Skip to main content
29. nóvember 2019

Mosaflísar sigurverkefnið í Menntamaskínunni

""

Lið Menntaskólans í Reykjavík bar sigur úr býtum í Menntamaskínunni, nýsköpunarhraðili framhaldsskólanna, með hugmynd að umhverfisvænni utanhússklæðningu. Háskóli Íslands er meðal bakhjarla keppninnar.

Menntamaskínan (MeMa) hefur staðið í allt haust og fór nú fram í annað sinn. Markmið verkefnisins er að veita framhaldsskólanemendum tækifæri á því að sannreyna hugmyndir sínar með viðurkenndri aðferðarfræði og er tilgangurinn m.a. að efla skilning ungmenna á möguleikum nýsköpunar til að taka þátt í samfélaginu og leysa vandamál. Hraðallinn er einingabær sem lokaverkefni úr framhaldsskólanámi og getur hver framhaldsskóli sent eitt lið í keppnina. 

Í keppninni í haust tókst unga fólkið á við þær áskoranir framtíðarinnar sem er að finna í  málaflokkum Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Við naut það m.a. stuðnings frá fulltrúum bakhjarla keppninnar en alls skiptist hún í fjóra hluta: Þekkingarsprett, Hönnunarsprett, Tæknisprett og Lokasprett. Þáttakendur í keppninni fengu m.a. leiðsögn frá sérfræðingum Vísindasmiðju Háskóla Íslands og Vísinda- og nýsköpunarsviðs skólans í fyrsta áfanga keppninnar, Þekkingarsprettinum, en þeir voru jafnframt þátttakendum til halds og traust í vísindalegum og fræðilegum þáttum nýsköpunarverkefnisins allt til enda keppninnar. 

Alls tóku fimm lið þátt í MeMa að þessu sinni og lauk keppninni formlega með verðlaunaafhendingu í Ráðhúsi Reykjavíkur í gær. Sem fyrr segir sigraði lið Menntaskólans í Reykjavík. Teymið þróaði svokallaðar Mosaflísar, utanhússklæðningu sem hvetur til vaxtar mosagróðurs á lóðréttum fleti. Klæðningunni er bæði ætlað að binda kolefni og bæta ásýnd á stórhýsum á borð við verksmiðjur, umferðarmannvirki og opinberar byggingar. 

Sigurliðið hlaut eina milljón króna í verðlaunafé en jafnframt veitti Háskólinn nemendunum verðlaun í formi styrks til endurgreiðslu á skrásetningargjaldi við Háskóla Íslands, kjósi þau að hefja þar nám.

Hin verkefnin sem þróuð voru í keppninni voru en ekki síður metnaðarfull:
-    Lið Borgarholtsskóla þróaði búnað sem hægt er að nota til að regla blágrænar lausnir, þ.e. að veita rigningarvatni í réttu magni í jarðveginn með snjallri lögn.
-    Lið Fjölbrautaskólans í Breiðholti þróaði smáforrit þar sem notendur geta leyst áskoranir í daglegu lífi sem hvetja til aukinnar umhverfisvitundar. Aðaláherslan þar var á matarsóun. 
-    Lið Menntaskólans við Hamrahlíð bjó til ruslatunnu fyrir lífrænan úrgang úr mýsli, þ.e. svepp.
-    Lið Tækniskólans hannaði smáforrit sem hvetur til aukinna hjólreiða, þar sem fyrirtæki og skólar geta stutt við heilbrigðari og umhverfisvænni lífsstíl starfsmanna sinna.

Að baki Menntamaskínunni standa Nýsköpunarmiðstöð Íslands, FabLab Reykjavík, Reykjavíkurborg, Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík.  

Nánar um MenntaMaskínuna

Sigurlið Menntaskólans í Reykjavík ásamt fulltrúum bakhjarla keppninnar.
Þátttakendur í keppninni
Lið Borgarholtsskóla þróaði búnað sem hægt er að nota til að regla blágrænar lausnir, þ.e. að veita rigningarvatni í réttu magni í jarðveginn með snjallri lögn.
Lið Fjölbrautaskólans í Breiðholti þróaði smáforrit þar sem notendur geta leyst áskoranir í daglegu lífi sem hvetja til aukinnar umhverfisvitundar. Aðaláherslan þar var á matarsóun.
Lið Menntaskólans við Hamrahlíð bjó til ruslatunnu fyrir lífrænan úrgang úr mýsli, þ.e. svepp.
Lið Tækniskólans hannaði smáforrit sem hvetur til aukinna hjólreiða, þar sem fyrirtæki og skólar geta stutt við heilbrigðari og umhverfisvænni lífsstíl starfsmanna sinna.