Skip to main content
6. febrúar 2017

Ný bók um námssvið leikskóla og grunnþætti menntunar

Ný bók um námssvið leikskóla og grunnþætti menntunar - á vefsíðu Háskóla Íslands

Út er komin bókin "Leikum, lærum, lifum" í ritstjórn Kristínar Karlsdóttur, lektors við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, og Önnu Magneu Hreinsdóttur, sviðsstjóra fræðslu- og velferðarsviðs Borgarbyggðar.

Í bókinni er fjallað um birtingarmyndir námssviða leikskóla og grunnþátta menntunar í leikskólastarfi. Meðal annars má þar nefna vellíðan barna í leikskóla, flæði í leik og námi, sköpun og leik, læsi og leik, lýðræði, jafnrétti, sjálfbærni og vísindi. Lýst er starfendarannsóknum í fimm leikskólum sem unnar voru af sérfræðingum og meistaranemum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Enn fremur er ítarleg umfjöllun um gildi þess að setja fram námsmarkmið og huga að hlutverki kennara og annars starfsfólks í að móta leik sem aðferð í námi og kennslu, í þeim tilgangi að stuðla að námi barna og auka áhrif þeirra á eigið nám og námið hvert hjá öðru. Þá er fjallað um gildi rannsóknarinnar fyrir stefnumótun og starfshætti í leikskólum.

Bókin er ætluð kennaranemum, kennurum og starfsfólki í leik- og grunnskólum, þeim sem móta stefnu í skólamálum og öðrum sem láta sig menntun yngstu borgaranna varða.

Bókin er gefin út af Háskólaútgáfunni og RannUng.

""
Bókakápa - Leikum, lærum, lifum