaður á næsta fundi ráðsins. Skipunartími nefndarinnar og fagráðanna verði til þriggja ára eða til 30. júní 2014. Erindisbréf nefndarinnar hefur verið uppfært, m.a. til samræmis við Stefnu Háskóla Íslands 2011-2016. Samkvæmt erindisbréfi verður sú breyting á að vísindanefnd hefur ekki hlutverk fagráða eins og áður var, en verður áfram stjórn Rannsóknasjóðs og annast úthlutun úr honum.
- Samþykkt einróma.

Gæðanefnd: Nefndin verði skipuð þeim Jóni Atla Benediktssyni, aðstoðarrektor vísinda og kennslu, Amalíu Björnsdóttur, dósent á Menntavísindasviði, Bryndísi Brandsdóttur, vísindamanni á Raunvísindastofnun, Eiríki Smára Sigurðssyni, rannsóknastjóra Hugvísindasviðs, Helgu M. Ögmundsdóttur, prófessor á Heilbrigðisvísindasviði, Valdimar Tr. Hafstein, dósent á Félagsvísindasviði og einum fulltrúa framhaldsnema. Skipunartími nefndarinnar verði til þriggja ára eða til 30. júní 2014. Erindisbréf nefndarinnar hefur verið uppfært, m.a. til samræmis við Stefnu Háskóla Íslands 2011-2016 og aðgerðaáætlun gæðaráðs háskóla.
- Samþykkt einróma.

Samráðsnefnd um kjaramál: Nefndin verði áfram skipuð framkvæmdastjóra fjármála og reksturs, sem verði formaður, og sviðsstjórum starfsmannasviðs og fjármálasviðs. Skipunartími nefndarinnar verði til þriggja ára eða til 30. júní 2014 og erindisbréf hennar verði óbreytt.
- Samþykkt einróma.

b)    Fulltrúar í stjórn Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands.
Rektor bar upp tillögu um að fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands verði Róbert R. Spanó og Björg Thorarensen, prófessorar við Lagadeild Félagsvísindasviðs. Varamaður verði Pétur Dam Leifsson, dósent við Lagadeild. Skipunartími þeirra verði til 30. júní 2013.
- Samþykkt einróma.

7.    Tillaga Hjúkrunarfræðideildar um kjör tveggja heiðursdoktora.
Fyrir fundinum lá tillaga Hjúkrunarfræðideildar og umsögn heiðursdoktorsnefndar um að, Connie White Delanie, prófessor og deildarforseti við hjúkrunarfræðideild University of Minnesota, og Margaret E. Wilson, prófessor við University of Nebraska, verði sæmdar heiðursdoktorsnafnbót frá deildinni.
- Samþykkt einróma.

8.    Úttekt á námsbraut í ferðamálafræði, niðurstöður og eftirfylgni.
- Frestað.

9.    Tillögur að breytingu á reglum og að nýjum reglum í kjölfar gildistöku nýrra laga, sameiginlegra reglna og breytts skipulags Háskóla Íslands.
Þórður Kristinsson gerði grein fyrir tillögunum.
a)    Reglur fyrir Raunvísindastofnun Háskóla Íslands.
- Samþykkt einróma.
b)    Reglur um doktorsnám við Verkfræði- og náttúruvísindasvið.
- Samþykkt einróma.
c)    Reglur um meistaranám við Félagsvísindasvið.
- Samþykkt einróma.
d)    Reglur um doktorsnám við Menntavísindasvið.
- Samþykkt einróma.

10.    Erindi Valdimars Briem, sbr. fund ráðsins 3. febrúar sl.
Fyrir fundinum lágu umsagnir sameiginlegrar stjórnsýslu, sbr. fund ráðsins 3. febrúar sl. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
- Háskólaráð tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í umsögn stjórnsýslunnar og er meðferð málsins á vettvangi ráðsins þar með lokið. Jafnframt harmar ráðið þá töf sem varð á afgreiðslu málsins af hálfu háskólans, mistaka við vísun í lagagreinar í bréfum til Valdimars Briem og að ekki hafi komið nægilega skýrt fram í upphafi að fræðasetur Háskóla Íslands á Austurlandi var lagt niður í hagræðingarskyni.

11.    Mál til fróðleiks.
a)    Umsóknir um nám í Háskóla Íslands 2011-2012.
b)    Ræða rektors við brautskráningu kandídata í Laugardalshöll 11. júní 2011.
c)    Dagskrá hátíðasamkomu í Alþingishúsinu 17. júní 2011 í tilefni þess að þá eru liðin 100 ár frá stofnun Háskóla Íslands í þinghúsinu.
d)    Dagskrá málþings Kaupmannahafnarháskóla 22. september 2011 í tilefni af aldarafmæli Háskóla Íslands.

e)    Samkomulag Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands og Líf- og umhverfisvísindadeildar Háskóla Íslands, dags. 15. júní 2011.
f)    Úthlutun úr Tækjakaupasjóði 2011.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.00.