Skip to main content
16. apríl 2018

Læsi langtímaferli sem spannar alla ævina

Læsi langtímaferli sem spannar alla ævina - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Lengi var litið svo á að þróun læsis hæfist með formlegu lestrarnámi í fyrsta bekk og lyki þegar börn gátu lesið texta nokkuð fyrirhafnarlaust. Þetta sjónarhorn hefur hins vegar breyst mikið og menn gera sér sífellt betur grein fyrir því að þróun læsis er langtímaferli sem spannar nánast alla ævina,“ segir Freyja Birgisdóttir, dósent við Sálfræðideild Háskóla Íslands. Hún er ein þeirra sem taka til máls á fræðslufundi í fundaröð Háskóla Íslands, Best fyrir börnin, þriðjudaginn 17. apríl kl. 12 í Hátíðasal Háskóla Íslands. Þar verður sjónum beint að því hvernig efla má læsi barna og ungmenna á heimavelli og er fundurinn opinn öllum áhugasömum.

Auk Freyju munu þær Sigríður Ólafsdóttir, nýdoktor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Dröfn Rafnsdóttir, verkefnastjóri hjá Miðju máls og læsis hjá Reykjavíkurborg, og Þóra Sæunn Úlfsdóttir, talmeinafræðingur og læsisrágjafi hjá Miðju máls og læsis, fjalla um læsi og gefa góð ráð sem foreldrar og forráðamenn geta nýtt til að auka lestur barna og ungmenna. Streymt verður frá fundinum á Netinu fyrir þá sem ekki eiga heimangengt.

Lesfimi ekki nóg – lesskilningur er líka mikilvægur

Freyja bendir á að strax á leikskólaárunum byrji börn að þróa með sér færni sem undirbúi þau fyrir lestrarnám seinna meir. „Ákveðnar hliðar málþroska eru oftast nefndar í þessu sambandi, eins og til dæmis orðaforði og næmi barna fyrir hljóðum tungumálsins, en einnig hefur komið í ljós að þættir eins og lestrarvenjur fjölskyldunnar, viðhorf barna til lesturs og þekking þeirra á ritmáli almennt skiptir miklu máli fyrir gengi þeirra í læsi seinna meir,“ bætir hún við.

Hið formlega lestrarnám hefst hjá flestum börnum í grunnskóla en þá læra börn að umbreyta bókstöfum í hljóð og tengja þau saman í orð. „Á þessu stigi er oft talað um að börn séu að ná tökum á hinni tæknilegu hlið lestrar. Þetta tímabil gengur tiltölulega fljótt yfir og flest börn eru búin að ná nokkuð góðum tökum á umskráningu á fyrstu þremur skólaárunum. Lesfimin, getan til þess að lesa texta hratt og fyrirhafnarlaust, er þó að aukast stóran hluta skólagöngunnar og helst fast í hendur við hversu mikið börn lesa sér til skemmtunar,“ segir Freyja en bætir við að ekki dugi að hafa góð tök á umskráningu og lesfimi. „Við þurfum auðvitað líka að skilja það sem við lesum. Lesskilningur þróast að vissu leyti samhliða umskráningu frá byrjun en hann er í brennidepli upp úr öðrum bekk og er í stöðugri þróun í takt við þyngd þess lesefnis sem börnum er skaffað.“

Málumhverfi barna afar mikilvægt fyrir læsi

Læsi og lesskilningur hafa verið töluvert í umræðunni undanfarin misseri, ekki síst í tengslum við umfjöllun um gengi íslenskra nemenda í svokallaðri PISA-könnun en hún leiðir m.a. í ljós að um þriðjungur 15 ára stráka getur ekki lesið sér til gagns. En hvers vegna gengur okkur misjafnlega að ná tökum á lestri? Freyja segir margar ólíkar ástæður geta verið fyrir því. „Sú sem trúlega vegur þyngst er það málumhverfi sem börn alast upp við á leikskólaárunum. Ung börn sem hafa góðan orðaforða, skilja vel framvindu í sögum og geta leikið sér með hljóð tungumálsins eru jafnan fljótari að ná tökum á lestri og lesskilningi en börn sem standa höllum fæti á þessum sviðum. Læsismenning heimilisins skiptir líka miklu máli, en foreldrar eru þar mikilvægasta fyrirmyndin,“ bendir hún á.

Freyja bætir enn fremur við við að rannsóknir sýni að munur á lestrarfærni barna sem kemur fram í 1. bekk sé líklegur til þess að standa í stað eða jafnvel aukast þegar líða tekur á skólagönguna. „Þannig hefur komið í ljós að 65-75% barna sem greinast með lestrarörðugleika í fyrstu bekkjunum munu halda áfram að eiga í erfiðleikum með lestur það sem eftir lifir skólagöngunnar,“ segir Freyja. 

