Skip to main content
14. október 2019

Listamenn með leiðsögn um sýningu í Veröld

Veröld

Þrír af listamönnunum sem eiga verk á sýningunni Vistabönd í Veröld - húsi Vigdísar ræða um verkin í sérstakri leiðsögn og kynningu á Banff-listamiðstöðinni í Kanada sem fram fer í Vigdísarstofu í Veröld miðvikudaginn 16. október kl. 16. 

Birna Bjarnadóttir, verkefnisstjóri hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, mun kynna Banff-listamiðstöðina í Alberta í Kanada. Eitt meginviðfangsefna Birnu tengist samstarfi Háskóla Íslands við Vesturhei og hún verður nýkomin úr heimsókn til listamiðstöðvarinnar. 

Listamennirnir Karlotta Blöndal, Ragnar Kjartansson og Unnar Örn munu ræða um verkin sín og tengingu sína við Banff-listamiðstöðina. Þau, líkt og aðrir listamenn sem taka þátt í sýningunni, eiga það sameiginlegt að tengjast miðstöðinni, ýmist með því að hafa dvalið þar í vinnustofum eða verk þeirra verið flutt þar. 

Sýningin Vistabönd var opnuð í Veröld – húsi Vigdísar í ágúst síðastliðnum og hún stendur til 28. október næstkomandi. Þótt verkin á sýningunni endurspegli ólík viðfangsefni listamannanna má finna þar sterk tengsl manns og náttúru. Ólíkir staðhættir verða uppspretta fyrir list sem finnur sér stað í fjölbreyttum miðlum en á sýningunni eru myndir, texti og tónverk. Sýningin er opin alla virka daga kl. 9-17.

Nánar um sýninguna og listamennina.

Frá sýningunni Vistabönd