Skip to main content
28. ágúst 2016

Nýnemadagar í Háskóla Íslands

""

Það verður líf og fjör á háskólasvæðinu dagana 29. ágúst-2. september þegar Nýnemadagar fara fram í Háskóla Íslands. Boðið er upp á fjölbreytta dagskrá alla vikuna þar sem fræðsla og skemmtun ræður ríkjum.

Mánudaginn 29. ágúst kl. 11.30-13.00 verður glæsileg kynning á Háskólatorgi á þeirri þjónustu sem nemendum stendur til boða. Nemendur geta til að mynda rætt við fulltrúa frá Tölvuþjónustunni, Náms- og starfsráðgjöf, Nemendaskrá, Skrifstofu alþjóðasamskipta, Stúdentaráði, sjálfbærni- og umhverfisnefnd, Landsbókasafni, Tungumálamiðstöð, Ritveri, Háskólakórnum, Háskóladansinum og einnig sérfræðinga í Smáuglunni, appi  Háskóla Íslands. 

Stúdentaráð býður nýnemum í gönguferð um háskólasvæðið kl. 12.30 og einnig verður upplýsingaborð fyrir nýnema opið alla vikuna frá kl. 10-14 á Háskólatorgi. 

Þriðjudaginn 30. ágúst kl. 12 syngur Háskólakórinn fyrir gesti og gangandi á Háskólatorgi og kynnir starfsemi sína.  Þá býður Skrifstofa alþjóðasamskipta upp á fyrirlestur um skiptinám fyrir nýnema kl.12.15 í stofu 105 á Háskólatorgi. Stúdentaráð Háskóla Íslands býður aftur upp á gönguferð þennan dag um háskólasvæðið kl. 12.30.  Það er um að gera að slást í för með Stúdentaráði enda engin önnur en hin frábæra Vala pepp sem mun leiða áhugasama um svæðið og reyta af sér brandara í leiðinni.    

Miðvikudaginn 31. september verða meðlimir Háskóladansins með glæsilega danssýningu á Háskólatorgi kl. 12. Þau kynna einnig starfsemi sína og því ættu dansunnendur ekki að láta viðburðinn fram hjá sér fara.   

Fimmtudaginn 1. september gera Cyber úr Reykjavíkurdætrum allt vitlaust á sviðinu á Háskólatorgi kl. 12 og vissara að missa ekki af kröftugu kvennarappi á Nýnemadögum. 

Árlegt fótboltamót Stúdentaráðs hefst á túninu fyrir framan Aðalbyggingu um hádegisbil þennan sama dag. Spilaður verður sjö manna bolti þar sem að minnsta kosti einn af hvoru kyni verður að vera inni á í einu. Leikirnir verða 2x7 mín. Það verður hörkustemning þegar nemendafélögin keppa sín á milli um titilinn besta fótboltalið Háskóla Íslands en vinningsliðið hlýtur veglegan farandbikar. Öllum er velkomið að fylgjast með og styðja sitt lið. 

Föstudaginn 2. september lýkur Nýnemadögum. Upplýsingaborðið á Háskólatorgi verður sem fyrr opið kl. 10-14 fyrir nýnema og aðra sem vilja spyrja hina alvitru Stúdentaráðsliða spjörunum úr.  Dregið verður í spurningaleik fyrir nýnema kl. 14 og spennandi að komast að því hverjir hreppa hinu glæsilegu vinninga sem í boði eru.  Hægt er að taka þátt í spurningaleiknum til kl. 13 föstudaginn 2. september á Uglunni, innri vef Háskólans

Allir nýnemar og aðrir stúdentar eru hvattir til að taka þátt í dagskrá Nýnemadaga.

Nemendur á ferð fyrir framan Aðalbyggingu
Nemendur á ferð fyrir framan Aðalbyggingu