Loddarinn á tímum pólitískra blekkinga og sjálfumenningar | Háskóli Íslands Skip to main content
26. apríl 2019

Loddarinn á tímum pólitískra blekkinga og sjálfumenningar

„Þrátt fyrir að um 350 ár séu liðin síðan Loddarinn var frumsýndur virðist hann eiga mjög mikið erindi við samtímann ef marka má fjöldann allan af uppfærslum verksins á síðustu árum í Evrópu. Í viðtölum hafa sumir leikstjórar haft orð á því að umræða um pólitískar blekkingar og sjálfumenningu í samtímanum hafi orðið kveikjan að útfærslum þeirra en hvað sem því líður er hér um er að ræða klassíska ádeilu á blekkingar og hræsni.“ Þetta segir Guðrún Kristinsdóttir, doktorsnemi í frönskum fræðum við Sorbonne-háskóla og Háskóla Íslands, sem er ein þeirra sem tekur þátt í málfundi um gamanleikinn Loddarann í Veröld – húsi Vigdísar mánudaginn 29. apríl kl. 17 í tilefni þess að Þjóðleikhúsið setur upp verkið nú í vor.

Málfundurinn er hluti af fundaröðinni „Samtal við leikhús“ þar sem atvinnuleikhúsfólk og fræðimenn við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands koma saman og ræða uppsetningar á leikverkum sem eru í sýningu hjá stóru leikhúsunum tveimur. Tilgangur raðarinnar er bæði að heiðra Vigdís Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, með því að tvinna saman tvö af helstu hugðarefnum hennar, leikhús og tungumál, en jafnframt að skapa vettvang fyrir faglega umfjöllun um leikhús og þýddar leikbókmenntir sem höfða til almennings. Nú þegar hafa verið haldnir málfundir um Ríkharð III, sem sýndur var Borgarleikhúsinu, og Jónsmessunæturdraum, sem Þjóðleikhúsið setti upp, en nú er komið að franska leikverkinu Loddaranum eftir Molière sem frumsýnt verður í Þjóðleikhúsinu laugardaginn 27. apríl í glænýrri þýðingu Hallgríms Helgasonar í bundnu máli.
 

„Kristaltær kímnin í verkinu höfðar mikið til leikhússtjóra um þessar mundir. Leikstjórar túlka verkið á ólíkan hátt, sumir leggja áherslu á ógnvænlegan blekkingarmátt Loddarans en aðrir sýna Loddarann fremur í spaugilegu ljósi og leggja áherslu á sundrung fjölskyldunnar. Þá er framsetningin einnig mjög ólík milli leikhúsa. Loddarinn er snilldartexti sem býður upp á ólíkar framsetningar enda mikill og frjór efniviður úr að moða fyrir leikhúsfólk,“ segir Guðrún Kristinsdóttir en Þjóðleikhúsið frumsýnir verkið laugardaginn 27. apríl. MYND/Þjóðleikhúsið/Hörður Sveinsson

Skýr ádeila á ofurvald og hræsni kaþólsku kirkjunnar á 17. öld
Leikritið Loddarinn er á frönsku nefnt eftir aðalpersónunni Tartuffe, fátækum manni sem kynnist hinum efnaða heimilisföður Orgon í kirkju. Orgon hrífst af trúrækni hræsnarans Tartuffe sem hægt en örugglega vefur honum um fingur sér þannig að Orgon ákveður að gefa honum hönd dóttur sinnar og ánafna honum öllum eigum sínum. 

