Ný bók um fjölmenningarlegt skólastarf | Háskóli Íslands Skip to main content
20. desember 2019

Ný bók um fjölmenningarlegt skólastarf

Menntavísindastofnun og Rannsóknarstofa í fjölmenningarfræðum hafa gefið út bókina Raddir margbreytileikans: sögur úr skólastarfi. Bókin er uppspretta ígrundunar um fjölmenningarlegt skólastarf. Raddir kennara, stjórnenda, foreldra og nemenda fá að njóta sín í dæmisögum sem koma frá leik-, grunn- og framhaldsskólastiginu auk frístundaúrræða.

Í bókinni eru tuttugu dæmisögur sem varpa ljósi á ýmsar hliðar skólastarfs, svo sem móttöku og aðlögun, menningarmiðaða starfs- og kennsluhætti, tungumál sem auðlindir, samstarf og tengsl og stjórnun og stefnumörkun. Auk þess að vera fróðleg samtímaheimild um skólamál nýtist bókin til að styðja við starfsþróun þeirra er starfa í leik-, grunn- og framhaldsskólum.

Sögurnar byggja á rannsóknargögnum og koma frá hópi fólks sem flest á það sameiginlegt að hafa komið að samnorrænu rannsóknarverkefni er kallast Námsrými félagslegs réttlætis og menntunar án aðgreiningar: Frásagnir um velgengni nemenda af erlendum uppruna og skóla á fjórum Norðurlöndum. Ritstjórar eru Edda Óskarsdóttir, Hanna Ragnarsdóttir og Samúel Lefever sem öll starfa á Menntavísindasviði Háskóla Íslands.

Bókin kostar 2.600 kr og er til sölu í Bóksölu kennaranema í Stakkahlíð og Bóksölu stúdenta. Hægt að panta hana á netfanginu boksalakenno@hi.is og bætist þá við sendingarkostnaður.

Menntavísindastofnun og Rannsóknarstofa í fjölmenningarfræðum hafa gefið út bókina Raddir margbreytileikans: sögur úr skólastarfi. Bókin er uppspretta ígrundunar um fjölmenningarlegt skólastarf. Raddir kennara, stjórnenda, foreldra og nemenda fá að njóta sín í dæmisögum sem koma frá leik-, grunn- og framhaldsskólastiginu auk frístundaúrræða.