Skip to main content
5. nóvember 2017

Skiptinám og skemmtileg dagskrá á Alþjóðadögum

Boðið verður upp á kynningar á skiptinámi á einstökum fræðasviðum, bíósýningu, barsvar, uppistand og ýmislegt fleira á Alþjóðadögum í Háskóla Íslands sem fara fram 6.-10. nóvember. Hápunktur daganna er sjálfur Alþjóðadagurinn 8. nóvember á Háskólatorgi en þar verður dansi og tónlist blandað saman við áhugaverðar kynningar á möguleikum á námi erlendis.

Alþjóðadagar eru árviss viðburður í Háskóla Íslands en markmið þeirra er að vekja athygli á þeim fjölmörgu tækifærum sem virk þátttaka Háskóla Íslands í erlendu samstarfi hefur í för með sér fyrir nemendur, kennara, starfsfólk og háskólasamfélagið í heild. Dagskráin tekur mið af því og er því ætluð bæði nemendum og starfsfólki Háskólans.

Dagskráin hefst mánudaginn 6. nóvember á kynningum á skiptinámi, starfsþjálfun og sumarnámi  fyrir nemendur á afmörkuðum fræðasviðum en jafnframt verða kynntir möguleikar á styrkjum úr Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins fyrir akademíska starfsmenn. Þá verður boðið upp á bíósýningu og stutt erindi í tilefni af 30 ára afmæli Erasmus+ á Stúdentakjallaranum og barsvar á sama stað.

Þriðjudaginn 7. nóvember halda áfram kynningar á námi og starfsþjálfun fyrir nemendur innan einstakra fræðasviða og jafnframt verður skýrsla Alþjóðamálastofnunar um þjónustu við flóttafólk kynnt. Um kvöldið verður Reykjavík Trad Session með tónleika á Stúdentakjallaranum. 

Miðvikudaginn 8. nóvember er komið hápunkti Alþjóðadaga, Alþjóðadeginum sjálfum,  sem fram fer á Háskólatorgi kl. 11.30.-13.30. Þar gefst nemendum kostur á að kynna sér skiptinám, starfsþjálfun og sumarnám auk náms á eigin vegum. Þá verður hægt að ræða við íslenska og erlenda skiptinema og fulltrúa frá sendiráðum og fjölmörgum íslenskum stofnunum og félögum. Svið og deildir háskólans verða einnig á staðnum og veita upplýsingar um skiptinám og starfsfólk háskólans getur kynnt sér möguleika á kennara- og starfsmannaskiptum og öðrum kostum sem bjóðast innan Erasmus+.

Líkt og fyrri ár verður lífgað upp á stemninguna með tónlist og dansatriðum. Alejandra P. De Àvila stígur flamenco-dans, danshópurinn Hop-trop sýnir Balkandansa frá Búlgaríu, Serbíu, Rúmeníu og Grikklandi og Tangórínurnar, Margrét Arnar og Sigrún Harðar, flytja fjölbreytt lög  á harmonikku og fiðlu. Happdrættið verður á sínum stað þar sem nemendur eiga m.a. möguleika á að vinna flugmiða til landa í Evrópu  með Icelandair. Til þess að taka þátt í happdrættinu verður að fylla út miða og skila á Alþjóðadeginum á Háskólatorgi. Auk þess verður boðið upp á alþjóðlegt matar- og drykkjasmakk.

Frekari kynningar á möguleikum til skiptináms, starfsþjálfunar og styrkjum fara svo fram 9. og 10. nóvember en þá verður einnig boðið upp á Café Lingua - Stefnumót tungumála.

Nánari upplýsingar um dagskrá Alþjóðadaga má finna á viðburðadagatali Háskóla Íslands en þar er einnig að finna nánari upplýsingar um Alþjóðadaginn 8. nóvember.
 

Frá alþjóðadeginum 2016