Stuðningur við doktorsnema aukinn milli ára | Háskóli Íslands Skip to main content
3. maí 2021

Stuðningur við doktorsnema aukinn milli ára

Stuðningur við doktorsnema aukinn milli ára - á vefsíðu Háskóla Íslands

Þrjátíu og sjö doktorsverkefni á öllum fimm fræðasviðum skólans hljóta styrki úr Doktorsstyrkjasjóði Háskóla Íslands í ár og fjölgar á milli ára. Verkefnin snerta allt frá rannsóknum tengdum áhrifum samstarfs Kína og Rússlands á norðurslóðum og gena og lyfja sem miðla kæliviðbragði í spendýrum til áhrifa skjátíma á geðheilsu ungmenna og gösunar úrgangs í stað urðunar.

Sókn í styrki úr Doktorsstyrkjasjóði, sem er yfirheiti yfir Rannsóknasjóð HÍ, Háskólasjóð Eimskipafélags Íslands og aðra sjóði sem koma að veitingu doktorsstyrkja innan skólans á hverjum tíma, er afar mikil og ber vott um metnaðarfullt rannsóknastarf við skólann og ríkan vilja meðal bæði nemenda og starfsfólks til aukinnar þekkingarsköpunar í þágu samfélagsins.

Að þessu sinni bárust samtals 149 gildar umsóknir um styrki á öllum fræðasviðum háskólans og 37 doktorsverkefni eru styrkt að þessu sinni. Tuttugu og sjö styrkjanna koma úr Rannsóknasjóði HÍ, 8 úr Háskólasjóði Eimskipafélags Íslands og tvö verkefni styrkja Vísindagarðar Háskóla Íslands, en stjórn garðanna hefur ákveðið að veita tvo þriggja ára styrki árlega til doktorsverkefna á sviðum heilbrigðis- og líftækni, upplýsingatækni og endurnýjanlegrar orku. 

Verkefnin eru á afar fjölbreyttum fræðasviðum, þar á meðal innan félagsfræði, hagfræði, viðskiptafræði,  stjórnmálafræði, umhverfis- og auðlindafræði, sálfræði, lífvísinda, bókmenntafræði, sagnfræði, íslensku, fornleifafræði, menntavísinda, íþrótta- og heilsfræði, kynjafræði, verkfræði, efnafræði, líffræði, jarðvísinda, stærðfræði og eðlisfræði.

Heildarfjöldi veittra styrkja eykst nokkuð frá fyrra ári og er mikill meirihluti þeirra til þriggja ára. Er það í samræmi við stefnu sjóðsins að gera styrkþegum kleift að helga sig námi og rannsóknum frá upphafi doktorsnáms síns. 

„Við í Háskóla Íslands leggjum mikla áherslu á fjármögnun doktorsnámsins. Af þeim sökum er afar ánægjulegt að sjá fjölgun styrkja úr Doktorsstyrkjasjóði Háskóla Íslands að þessu sinni enda er eftirspurnin mjög mikil. Það skiptir máli að Vísindagarðar HÍ koma með tvo nýja styrki og hyggjast halda áfram á sömu braut á næstu árum til viðbótar við styrkina úr Rannsóknasjóði HÍ og Háskólasjóði Eimskipafélagsins. Ég óska nýjum styrkþegunum og leiðbeinendum innilega til hamingju,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

Upplýsingar um styrkhafa og styrkt verkefni er að finna á vef skólans.

""