Skip to main content
12. febrúar 2019

Smávinir úr nótnaskápnum á háskólatónleikum í Hátíðasal

""

Það er skammt stórra högga á milli í tónlistarlífinu í Háskóla Íslands þessa dagana því rétt vika verður núna á milli Háskólatónleika. Á þeim næstu, sem fara fram miðvikudaginn 13. febrúar, flytja Áshildur Haraldsdóttir flautuleikari og Helga Bryndís Magnúsdóttir píanóleikari verk eftir Mozart, Doppler, Fauré, Barber, Messiaen og Atla Heimi Sveinsson. Tónleikarnir verða í Hátíðasal Háskóla Íslands  og hefjast þeir kl. 12.30. Eins og ávallt er enginn aðgangseyrir og öll eru velkomin.

Áshildur Haraldsdóttir flautuleikari tók burtfararpróf frá Tónlistarskólanum í Reykjavík sautján ára gömul. Haustið 1983 hélt hún til Bandaríkjanna til framhaldsnáms. Hún lauk „Bachelor of Music“-prófi í hljóðfæraleik með hæstu einkunn frá The New England Conservatory of Music 1986 og „Master of Music“-prófi frá The Juilliard School í New York 1988. Hún varð fyrsti flautuleikarinn til að komast inn í Konservatoríið í París í nám í svokölluðum „Cycle de Perfectionnement“, en því námi lauk hún árið 1992. Hún hefur unnið til fyrstu verðlauna í „The New England Conservatory Commencement Competition“ (1986), „The Annual James Pappoutsakis Memorial Fund Competition“ (1986) og „The International Young Concerts Artists Competition of Royal Tunbridge Wells“ (1989). Hún hefur einnig hlotið þriðju verðlaun á alþjóðlegu flautukeppninni „Flute d ́Or“ (1992). Hún hlaut önnur verðlaun í alþjóðlegu flautukeppninni „Syrinx“ á Ítalíu (1995) auk fyrstu verðlauna fyrir besta flutning á nútímaverki. Áshildur var einnig valin fulltrúi Íslands á tvíæring ungra norrænna einleikara 1988.

Áshildur hefur leikið einleik með fjölda hljómsveita austan hafs og vestan. Hún er einnig virkur þátttakandi í kammermúsík og hefur komið fram á tónleikum í víðs vegar um Evrópu og Japan með KaSa-hópnum og fór nýverið í tónleikaferð um Kína með RTÉ Vanbrugh kvartettinum. Hún hefur einnig haldið fjölda einleikstónleika í sölum eins og Lincoln Center og Cami Hall í New York og Barbican Center og The Purcell Room í London. Áshildur hefur komið fram í útvarpi og sjónvarpi í Bandaríkjunum, alls stapar á Norðurlöndunum og í Frakklandi og leikið reglulega í BBC. Þess má geta að Áshildur hefur margsinnis frumflutt íslensk verk heima og erlendis og eru íslensk verk mjög oft á efnisskrá hennar. Áshildur lék með Die Deutsche Kammerphilharmonie árið 1992 til 1993 og lék með kammerhljómsveitarinni L ́Orchestre Symphonique Français frá árinu 1995 til 1997 en er nú fastráðin hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Áshildur hefur hljóðritað einleiksgeisladiskana „Joueuse de Flûte“, „Undine“, „Concertos by C.Ph.E. Bach, Benda and Haydn“ og disk þar sem hún leikur partítu Gösta Nystroems með sænsku kammersveitinni „Musica Vitae” fyrir sænska útgáfufyrirtækið Intim Musik og „Miniatures“ með Selmu Guðmundsdóttur fyrir íslenska útgáfufyrirtækið Spor. Áshildur hefur einnig leikið kammertónlist inn á diska fyrir ITM og franska útgáfufyrirtækið Timpani þar sem hún lék með tónlistarmönnunum Alain Marion, Michel Arrignon og Pascal Devoyon. 

„Tónamínútur“, tvöfaldur geisladiskur með flaututónlist Atla Heimis Sveinssonar, kom út haustið 2006 hjá Smekkleysu og var tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna. Árið 2010 var Áshildur sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf á vettvangi íslenskrar tónlistar.

Helga Bryndís Magnúsdóttir píanóleikari hóf tónlistarnám við Tónlistarskólann í Vestmannaeyjum. Síðar nam hún við Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk þaðan prófi sem einleikari og píanókennari árið 1987. 

Aðalkennari hennar þar var Jónas Ingimundarson. Hún stundaði nám hjá Leonid Brumberg í Vínarborg, Liisu Pohjola og Tuiju Hakkila í Helsinki. Hún hefur tekið virkan þátt í tónlistarlífinu hérlendis, bæði sem einleikari og í kammertónlist af ýmsu tagi. Hún starfar nú sem píanókennari við tónlistarskólana í Reykjanesbæ og Kópavogi en er auk þess aðjunkt við Listaháskóla Íslands. Hún er jafnframt meðlimur í Caput-hópnum.

Eins og áður sagði verða tónleikarnir í Hátíðasal Háskóla Íslands þann 13. febrúar og hefjast kl. 12.30.  Enginn aðgangseyrir er að tónleikunum og öll eru velkomin.

Áshildur Haraldsdóttir flautuleikari og Helga Bryndís Magnúsdóttir píanóleikari