Rannsaka áhrif COVID-19 á hagi og líðan eldra fólks í Lettlandi og á Íslandi
Frá því um mitt ár 2022 hefur Háskóli Íslands verið í tvíhliða rannsóknasamstarfi við Riga Stradins háskólann í Lettlandi þar sem ætlunin er að efla samvinnu á sviði rannsókna á afleiðingum COVID-19-heimsfaraldursins fyrir eldra fólk. Af hálfu Háskóla Íslands hefur Halldór S. Guðmundsson, dósent við Félagsráðgjafardeild, verið tengiliður í verkefninu og Félagsvísindastofnun HÍ annast verkefnaumsýslu en Helgi Guðmundsson, verkefnastjóri við stofnunina, hefur verið hluti af kjarnahópi samstarfsins.
Markmið verkefnisins er að efla tvíhliða samskipti og vísindasamstarf landanna. Sjónum er sérstaklega beint að því að kanna og þróa aðferðir við að greina og bera saman fyrirliggjandi gögn í Lettandi og Íslandi til að varpa ljósi á áhrif heimsfaraldursins á lýðheilsu eldra fólks. Megináherlsan er á félagslega einangrun, einmanaleika og andlega og líkamlega vellíðan. Unnið var með gögn úr svokallaðri SHARE-rannsókni í Lettlandi og íslensku gögnin koma úr rannsókninni Hagir og líðan eldra fólks.
Vinnulota í HÍ í lok nóvember 2022. Talið frá vinstri, Signe Tomsone frá RSU, Helgi Guðmundsson frá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, Andrejs Ivanovs frá RSU, Ieva Reine frá RSU og Halldór S. Guðmundsson frá Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands.
Þátttakendur í samstarfinu hafa hist í Lettlandi og haldið opna fyrirlestra og vinnufundi um gagnavinnu og niðurstöður verkefnisins. Þá var vinnulota á Íslandi síðla árs 2022 og kynningafundur og málstofa í HÍ 13.-15. ágúst 2023. Annar afrakstur verkefnisins hefur nú þegar birst í tveimur fræðigreinum.
Verkefnið var styrkt af Uppbyggingarsjóði EES, sem hefur m.a. það markmið að efla tvíhliða samstarf milli Íslands, Liechtenstein og Noregs og viðtökuríkja í Evrópu.
Nánar er fjallað um verkefnið á heimasíðu Riga Stradins háskólans.
Hlekkir á birtingar um niðurstöður verkefnisins.
Mikelsone, M., Reine, I., Tomsone, S., Gudmundsson, H., Ivanovs, A. og Gudmundsson, H. S. (2023). Construction of healthy aging index from two different datasets. Front. Public Health, 11. https://doi.org/10.3389/fpubh.2023.1231779
Reine, I., Mikelsone, M., Gudmundsson, H., Ivanovs, A., Tomsone, S. og Gudmundsson, H. S. (2023). Loneliness, social isolation and ageing: A methodological approach to compare Latvian and Icelandic older populations in the course of COVID-19 pandemic. Res Sq. 10.21203/rs.3.rs-2870118/v1