Skip to main content
26. október 2020

Sjálflýsandi skáldverk til skoðunar í nýrri bók

„Í brennidepli eru íslensk skáldverk sem varpa með einhverjum hætti ljósi á sína eigin tilurð, einkenni sín eða viðtökur,“ segir Jón Karl Helgason, prófessor við Íslensku- og menningardeild um splunkunýja bók sína sem heitir: Sögusagnir: Þrjú tímamótaverk og einu betur. 

„Einfaldasta leiðin til að útskýra hvað ég er að fást við er ferskeytla sem margir hafa viljað eigna Tómasi Guðmundssyni og er svohljóðandi.

Hárin mér á höfði rísa
er hugsa ég um kærleik þinn.
Þetta er annars ágæt vísa,
einkum seinni parturinn.“

Jón Karl segir að vísan hefjist eins og hefðbundið ástarljóð en í seinni tveimur línunum sé líkt og vísan líti í spegil og fari að dást að sjálfri sér. Jón Karl segir þetta vera skólabókardæmi um sjálflýsandi skáldskap. 

„Víða erlendis eru sjálflýsandi skáldverk af þessu tagi oftast nefnd metafiction og eru stundum talin ávöxtur póstmódernismans í listum sem átti sitt blómaskeið á síðustu áratugum 20. aldar. Ég held því hins vegar fram að þeir Gunnar Gunnarsson, Elías Mar og Sigurður Nordal séu brautryðjendur þessarar stefnu hér á landi, með þremur skáldverkum sem koma út á íslensku á árunum 1945-1948. Þetta eru skáldsögurnar Vikivaki eftir Gunnar og Eftir örstuttan leik eftir Elías og leikritið Uppstigning eftir Sigurð. Bent hefur verið á hve nútímaleg þessi verk eru en mitt framlag felst í því að tengja þau saman og setja í samband við verk erlendra skálda á borð við André Gide, Luigi Pirandello og Jorge Luis Borges.“

Aðdragandinn nær aftur til 1985

Jón Karl hefur á síðustu árum gefið út og ritstýrt fræðiritum á ensku sem fjalla meðal annars um evrópsk nítjándu aldar þjóðskáld og viðtökur íslenskra fornbókmennta í dægurmenningu samtímans. Þetta er hins vegar fyrsta fræðibók hans á íslensku frá því hann sendi frá sér greinasafnið Ódáinsakur: Helgifesta þjóðardýrlinga árið 2013. Það lá því beint við að spyrja hann hvort þessi nýja bók væri beint eða óbeint framhald af þessum fyrri rannsóknum. „Nei, það er ekki hægt segja það,“ svarar hann  „Sögusagnir er öðru fremur framlag til umræðu um fagurfræði og bókmenntasögu 20. aldar.“ 

Jón Karl segir samt að aðdragandinn að þessari nýju bók sé nokkuð langur. Hann megi rekja allt aftur til ársins 1985 þegar hljómsveitir á borð við Dire Straits og Duran Duran voru upp á sitt besta og hann var BA-nemi í almennri bókmenntafræði. Kveikjan varð í námskeiðum í frönskum og suður-amerískum bókmenntum sem Jón Karl sótti þá hjá Álfrúnu Gunnlaugsdóttur, rithöfundi og prófessor við Háskóla Íslands. 

„Þar kynntist ég meðal annars Gide og Borgesi og allar götur síðan hafa skrif þess síðarnefnda verið í miklu uppáhaldi hjá mér. Það var þó ekki fyrr en eftir aldamótin að ég fór að skoða þetta efni af alvöru í íslensku samhengi, meðal annars í ljósi skrifa Ástráðs Eysteinssonar og Dagnýjar Kristjánsdóttur um tiltekin verk eftir Jakobínu Sigurðardóttur og Pétur Gunnarsson. Sagan öll eftir Pétur frá árinu 1985 er meðal þeirra skáldsagna sem sverja sig augljóslega í þessa hefð.“

Jón Karl segir að Dagný hafi notað hugtakið metabókmenntir í ritdómi um þá bók. Ástráður þýddi hins vegar metafiction sem sjálfsögur og hefur síðarnefnda hugtakið náð ágætri fótfestu meðal íslenskra bókmenntafræðinga. „Ég nota það í bók minni en kynni líka ýmis fleiri hugtök til sögunnar, bæði erlend og íslensk, þar á meðal sögusagnir og sjálflýsandi bókmenntir, en þau fæ ég að láni frá Helgu Kress og Hermanni Stefánssyni. Ég hef líka verið svo lánsamur að kenna þrívegis námskeið um þetta efni við Háskólann og naut í öllum tilvikum dýrmætrar aðstoðar nemenda minna við að móta þær hugmyndir sem liggja bókinni til grundvallar.“  

