Skip to main content
3. júlí 2018

Nýir deildarforsetar við Hugvísindasvið

Skipt var um forystu í þremur deildum Hugvísindasviðs við síðustu mánaðamót þegar Rúnar Már Þorsteinsson, Steinunn J. Kristjánsdóttir og Torfi H. Tulinius tóku við sem deildarforsetar. Rúnar Már, prófessor í nýjatestamentisfræðum, tók við af Arnfríði Guðmundsdóttur sem deildarforseti Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar og Sólveig Anna Bóasdóttir, prófessor í guðfræðilegri siðfræði, tók við af Hjalta Hugasyni sem varadeildarforseti. Í Íslensku- og menningardeild leysti Torfi H. Tulinius, prófessor í íslenskum miðaldafræðum, Gunnþórunni Guðmundsdóttur af hólmi en Gauti Kristmannsson, prófessor í þýðingafræði, varð varadeildarforseti. Í Sagnfræði- og heimspekideild varð Steinunn Kristjánsdóttir, prófessor í fornleifafræði, deildarforseti í stað Svavars Hrafns Svavarssonar en Sverrir Jakobsson, prófessor í miðaldasögu, varadeildarforseti í stað Steinunnar. Engar breytingar urðu á stjórn Mála- og menningardeildar en þar eru Oddný G. Sverrisdóttir, prófessor í þýsku, deildarforseti og Birna Arnbjörnsdóttir, prófessor í annarsmálsfræði, varadeildarforseti. Deildarforsetar eru kjörnir til tveggja ára í senn.

Í reglum fyrir Háskóla Íslands segir um deildarforseta að hann sé m.a. faglegur forystumaður deildar og beri í samráði við forseta fræðasviðs ábyrgð á mótun stefnu fyrir deild, skipulagi náms og gæðum kennslu og rannsókna, tengslum við samstarfsaðila og á því að starfsemi deildar og starfseininga hennar sé í samræmi við fjárhagsáætlun fræðasviðsins. Deildarforseti situr í stjórn fræðasviðsins ásamt öðrum deildarforsetum, fulltrúa nemenda og forseta fræðasviðsins, en stjórn fræðasviðs fjallar um sameiginleg málefni sviðsins og hefur eftirlit með fjármálum, rekstri og gæðum starfseminnar.

Rúnar M. Þorsteinsson, Torfi H. Tulinius, Steinunn J. Kristjánsdóttir og Oddný G. Sverrisdóttir.