Skip to main content
16. apríl 2015

Kræklingaferð í Hvalfjörð á laugardag

Háskóli Íslands og Ferðafélag Íslands fagna vorinu með fræðandi og nærandi göngu á slóðum kræklingsins í Hvalfirði laugardaginn 18. apríl kl. 10. Halldór Pálmar Halldórsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurnesjum, og Gísli Már Gíslason, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, leiða gönguna og fræða þátttakendur um þessa vinsælu sæskel og kokka upp veitingar í fjörunni. 

Ferðin í Hvalfjörð með fulltrúum Háskóla Íslands og Ferðafélagsins er orðinn árviss vorboði sem notið hefur fádæma vinsælda. Hún er liður í samstarfi aðilanna tveggja undir yfirskriftinni „Með fróðleik í fararnesti“ sem hófst á aldarafmælisári skólans árið 2011. Reynsla og þekking fararstjóra Ferðafélagsins og þekking kennara og vísindamanna háskólans blandast saman í áhugaverðum ferðum um höfuðborgarsvæðið og næsta nágrenni þess. Þátttaka er ókeypis og allir eru velkomnir.

Kræklingur, sem einnig er oft nefndur bláskel í daglegu tali, er herramannsmatur sem finna má við strendur víða um land. Enn fremur hafa aðilar hér á landi hafið ræktun á honum. Það þarf hins vegar að kunna á kræklinginn, vita hvenær má tína hann og hvernig á að elda hann og við þessum spurningum kunna bæði Halldór og Gísli svör.

Veturinn hefur verið kaldur og langur og því vakna spurningar hvort það hafi einhver áhrif á kræklinginn. „Kræklingurinn er afar harður af sér og lætur rysjótt veður yfirleitt lítið á sig fá. Þrátt fyrir kaldan og langan vetur í ár geri ég ekki ráð fyrir öðru en að kræklingnum hafi reitt vel af enda ræður hitastig sjávar meiru þar um, en nú í vetur hefur sjávarhitinn verið svipaður og undanfarin ár,“ segir Halldór um aðstæður kræklingsins í Hvalfirði.

Kræklingurinn endurspeglar umhverfi sitt vel

Halldór og samstarfsfólk hans við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurnesjum hefur á undanförnum árum stundað rannsóknir á mengun í hafinu og þar kemur kræklingurinn nokkuð við sögu. „Rannsóknir okkar á áhrifum og uppsöfnun mengandi efna í kræklingi hafa leitt ýmislegt áhugavert í ljós. Þar má til dæmis nefna að kræklingurinn er undir töluverðu og fjölbreytilegu mengunarálagi nærri hafnarsvæðum sem sést meðal annars í breytingum á frumum, skemmdum á erfðaefninu og skertri virkni dýranna. Notkun kræklings við mengunarrannsóknir hér við land hefur reynst afar vel en hann endurspeglar umhverfi sitt með tilliti til mengandi efna sem við sjáum bæði með mælingum á líffræðilegum áhrifum og efnagreiningum,“ segir hann.

Sem fyrr segir er kræklingur ræktaður víða um land og í tengslum við þá ræktun stunda vísindamenn Rannsóknasetursins í Sandgerði rannsóknir hrygningu og lirfum kræklingsins í samvinnu við fleiri aðila. „Á flestum svæðum er aðalhrygningartíminn frá miðjum júní fram í ágúst en athyglisvert frávik kom fram í sunnanverðum Faxaflóa þar sem fram komu þrír hrygningartoppar eitt árið, það er snemma að vori, um mitt sumar og aftur að hausti. Þá hefur fjöldi lirfa í uppsjó reynst mjög breytilegur á milli ára og svæða en skýringin á því liggur ekki enn ljós fyrir og þarfnast frekari skoðunar. Samspil fæðuframboðs, hitastigs sjávar og fleiri þátta á bæði hrygningu kræklings og lirfufjölda í sjó er flókið en að sama skapi verðugt rannsóknarefni,“ segir Halldór um rannsóknirnar

Eflaust vakna fjölmargar spurningar hjá gestum í kræklingaferðinni á laugardag og ljóst má vera að þeir koma ekki að tómum kofanum hjá Halldóri og Gísla. Halldór minnir á að gott sé að koma í stígvélum í gönguna  með ílát fyrir kræklinginn og ekki sé verra að vera með hlýja vettlinga og góða gúmmíhanska. 

Hist verður í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands, kl. 10 á laugardag þar sem boðið verður upp á stutta fræðslustund. Í framhaldinu verður ekið í halarófu á einkabílum upp í Hvalfjörð þar sem kræklingi verður safnað. Áætlað er að ferðin taki um þrjár klukkustundir.

Ferðin er farin í samstarfi við Ferðafélag barnanna sem er undirfélag Ferðafélags Íslands og því er tilvalið fyrir alla fjölskylduna að skella sér  í Hvalfjörðinn.

Kræklingurinn er afar harður af sér og lætur rysjótt veður yfirleitt lítið á sig fá,“ segir Halldór Pálmar Halldórsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurnesjum.
Ferðir Háskóla Íslands og Ferðafélagsins í Hvalfjörð hafa verið geysivinsælar undanfarin ár enda eftir ljúffengu sjávarmeti að slægjast í fjörunni í Hvalfirði.
Kræklingurinn er afar harður af sér og lætur rysjótt veður yfirleitt lítið á sig fá,“ segir Halldór Pálmar Halldórsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurnesjum.
Ferðir Háskóla Íslands og Ferðafélagsins í Hvalfjörð hafa verið geysivinsælar undanfarin ár enda eftir ljúffengu sjávarmeti að slægjast í fjörunni í Hvalfirði.