Guðrún þekkir þetta sígilda verk Molières vel og ritaði m.a. grein um stöðu þess í sögu og samtíð í vefritið Milli mála sem kom nýverið út. „Það er gaman að hugsa um umhverfið sem leikritið er sprottið úr, sem er hirð Loðvíks 14. Sólkonungs á 17. öld. Á þeim tíma var Frakkland eina landið í Evrópu þar sem mótmælendur og kaþólskir nutu jafns réttar. Þrátt fyrir það sættu mótmælendur ofsóknum alla öldina og Loðvík 14., sem var heittrúaður kaþólikki, lét á endanum fella samninginn úr gildi árið 1685. Talið er að um 100.000 mótmælendur hafi þá flúið land, mest til Þýskalands. Kaþólska kirkjan gekk mjög langt í að fylgjast með fólki til að hafa stjórn á straumum og stefnum innan kirkjunnar og skráði hjá sér upplýsingar um kirkjusókn og trúrækni fólks. Hún hafði á sínum snærum heilan her af trúarlegum leiðbeinendum svo fólk myndi ekki villast af réttri leið. Þessir trúarlegu leiðbeinendur gátu verið óprestlærðir menntamenn sem störfuðu innan vébanda kirkjunnar og Tartuffe er einmitt einn slíkur,“ segir hún. 

Guðrún bætir við að verkið sé skýr ádeila á trúarhræsni og ofurvald kirkjunnar sem legið hafi þungt á fólki á þessum tíma. „Leikritið sýnir misbeitingu þessa valds og hrópandi ósamræmi milli orðs og æðis í mjög spaugilegu ljósi. Mörg tilsvör í verkinu eru alþekkt og bregður fyrir í almennu talmáli,“ segir hún og bætir við að kirkjunnar menn hafi lagt hart að Loðvík 14. að banna leikritið á sínum tíma. „Loðvík 14. var mjög listelskur og hrifinn af verkum Molières en lét þó banna verkið í tvígang til að geðjast klerkunum. Molière endurskrifaði verkið tvisvar sinnum til að þóknast konungi og var fljótur að láta prenta það þegar síðari banninu var aflétt því hann gat ekki vitað nema það yrði bannað á nýjan leik,“ segir hún um tilurð verkisins.

Kristaltær kímni
Guðrún bendir á í grein sinni í vefritinu á Milli mála að Loddarinn hafi verið einkar vinsæll í evrópskum leikhúsum upp á síðkastið en að minnsta kosti sex Tartuffe-leiksýningar voru settar á svið í nágrannalöndum okkar á árinu 2018. Aðspurð hvað skýri þessar miklu vinsældir nú segir Guðrún m.a. að verkið sé áleitið og hafi átt sterkar vísanir í þjóðfélagsleg mein allt frá tímum Molières. „Kristaltær kímnin í verkinu höfðar mikið til leikhússtjóra um þessar mundir. Leikstjórar túlka verkið á ólíkan hátt, sumir leggja áherslu á ógnvænlegan blekkingarmátt Loddarans en aðrir sýna Loddarann fremur í spaugilegu ljósi og leggja áherslu á sundrung fjölskyldunnar. Þá er framsetningin einnig mjög ólík milli leikhúsa. Í uppfærslu Royal Shakespeare Company er Loddarinn skrifaður inn í múslímafjölskyldu innflytjenda en í Dramaten í Stokkhólmi var hann skrifaður inn í kapítalíska fjölskyldu þar sem heimilisfaðirinn finnur hjá sér nýja þörf fyrir andleg gildi. Loddarinn er snilldartexti sem býður upp á ólíkar framsetningar enda mikill og frjór efniviður úr að moða fyrir leikhúsfólk,“ segir Guðrún.

Málfundurinn um Loddarann verður sem fyrr segir í Veröld – húsi Vigdísar 29. apríl kl. 17 og er öllum opinn. Auk Guðrúnar taka þau Hallgrímur Helgason, þýðandi verksins, Guðjón Davíð Karlsson leikari og Hallveig Kristín Eiríksdóttir aðstoðarleikstjóri þátt í pallborðsumræðunum um gamanleikinn en umræðunum stýrir Melkorka Tekla Ólafsdóttir, leiklistarráðunautur Þjóðleikhússins.

Nánari upplýsingar um uppsetningu Þjóðleikhússins má nálgast á vef leikhússins.

Guðrún Kristinsdóttir