Skip to main content
16. desember 2021

Lið Fjölbrautaskólans í Breiðholti hlutskarpast í Menntamaskínu

Lið Fjölbrautaskólans í Breiðholti hlutskarpast í Menntamaskínu - á vefsíðu Háskóla Íslands

Hugmynd þriggja nemenda í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, sem snýst um að lengja líftíma rúmdýna, varð hlutskörpust í nýsköpunarhraðliðnum Menntamaskínu sem lauk þriðjudaginn 14. desember. Fjölmargar umhverfisvænar og nytsamlegar hugmyndir litu dagsins ljós í keppninni að þessu sinni.

Menntamaskínan (MEMA) er framhaldsskólaáfangi þar sem sköpunarkraftur ungs fólks er virkjaður til að takast á við áskoranir framtíðarinnar sem finna má í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Hraðallinn samanstendur af fimm þáttum: Þekkingarspretti, Hönnunarspretti, Tæknispretti, Þróunarspretti og Lokaspretti. Þetta var í fjórða sinn sem keppnin var haldin en að baki henni standa Fab Lab Reykjavík með stuðningi mennta- og menningarmálaráðuneytis, Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands.

Tuttugu teymi frá sex framhaldsskólum tóku þátt að þessu sinni en fengist var við 12. heimsmarkmiðið, ábyrga neyslu og framleiðslu. Í þróun hugmynda sinna nutu nemendur leiðsögn ýmissa sérfræðinga, þar á meðal við Háskóla Íslands, sem aðstoðuðu við bæði þekkingaröflun og sköpunarvinnu. 

Uppskeru- og verðlaunahátíð hraðalsins fór fram 14. desember en til mikils var að vinna fyrir þátttakendur. Háskóli Íslands veitti öllum í sigurteyminu styrk sem nemur upphæð skráningargjalda fyrsta árið við Háskóla Íslands. Sigurteymið fékk þar að auki 250.000 króna verðlaunafé frá verkfræðistofunni EFLU, vefnámskeið í stofnun fyrirtækja í boði Frumkvöðlar.is og hágreiðslustofan ShaveCave bauð öllu liðinu í klippingu. Þá gaf rafhlaupahjólaleigan Hopp Reykjavík teymunum á bak við þær fimm hugmyndir sem dómnefnd mat bestar 10 fríar ferðir.

Það var hugmyndin SOFTBLOCK frá liði Fjölbrautaskólans í Breiðholti sem sigraði í keppninni. Hún gengur út á að lengja líftíma rúmdýna sem eru nú urðaðar heilar í gríðarlegu magni. SOFTBLOCK snýst um taka dýnurnar í sundur og nýta þær í sófaeiningar sem hægt er að raða saman eftir þörfum og aðstæðum notenda. Slíkar sessur henta afar vel í leikskólum, skólum og frístundastarfi. Sigurliðið skipa þær Elísa Marie Guðjónsdóttir, Erla Lind Guðmundsdóttir og Eydís Rut Ómarsdóttir.

Frumgerð af SOFTBLOCK sófaeiningu sem nemendur Fjölbrautaskólans í Breiðholti hönnuðu. Einingarnar eru samsettar úr gömlum dýnum. Innsta lagið eru pokagormar og bómullarfilt, næsta lag er svampur og ysta lagið er pólýester. Áklæðið er gert úr endurnýttum gardínum og munstrið er úr afgöngum af textíl-vínyl klippt niður í búta og pressað á. Mynstrið er innblásið af Terrazzo flísum. Rennilás er á áklæðinu til þess að auðvelda þrif.

Dómnefndinni þótti enn fremur fjögur önnur verkefni bera af en það voru: 

  • Skyr-Garðar: Vél fyrir mötuneyti og hótel sem auðveldar neytendum að ráða skammtastærð á skyri og sleppa einnota umbúðum. Þannig má draga úr matar- og efnissóun og umbúðasorpi.  
  • TEXMA: Notaðar einnota grímur nýttar til að búa til garn og fleiri nytjahluti. Þannig má draga úr þeirri umhverfisvá sem af grímunum stafar. 
  • KONKRÍT: Steypa endurnýtt við gerð nytjahluta, sérstaklega ruslastampa sem eru utandyra í almenningsrýmum og bjóða upp á flokkun. Þessi hugmynd stuðlar að endurnýtingu á steypu sem nú er urðuð, dregur úr innflutningi á ruslafötum og styður við sorpflokkun. 
  • Múrplast: Kubbur sem er búinn til úr plasti en nýttur á sama hátt og múrsteinn. Kubburinn er margfalt sterkari en hefðbundnir múrsteinar og vegur mun minna.

Eftirfarandi skólar tóku þátt í MEMA 2021:

  • Tækniskólinn
  • Kvennaskólinn í Reykjavík
  • Fjölbrautaskólinn í Breiðholti
  • Fjölbrautaskóli Snæfellinga
  • Fjölbrautaskólinn við Ármúla
  • Menntaskólinn við Hamrahlíð

Frekari upplýsingar um Menntamaskínu er að finna á vefsíðu hraðalsins.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Harpa Dögg Kjartansdóttir, kennari í FB, Sigríður Ólafsdóttir, fagstjóri listnáms í FB, og Bryndís Steina Friðgeirsdóttir, sérfræðingur menntamála hjá Fab Lab Reykjavíkur.