„Ég braut lengi heilann um hvernig væri hægt að teikna mynd þar sem fyrirmyndin er myndin sjálf. Eftir því sem á rannsóknir mínar leið fannst mér þó ekki síður merkilegt að uppgötva að þessi sjálflýsandi fagurfræði hefði haft mótandi áhrif á þrjá íslenska rithöfunda strax á fyrri hluta 20. aldar, líklega fyrst á Gunnar Gunnarsson þar sem Vikivaki kom upphaflega út á dönsku árið 1932. Mér þykir reyndar líka áhugavert hvernig öll þessu verk endurspegla tiltekin atriði úr lífi og hugmyndaheimi höfundanna,“ segir Jón Karl um þær bækur sem eru til umfjöllunar í Sögusögnum. 

Hvað eiga haframjölspakki, Escher og Vikivaki sameiginlegt?

Jón Karl segir að skáldverk af þessu tagi séu afar fjölbreytileg og líka misgóð, eins og gengur og gerist, en þau sem best eru heppnuð geti haft sömu dáleiðandi áhrif á mann og ýmis myndverk eftir Velázquez, Dalí eða Escher. 

Jón Karl segist reyndar hafa kynnst þessum áhrifum barn að aldri þegar hann virti fyrir sér haframjölspakka frá bandaríska fyrirtækinu Quaker Oats.  „Þar gaf að líta vörumerki þar sem kvekari heldur á haframjölspakka sem hefur að geyma mynd af þessum sama kvekara sem heldur á þessum sama haframjölspakka, og þannig áfram, út í hið óendanlega,“ segir Jón Karl. „Ég braut lengi heilann um hvernig væri hægt að teikna mynd þar sem fyrirmyndin er myndin sjálf. Eftir því sem á rannsóknir mínar leið fannst mér þó ekki síður merkilegt að uppgötva að þessi sjálflýsandi fagurfræði hefði haft mótandi áhrif á þrjá íslenska rithöfunda strax á fyrri hluta 20. aldar, líklega fyrst á Gunnar Gunnarsson þar sem Vikivaki kom upphaflega út á dönsku árið 1932. Mér þykir reyndar líka áhugavert hvernig öll þessu verk endurspegla tiltekin atriði úr lífi og hugmyndaheimi höfundanna. Í lokakafla bókarinnar tek ég loks til umræðu skáldsöguna Turnleikhúsið eftir Thor Vilhjálmsson. Hún hefur viss sjálfsöguleg einkenni en er þó kannski fyrst og fremst dæmi um afar róttækan póstmódernískan skáldskap.“

Hver eru áhrif nýrrar bókar á samtímann?

„Það er ekki gott að segja,“ svarar Jón Karl þegar hann er spurður um gildi fagurfræðilegra og bókmenntasögulegra rannsókna af þessu tagi fyrir okkur í samtímanum, sem glímir við kórónaveiru og allskyns náttúruvá. „Kannski skiptir hún engu máli í ljósi þeirra stóru áskoranna sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir. Ég vona samt sem áður að hún geti veitt skáldum innblástur og skerpt vitund allra bókmenntaunnenda fyrir ítökum sögusagna í íslenskum samtímabókmenntum. Mér sýnist að mörg sagnaskáld skrifi að minnsta kosti eitt sjálfsögulegt verk um ævina. Nægir þar að minna á Kristnihald undir Jökli eftir Halldór Laxness, Í sama klefa eftir Jakobínu Sigurðardóttur, Hreiðrið eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson, Lömuðu kennslukonurnar eftir Guðberg Bergsson, Stúlkuna í skóginum eftir Vigdísi Grímsdóttur, Undantekninguna eftir Auði Övu Ólafsdóttur, Níu þjófalykla eftir Hermann Stefánsson, Undir himninum eftir Eirík Guðmundsson, Túrista eftir Stefán Mána, Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson eftir Braga Ólafsson og Blíðfinn og svörtu teningana eftir Þorvald Þorsteinsson. Listinn er auðvitað miklu lengri og lengist í raun ár frá ári. Frá þeim sjónarhóli er Sögusagnir eins konar verkfærakista sem getur vonandi komið höfundum og lesendum til góða um ókomna tíð.“

Dimma gefur út bókina Sögusagnir: Þrjú tímamótaverk og einu betur.  

Jón Karl Helgason