Skip to main content
15. febrúar 2022

Sigruðu í 30. Hönnunarkeppni HÍ

Sigruðu í 30. Hönnunarkeppni HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Þrír nemendur í vélaverkfræði við Háskóla Íslands sigruðu í hinni árlegu Hönnunarkeppni HÍ sem haldin var í 30. skipti þann 5. febrúar síðastliðinn í Háskólabíó. Keppnin hefur frá upphafi verið skipulögð af nemendum í iðnaðarverkfræði og vélaverkfræði við Háskóla Íslands.

Keppnin, sem hefur síðustu þrjá áratugi átt fastan sess í starfi nemenda og meðal áhorfenda í sal og sjónvarpi, gengur út á að búa til tæki sem þrautir á stuttri braut. Tækið verður að keyra af sjálfsdáðum og má ekki vera stjórnað af lifandi veru. Síðustu árin hefur keppnin verið opin öllum til þátttöku óháð því hvort þátttakendur eru nemendur við HÍ eða ekki.

Þá hefur keppnin verið haldin í tengslum við UTmessuna undanfarin ár og átt sinn stað á sýningardegi messunnar sem hefur oftast verið haldin í Hörpu á þessum tíma árs. Vegna samkomutakmarkana hefur UTmessunni verið frestað til 25. maí og verður auk þess haldin á Grand Hótel í ár. Það má því segja að keppnin hafi verið flutt aftur heim í foreldrahús þetta árið.

Vegleg verðlaun voru í boði fyrir þrjú efstu sætin í keppninni auk þess sem verðlaun voru veitt fyrir frumlegustu hönnunina.

Í fyrsta sæti í keppninni varð liðið Vemblar skipað þeim Inga Þór Ólafssyni, Leoni Inga Stefánssyni og Kristjáni Orra Daðasyni. Þeir eru allir nemendur í vélaverkfræði við HÍ. Sigurliðið fékk að launum 400.000 krónur frá Marel.

Í öðru sæti varð liðið „Ég ætti að vera að læra“ skipað þeim Aroni Degi Beck, Friðriki Val Elíassyni, Frosta Hlynssyni og Huldari Hlynssyni, nemendum í vélaverkfræði við HÍ, og Eldari Mána Gíslasyni, nemanda í efnaverkfræði við HÍ. Liðið fékk að launum 300.000 krónur frá Marel.

Í þriðja sæti varð liðið Mike, skipað þeim Danila Krapivenko og Hermanni K. Björnssyni en þeir hafa báðir stundað nám og starfa við Háskólann í Reykjavík. Fengu þeir verðlaun að upphæð 200.000 krónur frá Marel.

Verðlaun fyrir frumlegustu hönnunina, 200.000 krónur frá Samey Robotics, féllu svo í skaut Roberts Kraciuk með tækið „Steinbítur þrjú þúsund“ en Robert stundar nám í tæknifræði við Tæknifræðisetur HÍ í Hafnarfirði.

Sem fyrr segir eru það nemendur í iðnaðarverkfræði og vélaverkfræði við Háskóla Íslands sem skipuleggja og halda keppnina með stuðningi frá Marel, Samey Robotics og Verkfræðingafélagi Íslands auk UTmessunnar.

Dómnefnd keppninnar var skipuð þeim Ásdísi Helgadóttur, dósent í vélaverkfræði við HÍ, Halldóri Pálssyni, prófessor í vélaverkfræði við HÍ, Rúnari Unnþórssyni, prófessor í iðnaðarverkfræði við HÍ og Vilhjálmi Ívari Sigurjónssyni, tæknimanni við Verkfræði- og náttúruvísindasvið HÍ.

Þáttur um keppnina verður sýndur á RÚV nú á vordögum.

Verkfræði- og náttúruvísindasvið óskar öllum verðlaunahöfum til hamingju.

Smellið hér til að skoða fleiri myndir frá keppninni