Varði doktorsritgerð um fæðingarhjálp 1760-1880 | Háskóli Íslands Skip to main content
2. nóvember 2016

Varði doktorsritgerð um fæðingarhjálp 1760-1880

Erla Dóris Halldórsdóttir hefur varið doktorsritgerð sína, Fæðingarhjálp á Íslandi 1760-1880, við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands.

Andmælendur voru Ólöf Garðarsdóttir, prófessor í sagnfræði við Menntavísindasvið, og Ólöf Ásta Ólafsdóttir, dósent í ljósmóðurfræði við Hjúkrunarfræðideild. Aðalleiðbeinandi Erlu Dórisar Halldórsdóttur var Már Jónsson, prófessor í sagnfræði við  Sagnfræði– og heimspekideild, en í doktorsnefnd voru auk hans Guðrún Kristjánsdóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild, og Þorgerður Einarsdóttir, prófessor við Stjórnmálafræðideild. Svavar Hrafn Svavarsson, forseti Sagnfræði- og heimspekideildar, stjórnaði athöfninni sem fór fram í Hátíðasal Háskóla Íslands í Aðalbyggingu.

Um efni ritgerðarinnar

Rannsóknin er unnin út frá heimildum um breytingar sem tvær heilbrigðisstéttir gengu í gegnum á 120 árum, frá 1760–1880. Stéttirnar sem hér um ræðir eru læknastétt og yfirsetukvennastétt. Læknastétt var eingöngu skipuð körlum en í yfirsetukvennastétt gátu bæði lærðir sem ólærðir karlar og konur starfað. Orðin yfirsetukonur og yfirsetumenn/ljósfeður eru óþekkt í nútímamáli Íslendinga en þau starfsheiti voru notuð um það fólk sem sinnti fæðandi konum á tímabili rannsóknarinnar. Báðar stéttirnar gegndu því mikilvæga hlutverki að koma fæðandi konum á Íslandi til hjálpar en með mismunandi hætti. Önnur stéttin, þ.e. læknastéttin, hafði einnig skyldum að gegna gagnvart sjúku fólki en yfirsetukonur sinntu eingöngu fæðandi konum og nýfæddum börnum þeirra.

Um tvenns konar hópa af yfirsetukonum var að ræða. Annars vegar konur sem sinntu starfinu án þess að hafa menntun eða próf í yfirsetukvennafræði að baki og hins vegar konur sem lærðu og luku prófi í yfirsetukvennafræðum og voru síðan skipaðar eða ráðnar sem yfirsetukonur af yfirvöldum. Þær fengu greidd laun úr sérstökum konungssjóði.

Þeir karlmenn sem komu að fæðingarhjálp á þessu tímabili eru flokkaðir í fernt. Fyrst má nefna ólærða karla sem tóku að sér hlutverk yfirsetukvenna. Í öðru lagi eru það prestar sem höfðu enga formlega menntun í yfirsetukvennafræði en voru stoð sóknarbarna sinna, sem leiddi í nokkrum tilfellum til þess að þeir gerðu það sem þeir gátu til að veita barnshafandi og fæðandi konum hjálp. Í þriðja lagi eru það karlar sem höfðu lokið yfirsetukvennaprófi. Reyndist aðeins einn karlmaður, sem ekki var læknir, hafa lokið yfirsetukvennaprófi á þessu tímabili.

Fjórði hópurinn sem rannsóknin fjallar um var eingöngu skipaður körlum. Það voru læknar. Þeir sem töldust til lækna voru annars vegar þeir sem höfðu litla sem enga menntun í yfirsetukvennafræði og hins vegar þeir sem fengu bæði verklega og bóklega kennslu í því fagi.

Frá þeim tíma er markar upphaf þessarar rannsóknar hefur menntun og aðbúnaður í umönnun barnshafandi kvenna vaxið svo að nú er Ísland eitt þeirra ríkja þar sem bæði fæstar mæður og ungbörn deyja í fæðingum. En það er hollt að líta um öxl og skoða fortíðina og minnast með virðingu þeirra sem lögðu sitt af mörkum til líknar konum í barnsnauð.

Um doktorsefnið

Erla Dóris Halldórsdóttir hefur lokið BA-prófi í sagnfræði við Háskóla Íslands og MA-prófi í sagnfræði við sama skóla. Hún hefur auk þess lokið hjúkrunarprófi frá Hjúkrunarskóla Íslands og gjörgæsluhjúkrunarprófi frá Haukeland universitetssjukehus í Björgvin í Noregi. Erla Dóris hefur í mörg ár starfað við hjúkrun. Síðustu ár hefur hún starfað, með hléum, sem sérfræðingur hjá Þjóðskjalasafni Íslands. Eiginmaður Erlu Dórisar er Gunnar Hálfdánarson og eiga þau soninn Hálfdán Inga, 14 ára.

Hér má skoða myndir frá doktorsvörn Erlu.

Erla Dóris Halldórsdóttir
Erla Dóris Halldórsdóttir