Skip to main content
12. febrúar 2020

Reboot Hack - nýsköpunarkeppni háskólanema – um næstu helgi

Reboot Hack - nýsköpunarkeppni háskólanema – um næstu helgi - á vefsíðu Háskóla Íslands

Reboot Hack, nýsköpunarkeppni háskólanema, verður haldin í annað sinn helgina 14.-16. febrúar í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands. Þar koma háskólanemar saman og vinna að lausnum á áskorunum sem átta samstarfsfyrirtæki og -stofnanir hafa lagt fram.

Reboot Hack er hugarfóstur þriggja kvenna úr tölvunarfræði við Háskóla Íslands og var haldin í fyrsta sinn í fyrra. Keppnin er jafnframt fyrsta háskólanemadrifna hakkaþonið á Íslandi og í ár koma 12 háskólanemar úr Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og Listaháskóla Íslands að skipulagningu viðburðarins.

Tilgangur keppninnar er að finna lausnir á raunverulegum áskorunum sem tengjast starfi samstarfsfyrirtækja og -stofnana keppninnar með þverfaglegri samvinnu nemenda en einnig er ætlunin að tengja fyrirtæki við framúrskarandi háskólanema á ýmsum sviðum. Þeir samstarfsaðilar sem leggja fram áskorun eru Auður, Origo, KPMG, Vörður, AwareGo, Listaháskóli Íslands, Byggðastofnun og Ölgerðin.

„Við vonumst til þess að á annað hundrað háskólanemar sæki viðburðinn en hakkaþon snúast ekki um að hakka heldur frekar um að skapa,“ segir Kristjana Björk Barðdal, framkvæmdastjóri Reboot Hack og einn af stofnendum keppninnar.

Reboot Hack er hugarfóstur þriggja kvenna úr tölvunarfræði við Háskóla Íslands og var haldin í fyrsta sinn í fyrra. Keppnin jafnframt fyrsta háskólanemadrifna hakkaþonið á Íslandi og í ár koma 12 háskólanemar úr Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og Listaháskóla Íslands að skipulagningu viðburðarins.

Hakkaþon er nokkurs konar uppfinningamaraþon eða nýsköpunarkeppni þar sem þátttakendur með fjölbreyttan bakgrunn keppa saman í hópum og vinna í sólarhring að lausn að áskorunum sem ákveðnar eru fyrir fram. Verðlaun eru veitt fyrir bestu lausn við hverri og einni áskorun og er samanlagt virði verðlauna í keppninni yfir 1,2 milljónir króna.

Áskoranirnar í ár eru afar fjölbreyttar, allt frá því hvernig hægt sé að leikjavæða sparnað til þess hvernig tækni getur aukið starfsánægju. Ítarlegri upplýsingar um áskoranirnar má finna á vef Reboot Hack. Þátttaka er ókeypis fyrir alla og í hverju teymi eru 2-5 þátttakendur. Skráning fer fram á vef keppninnar og viðburðinn er einnig að finna á Facebook.

Öllum er velkomið að líta inn í Öskju um helgina en setningarathöfn keppninnar fer fram laugardaginn 15. febrúar kl. 10. Í framhaldinu tekur við teymisvinna og á sunnudeginum kynna þátttökuteymin lausnir sínar. Hægt verður að ganga á milli bása og hlýða á kynningar teymanna kl. 12-13.30 en efstu fimm liðin munu svo kynna lausnir sínar í sal 132 í Öskju kl. 14:15. Þar munu dómarar jafnframt velja bestu lausnina og í framhaldi af því fer fram verðlaunaafhending þar sem gestum í sal gefst m.a. kostur á að kjósa sína uppáhalds lausn.

Frá keppni síðasta árs