Nemendur valda tímabundinni truflun í Listasafni Einars Jónssonar | Háskóli Íslands Skip to main content
10. apríl 2019

Nemendur valda tímabundinni truflun í Listasafni Einars Jónssonar

frá listasafni Einars Jónssonar

Sex nemendur úr Háskóla Íslands og tíu nemendur úr alþjóðlegu meistaranámi í myndlist við Listaháskóla Íslands vinna saman að listsýningu inn í fastasýningu Listasafns Einars Jónssonar. Sýningin ber yfirskriftina „Afsakið ónæðið – tímabundin truflun í Listasafni Einars Jónssonar“ en opnun hennar verður laugardaginn 13. apríl og mun hún standa yfir í tvær vikur. 

Nemendur Háskólans hafa unnið að undirbúningi sýningarinnar nú á vorönn en þeir eru í hlutverki sýningarstjóra og nemendur Listaháskólans skapa listaverkin fyrir sýninguna.

Að sögn Ólafar Bjarnadóttur, eins sýningarstjóranna, fylgja því starfi fjölbreytt verkefni. „Við höfum fengist við heilmargt. Allt frá umsjón með textagerð og styrkjaumsóknum yfir í kynningarmál og auðvitað öll önnur tilheyrandi verkefni sem fylgja viðburði eins og þessum. Þá hefur veigamikill hluti vinnu okkar verið samvinnan við listamennina en hver sýningarstjóri hefur unnið náið með einum til tveimur listamönnum í gegnum ferlið,“ segir Ólöf en auk hennar koma þau Gundega Skela, Stefanía dóttir Páls, Guðrún Heiður Ísaksdóttir, Aðalsteinn Benediktsson og Elísabet Jónsdóttir að sýningarstjórninni.

Hartnær hundrað ár eru síðan Listasafn Einars Jónssonar var sett á laggirnar á Skólavörðuholtinu en það er fyrsta listasafnið sem opnað var almenningi hér á landi. Fastasýning safnsins hverfist um gjöf Einars, sem var fyrsti myndhöggvari Íslands, á verkum sínum til íslensku þjóðarinnar en það var gert með því skilyrði að byggt yrði safn til að hýsa þau. Í byggingunni, sem nefnist Hnitbjörg, og garði Listasafnsins er safn verka hans varðveitt.
 

„Með sýningunni eru viðvarandi aðstæður safnsins brotnar upp í þeim tilgangi að sjá rýmið og verkin með öðrum augum og koma jafnvel auga á eitthvað sem var áður óséð,“ segir Ólöf Bjarnadóttir, einn sýningarstjóra.

Listaverk Einars í nýju ljósi
Ólöf segir að í upphafi vinnunnar við sýninguna hafi sýningarstjórarnir ákveðið að listamennirnir tíu myndu vinna út frá Einari Jónssyni, verkum hans og á sama tíma safninu sem sýningarrými. „Með sýningunni eru viðvarandi aðstæður safnsins brotnar upp í þeim tilgangi að sjá rýmið og verkin með öðrum augum og koma jafnvel auga á eitthvað sem var áður óséð,“ segir hún. Listamennirnir koma úr mismunandi áttum og frá hinum ýmsu löndum en það eru þau Nína Óskarsdóttir, Hugo Llanes, Jakob Nilsson, Pauline Brami, Guðrún Sigurðardóttir, María Sjöfn, Sísí Ingólfsdóttir, Mari Bø, Lukas Bury og Sabine Adam Fischer.

Aðspurð hvað hafi verið lærdómsríkast við uppsetningu sýningarinnar segir Ólöf að það sé tvímælalaust samstarfið við samnemendur í Háskóla Íslands, nemendur Listaháskólans, kennara og starfsfólk Listasafns Einars Jónssonar. „Við höfum fengið tækifæri til að vinna sjálfstætt með stuðningi frá kennurum okkar, Æsu Sigurjónsdóttur og Páli Hauki Björnssyni, og auk þess hefur starfsfólk Listasafns Einars Jónssonar verið afar hjálplegt. Samvinnan hjá okkur sýningarstjórunum hefur gengið vel en í hópnum eru meistaranemar í ritlist, hagnýtri menningarmiðlun, safnafræði og listfræði auk þess sem við höfum mismunandi bakgrunn. Þar af leiðandi höfum við haft tækifæri til að læra heilmikið hvert af öðru,“ segir hún að endingu.

Sýningin „Afsakið ónæðið––tímabundin truflun í Listasafni Einars Jónssonar“ verður formlega opnuð á laugardaginn kemur, 13. apríl, kl. 17-19 og stendur hún til sunnudagsins 28. apríl. Boðið verður upp á spjall við listamenn sem taka þátt í sýningunni laugardagana 20. og 27. apríl kl. 14-15.30.
 

Nemendur að störfum í Listasafni Einars Jónssonar