Skip to main content
20. desember 2023

Samstarf við Hjartavernd um rekstur Lífsýnasafns og gagnasafns

Samstarf við Hjartavernd um rekstur Lífsýnasafns og gagnasafns - á vefsíðu Háskóla Íslands

Fulltrúar Háskóla Íslands og Rannsóknarstöðvar Hjartaverndar undirrituðu á dögunum samning um samstarf um sameiginlegan rekstur Lífsýnasafns Hjartaverndar og jafnframt um hýsingu gagnasafns vísindarannsókna Hjartaverndar hjá Háskóla Íslands í framtíðinni.

Samninginn undirrituðu Vilmundur Guðnason forstöðulæknir og Karl Andersen stjórnarformaður fyrir hönd Hjartaverndar og þau Jón Atli Benediktsson rektor og Unnur Þorsteinsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs, fyrir hönd Háskóla Íslands.

Háskóli Íslands og Hjartavernd hafa um árabil átt afar gott samstarf á sviði vísindarannsókna og kennslu og þess má geta að bæði Vilmundur og Karl eru jafnframt prófessorar við Læknadeild Háskóla Íslands. 

Hjartavernd er sjálfseignarstofnun sem á sér yfir hálfrar aldar sögu. Hún rekur öfluga rannsóknarstöð sem m.a. hefur að geyma gögn úr hinni víðtæku Hóprannsókn Hjartaverndar sem nær til yfir 30 þúsund Íslendinga. Markmið hennar er að finna helstu áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma á Íslandi og hafa margar aðrar rannsóknir hér á landi, þar á meðal innan Háskóla Íslands, tengst henni.

Í samningnum sem undirritaður var í vikunni er sérstaklega vikið að rekstri Lífsýnasafns Hjartaverndar og gagnasafni vísindarannsókna stofnunarinnar, en þau eru nú vistuð hjá Hjartavernd. 

„Þetta er mjög mikilvægur samningur fyrir Heilbrigðisvísindasvið HÍ þar sem hann tryggir fjárhagslegan og faglegan grundvöll reksturs Lífssýnasafns og gagnasafns Hjartaverndar sem eru gríðarlega mikilvægir innviðir fyrir rannsóknir í flestum greinum heilbrigðisvísinda.  Á samningstímanum verður auk þess unnið að því að koma hýsingu gagnasafns vísindarannsókna Hjartaverndar, sem nú eru vistuð hjá Hjartavernd fyrir, í Háskóla Íslands og tryggja þannig aðgang vísindamanna HÍ að þessum gögnum til framtíðar,“ segir Unnur Þorsteinsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs, en gagnabankarnir tveir nýtast m.a. til rannsókna á sviði faraldsfræði, erfðafræði, öldrunarfræða, félagsvísinda, verkfræði og tölfræði. 

Samningur HÍ og Hjartaverndar er til loka árs 2027 og sérstök samstarfsnefnd hefur umsjón með málefnum hans. 
 

Karl Andersen, Jón Atli Benediktsson, Vilmundur Guðnason og Unnur Þorsteinsdóttir við undirritun samningsins.