Skip to main content
18. janúar 2024

Stjörnu-Sævar í norðurljósastuði með HÍ og FÍ

Stjörnu-Sævar í norðurljósastuði með HÍ og FÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Gengið verður á vit stjarnanna mánudagskvöldið 22. janúar í boði Háskóla Íslands og Ferðafélags Íslands en gangan er liður í verðlaunaröðinni Með fróðleik í fararnesti. Þátttakendur munu safnast saman á bílastæðinu við Kaldársel kl. 20 og ganga þaðan á vit norðurljósanna. Það eru ekki ýkja mörg bílastæði í boði og því er fólk hvatt til að leggja til beggja hliða við veginn og hafa augun á gangandi vegfarendum. 

Markmið göngunnar er að hvetja fólk til þess að njóta náttúrunnar að vetri til og himingeimsins nú þegar veður er stillt og skilyrði til stjörnuskoðunar eru með besta móti. 

Sævar Helgi Bragason, vísindamiðlari við Háskóla Íslands, mun lýsa því sem fyrri augu ber á kvöldhimninum en hann er fyrir löngu orðinn landsþekktur fyrir miðlun sína á undrum himingeimsins. Hann hefur reyndar einnig dregið athyglina að undrum vísindanna á mörgum öðrum sviðum undanfarin ár. Sævar Helgi er t.d. margveðlaunaður fyrir vísindamiðlun og hefur t.d. kennt stjörnufræði við góðan orðstír í Háskóla unga fólksins og í Háskólalestinni undanfarin ár sem bæði eru verðlaunaverkefni á vegum Háskóla Íslands. Þá hefur hann farið mikinn í sjónvarpi og útvarpi og ritað bækur um hugðarefni sín. Bók hans og Elíasar Rúna myndhöfundar um vísindalæsi var t.d. tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki barna- og ungmennabóka núna fyrir jól. Bókin er helguð hamförum og heitir einmitt það. 

Gangan á mánudaginn kemur er fyrsta gangan af sex á þessu ári í samstarfi Háskólans og Ferðafélagsins undir yfirskriftinni „Með fróðleik í faranesti.“ Ferðirnar eru hugsaðar fyrir alla fjölskylduna og aðgangur að þeim er ókeypis. Þessi fjölbreytta og spennandi ferðaröð hefur verið í gangi frá árinu 2011 og fékk hún Vísindamiðlunarverðlaun Rannís í fyrra. 

Sævar Helgi er bara brattur fyrir gönguna þetta árið og segist vonast til þess að göngufólk sjái Vetrarbrautina okkar „og svo ætlum við að skoða fyrirbæri í henni og utan hennar. Ef við erum heppin sjáum við örugglega norðurljós,“ segir Sævar Helgi. 

Bláu stjörnurnar eru heitari en þær rauðu

Fáir hafa meiri ást á stjörnum himinhvolfsins hér á landi en Sævar og hefur það komið berlega í ljós í sams konar göngum HÍ og Ferðafélagsins undanfarin ár þar sem mæting hefur alltaf verið mjög góð. Á föstudaginn kemur mun Sævar svara spurningum gesta, t.d. af hverju stjörnur eru mismunandi á litinn. Við getum tekið smá forskot á sæluna og fengið hann til að ljósta því upp: „Stjörnurnar eru mismunandi á litinn vegna þess að þær eru misheitar. Heitustu stjörnurnar eru bláhvítar en köldustu rauðar, öfugt við það sem ætla mætti því í daglegu lífi notum við rautt fyrir heitt og blátt fyrir kalt. Bláu og bláhvítu stjörnurnar eru allt að 50.000°C heitar, tíu sinnum heitari en sólin okkar, en rauðu stjörnurnar eru ekki nema um 3500°C,“ svarar Sævar að bragði.

Norðurljósin sýna sig vonandi á mánudaginn kemur en hér má sjá norðuljósaspána frá Veðurstofunni.

Sverðþokan í sjónaukanum

Sævar og stjörnuteymið hans verða með stjörnusjónauka á staðnum og gefst göngufólki kostur á að rýna langt út í geiminn, ekki neinn dagspöl, ekki einu sinni fyrir ljósið. „Við ætlum til dæmis að horfa 2,5 milljónir ljósára út fyrir Vetrarbrautina okkar á næsta nágranna okkar í geimnum, Andrómeduvetrarbrautina, sem stefnir á okkur á 110 km hraða á sekúndu eða svo. Eftir fjóra milljarða ára rekst hún á okkur. Við ætlum líka að skoða geimþoku sem heitir Sverðþokan í Óríon. Það er alveg sérstaklega glæsilegt fyrirbæri sem er í raun fæðingardeildin á himninum. Þar eru nýjar stjörnur að klekjast út úr gas- og rykhýðum. Ein þessara stjarna er heitasta stjarna sem við getum við séð á himinhvolfinu,“ segir Sævar. 

„Svo mæli ég með því að fólk komi með handsjónauka því maður sér ansi margt með slíkum sjónaukum, til dæmis Andrómeduvetrarbrautina og Sverðþokuna í Óríon,“ segir hann.

Áætlað er að ferðin taki um 2-3 klukkustundir en hún er farin í samstarfi við Ferðafélag barnanna eins og áður sagði, sprota frá Ferðafélagi Íslands. Það er því tilvalið fyrir fjölskylduna að skella sér í hressandi göngu og fræðast um leið um himintunglin.

Háskóli Íslands og Ferðafélag Íslands hafa undanfarin átta ár staðið saman að gönguferðum í borgarlandinu undir yfirskriftinni „Með fróðleik í fararnesti“. Reynsla og þekking fararstjóra Ferðafélagsins og þekking kennara og vísindamanna Háskólans blandast saman í verðlaunaferðum um höfuðborgarsvæðið og næsta nágrenni þess. 

Þátttaka í stjörnuferðinni er ókeypis eins og áður sagði og öll eru velkomin. Muna bara að klæða sig mjög vel. 

Hér má fá upplýsingar um allar ferðir þessa árs.

 

Sævar Helgi Bragason