Skip to main content
26. janúar 2021

Ný SmáUgla komin á flug

Ný SmáUgla komin á flug - á vefsíðu Háskóla Íslands

SmáUglan, app Háskóla Íslands, hefur nú fengið byr undir báða vængi í persónulegri og notendavænni nýrri útgáfu. Notendur geta lagað SmáUglu-appið að eigin þörfum með því að breyta upphafsskjá og flýtileiðum og þannig valið þá möguleika sem hver og einn notar mest. Nýja SmáUglan er að sjálfsögðu tvítyngd eins og stóra systir hennar og því hægt að velja á milli íslensku og ensku.

Meðal annarra nýjunga í appinu er „dagurinn“ þinn sem hefur að geyma yfirlit yfir allar kennslustundir, próf, fundi og viðburði hvern dag, allt á einum stað. Dagurinn breytist svo í vikuyfirlit með því að halla símanum á hlið. Þá geta notendur fylgst með því sem er að gerast í skólanum gegnum fréttir og tilkynningar, séð hvað er í matinn í Hámu ef hungrið sverfur að og hvað Uglan segir á hverjum degi. Nemendur geta enn fremur skoðað öll sín námskeið og lokaeinkunnir í SmáUglunni og starfsfólk stimplað sig inn og út í Vinnustund.

Notendur skrá sig aðeins einu sinni inn í appið og eru eftir það ávallt með SmáUgluna tilbúna í vasanum; það eina sem þarf er nettenging! SmáUglan er þægileg viðbót og einföld leið að því sem þú notar oftast í Uglunni. Hún er aðgengileg í App Store og Google Play.

SmáUgla