Skip to main content
21. febrúar 2023

Unnur valin háskólakona ársins 2022

Unnur valin háskólakona ársins 2022 - á vefsíðu Háskóla Íslands

Félag háskólakvenna hefur valið dr. Unni Þorsteinsdóttur, forseta Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands og framkvæmdastjóra hjá Íslenskri erfðagreiningu, háskólakonu ársins 2022. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra afhenti Unni viðurkenningu af því tilefni við hátíðlega athöfn í Hátíðasal Háskóla Íslands í gær. Þetta er í sjötta sinn sem Félag háskólakvenna stendur fyrir valinu.

Félag háskólamenntaðra kvenna og kvenstúdenta var stofnað árið 1928. Óhætt að fullyrða að margt hafi breyst í menntunarmálum landsmanna á þessum 95 árum og að staða háskólakvenna er í dag allt önnur en hún var við stofnun félagsins. Stofnfélagar voru aðeins fimm og segir það nokkuð til um hversu fáar konur höfðu þá lagt í langskólanám. Staðan er gjörbreytt og konur eru nú í meirihluta háskólanema og þeirra sem brautskrást frá háskólum hér á landi. Margar þeirra hafa náð afar langt á sínum fræðasviðum og unnið ótal áfangasigra. Ekki rata þó öll verk þeirra fyrir augu almennings en margar konur eru að sinna brautryðjendastarfi innan háskólanna. 

Með því að velja háskólakonu ársins, líkt og gert hefur verið frá árinu 2017, vill stjórn Félags háskólakvenna vekja athygli á ólíkum störfum og afrekum félagskvenna sinna, en þær eru nú um 300 talsins, svo það megi verða öðrum konum hvatning og innblástur. Við val á háskólakonu ársins var leitað til fjölmargra aðila, m.a. rektora allra háskóla hérlendis, og þau beðin að tilnefna konur sem að þeirra mati eru í fararbroddi á sviði. Þá var einnig leitað til félagskvenna. Fjölmargar tilnefningar bárust um konur sem þykja hafa skarað hafa fram úr á sínu fagsviði og verið öðrum háskólakonum góðar fyrirmyndir.

Ásta Dís Óladóttir, formaður félagsins, sagði við afhendingu viðurkenningarinnar að það hefði að lokum verið samdóma álit stjórnar Félags háskólakvenna að velja Unni Þorsteinsdóttur háskólakonu ársins 2022.

    Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra afhenti Unni viðurkenningu af því tilefni við hátíðlega athöfn í Hátíðasal Háskóla Íslands í gær. Árið 2022 var Unnur metin sem áhrifamesta vísindakona Evrópu og sú fimmta áhrifamesta í heiminum, samkvæmt nýjum lista sem vefurinn Research.com hefur tekið saman og byggist á greiningu á rannsóknaframlagi yfir 160 þúsund vísindakvenna. MYND/ Gunnar Sverrisson

    Um Unni Þorsteinsdóttur

    Unnur er fædd árið 1958. Hún lauk BS-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1984, diplómanámi í kennslufræði fyrir kennara í framhaldsskóla árið 1987 og doktorsprófi í sameindaerfðafræði frá University of British Columbia árið 1997. 

    Á árunum 1997-2000 var Unnur nýdoktor við Institut de Recherches Cliniques de Montreal í Kanada en hún hefur starfað hjá Íslenskri erfðagreiningu frá árinu 2000. Hún var verkefnastjóri í deild krabbameinsrannsókna 2000-2003 og forstöðumaður erfðarannsókna 2003-2010. Unnur hefur verið framkvæmdastjóri rannsókna hjá Íslenskri erfðagreiningu frá 2010 og hefur m.a. leitt rannsóknir tengdar hjarta- og æðasjúkdómum, efnaskiptasjúkdómum og krabbameinum. Unnur tók við starfi forseta Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands 1. júlí 2022.