Og það getur haft áhrif á líf barnanna til langframa að ná ekki tökum á læsi. „Börn sem ná góðum tökum á læsi gengur yfirleitt betur í námi, þau eru líklegri til þess að geta valið sér framtíðarstarf eftir sínu áhugasviði og eru almennt séð hæfari til þess að taka virkan þátt í sífellt flóknara samfélagi. Lestur er líka mikilvægur fyrir vitsmunalegan og persónulegan þroska. Góðar bækur auka víðsýni, efla ímyndunaraflið og gagnrýna hugsun,“ bendir Freyja á.

„Áhugi barna á bókum kviknar oft snemma á lífsleiðinni og mótast mikið af þeim heimilsbrag sem þau alast upp við. Því er mikilvægt að bækur og annað lestrarefni sé sýnilegt á heimilinu frá fyrstu stund og að börn sjái foreldra sína og eldri systkini njóta þess að lesa og tala um bækur. Að lesa reglulega fyrir börn, jafnvel þótt þau geti lesið sjálf, er líka mikilvægt til þess að efla áhuga á bóklestri og skapar oft skemmtilegar og þroskandi umræður,“ segir Freyja. 

Mikilvægt að lesa áfram saman eftir að læsi er náð

Freyja hefur lagt áherslu á málþroska og læsi í sínum rannsókn og aðspurð um hvaða aðferðir hafi reynst best við lestrarkennslu segir hún að nokkrir grunnþættir skipti höfuðmáli í kennslunni. „Þeir eru orðaforði, stafaþekking, hljóðkerfisvitund, umskráning, lesskilningur og ritun. Hver þessara þátta krefst sérstakra kennsluaðferða og þeir er í brennidepli á mismunandi tímum, allt eftir því hvar barnið er statt í lestrarnáminu. Rannsóknir benda einnig til þess að mjög mikilvægt sé að mæta hverjum nemanda þar sem hann er staddur og útfæra einstaklingsmiðaða lestrarkennslu sem er hæfilega krefjandi fyrir hvern,“ segir hún.

Sem fyrr segir gegna foreldrar einnig afar mikilvægu hlutverki í lestrarnámi barna og að sögn Freyju geta þeir gert ýmislegt til að örva áhuga barnanna á lestri. „Í fyrsta lagi er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að börn byrja ekki allt í einu að lesa bækur bara vegna þess að við krefjumst þess af þeim. Þau, rétt eins og við, lesa bækur vegna þess að þeim finnst það skemmtilegt. Áhugi barna á bókum kviknar oft snemma á lífsleiðinni og mótast mikið af þeim heimilsbrag sem þau alast upp við. Því er mikilvægt að bækur og annað lestrarefni sé sýnilegt á heimilinu frá fyrstu stund og að börn sjái foreldra sína og eldri systkini njóta þess að lesa og tala um bækur. Að lesa reglulega fyrir börn, jafnvel þótt þau geti lesið sjálf, er líka mikilvægt til þess að efla áhuga á bóklestri og skapar oft skemmtilegar og þroskandi umræður,“ segir Freyja. 

Það er ekki síður mikilvægt að viðhalda lestraráhuganum þegar komið er á unglingsárin en flestar rannsóknir benda til að yndislestur minnki mikið á þeim aldri að sögn Freyju. „Að velja einhverja sameiginlega bók getur verið góð leið til þess því það er svo miklu skemmtilegra að ræða bók sem einhver annar er að lesa líka. Reglulegar ferðir á bókasafnið eða í bókabúðina og bókakaffið í leiðinni til þess að skoða úrvalið getur líka gefist vel. Oft getur verið nauðsynlegt að hjálpa börnum að velja bók sem þau gætu haft gaman að því sum börn lesa lítið fyrst og fremst vegna þess að þau hafa ekki fundið rétta lesefnið. Það er líka til mikið af hljóðbókum fyrir alla aldurshópa um alls kyns efni, en þær efla líka áhugann á lestri. Hljóðbækur eru líka kjörin leið til þess að stytta fjölskyldunni stundirnar í löngum bílferðum,“ bendir enn fremur Freyja á.

Fundurinn um læsi barna og ungmenna í Hátíðasal 17. apríl er sá fjórði í fræðslufundaröð Háskóla Íslands, Best fyrir börnin, en viðfangsefni raðarinnar eiga það sameiginlegt að hafa verið áberandi í samfélagsumræðunni síðustu misseri. Nánari upplýsingar um fundaröðina, þar á meðal fyrri og næstu erindi, má finna á vef Háskóla Íslands.

Þær Þóra Sæunn Úlfsdóttir, Freyja Birgisdóttir,  Dröfn Rafnsdóttir og Sigríður Ólafsdóttir fjalla um læsi og góðar leiðir til að efla lestur barna og ungmenna á fræslufundi Háskóla Íslands þriðjudaginn 17. apríl kl. 12. MYND/Kristinn Ingvarsson