    Samhliða starfi sínu hjá Íslenskri erfðagreiningu hefur Unnur gegnt stöðu rannsóknarprófessors við Læknadeild Háskóla Íslands. Hún hefur átt sæti í fjölmörgum stjórnum og nefndum, þ. á m. fagráði Rannsóknarsjóðs í heilbrigðis- og lífvísindum, Vísinda- og tækniráði Íslands, setið í stjórn Rannsóknarsjóðs RANNÍS og var formaður stjórnar Markáætlunar á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar. Unnur hefur setið í doktorsnefndum, verið andmælandi við doktorsvarnir og leiðbeint doktorsnemum. Þá hefur hún hlotið fjölda viðurkenninga fyrir störf sín og rannsóknir og fékk m.a. riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag á vettvangi erfðarannsókna og vísinda árið 2017. 

    Árið 2022 var Unnur metin sem áhrifamesta vísindakona Evrópu og sú fimmta áhrifamesta í heiminum, samkvæmt nýjum lista sem vefurinn Research.com hefur tekið saman og byggist á greiningu á rannsóknaframlagi yfir 160 þúsund vísindakvenna. Vefurinn birti þá í fyrsta sinn lista yfir fremstu vísindakonur heims en með því vilja forsvarsmenn vefsins draga fram afrek kvenna í geira þar sem karlmenn hafa um langt skeið verið í miklum meirihluta. Markmiðið með listanum er einnig að hvetja vísindakonur áfram í störfum sínum og ungar konur til þess að helga sig vísindum, en konur eru aðeins þriðjungur starfsfólks í vísindum.

    Fram kemur á Research.com að tilvitnanir í rannsóknir sem Unnur hefur komið að eru hátt í 190 þúsund og birtingar hennar rúmlega 460 á því tímabili sem liggur til grundvallar listanum. Það skilar henni, sem fyrr segir, í fimmta sæti á lista yfir fremstu vísindakonur heims og í fyrsta sæti meðal vísindakvenna í Evrópu. Unnur var jafnframt eina íslenska vísindakonan sem komst á listann að þessu sinni. 

    Tilnefndar voru auk Unnar

    • Arna Mathisen arkitekt
    • Dr. Arney Einarsdóttir, dósent við Háskólann á Bifröst
    • Dr. Ásta Dís Óladóttir, dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands
    • Dr. Ásthildur Elva Bernharðsdóttir, dósent við Háskólann á Bifröst
    • Dr. Bryndís Snæbjörnsdóttir, prófessor og fagstjóri meistaranáms í myndlist og sýningagerð við Listaháskóla Íslands
    • Dr. Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis og auðlindafræði við Háskóla Íslands
    • Dr. Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastjóri Carbfix 
    • Elín Jónsdóttir, forseti lagadeildar Háskólans á Bifröst 
    • Fríða Björk Ingvarsdóttir, fráfarandi rektor Listaháskóla Íslands
    • Dr. Guðrún Nordal, prófessor og forstöðukona Árnastofnunnar 

    • Dr. Halla Steinunn Stefánsdóttir, fiðluleikari, kúrator og tónskáld.
    • Íris Baldursdóttir, rafmagns og tölvunarverkfræðingur og framkvæmdastjóri og meðstofnandi Snerpu Power
    • Dr. Isabel C. Barrio, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands 
    • Katrín María Káradóttir, dósent í fatahönnun við Listaháskóla Íslands 
    • Dr. Oddný Mjöll Arnardóttir, rannsóknaprófessor við Háskóla Íslands og dómari við Mannréttindadómstól Evrópu 
    • Dr. Ragnheiður I. Þórarinsdóttir rektor Landbúnaðarháskóla Íslands
    • Dr. Ragnhildur Helgadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík
    • Dr. Sif Ríkharðsdóttir, prófessor í Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands 
    • Dr. Sigurveig H. Sigurðardóttir, prófessor í Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands
    Unnur Þorsteinsdóttir ásamt ráðherra og fulltrúum úr stjórn Félags háskólakvenna við afhendingu viðurkenningarinnar í Hátíðasal Háskóla Íslands í gær.