Skip to main content
14. október 2020

Könnuðu áskoranir á matvörumarkaði

Matvöruverslanir glíma við breyttar markaðsaðstæður líkt og flest fyrirtæki í dag.

Meistaranemar við Viðskiptafræðideild í námskeiðinu Neytendahegðun kynntu í dag lokaverkefni sín. Nemendur unnu raunverkefni í samstarfi við þrjár íslenskar keðjur matvöruverslana; Bónus, Krónuna og Nettó. Verslanirnar lögðu í upphafi misseris fram nokkur vandamál eða áskoranir sem þau glíma við í sínum daglega rekstri og nemendur gerðu síðan rannsóknir og settu fram tillögur að lausnum.

„Þetta var mjög krefjandi. Námskeiðin í meistaranáminu eru auðvitað kennd í sjö vikna lotum svo nemendur höfðu ekki mikinn tíma til að skipuleggja sig og hugsa um útfærslu þegar verkefnalýsingin lá fyrir. Það sem gerir þetta svo enn erfiðara er að í svona stóru námskeiði (69 manns) kom ekki annað til greina en að vinna þetta í þremur hópum samt sem áður, svo nemendur voru í raun að vinna með 22 einstaklingum sem þau þekktu ekki og máttu ekki hitta. Í ljósi þess kom þetta alveg ótrúlega vel út og þau skiluðu frábærum verkefnum“ sagði Auður Hermannsdóttir aðjúnkt, sem kennir námskeiðið ásamt Auði Gróu Valdimarsdóttur.
 
Markaðsstjórar verslananna, þau Baldur Ólafsson, Ingibjörg Ásta Halldórsdóttir og Hjördís Elsa Ásgeirsdóttir, sáu um aðkomu að verkefninu fyrir hönd sinna fyrirtækja, sem fangaði þó athygli fleiri stjórnenda. Meðal annars þakkaði Finnur Oddsson, forstjóri Haga, nemendum fyrir góða vinnu og flottar tillögur sem Bónus myndi klárlega skoða að nýta í sínum rekstri. Fyrir hönd Krónunnar þakkaði Hjördís kærlega fyrir sig og sagði: „Ég vona að allir [nemendur] séu stoltir af lokaafurðinni því hún kom sannarlega vel út“.

Nemendur höfðu orð á því hvað þau hefðu lært mikið af verkefninu og hvað það væri gott að fá tækifæri til að mynda tengsl og hafa áhrif í íslensku atvinnulífi. „Mér finnst búinn að vera lærdómur af þessu verkefni sem ég bjóst ekkert endilega við fyrir fram, hvað þetta er búið að vera krefjandi og skemmtilegt. Eðli verkefnisins þýddi svo að maður kynntist öllum, þrátt fyrir að við værum öll heima í stofu,“ sagði Biljana Boloban.
Fjölmörg kerfi voru notuð til að auðvelda samskipti nemenda. M.a. Zoom, Facebook, Messenger, Google Meet og Microsoft Teams. Varðandi fjarvinnu og að taka heilt námskeið í formi rafrænnar kennslu og vinna hópverkefnið þannig sagði Ásbjörn Þór Ásbjörnsson: „Mér fannst Teams virka sem skyldi. Það var þægilegt að geta hringt í hvort annað, spjallað í texta og geta svo flett upp í fyrri samskiptum. Við deildum öllum skjölum þar á milli og þetta var bara mjög fínt.“ 

Atli Örn Egilsson átti svo lokaorðið sem hlaut einróma samhljóm: „Þegar þetta er búið þá finnst manni erfitt að geta ekki sest saman niður í einn drykk eftir á og fagnað þessum góða árangri – en það verður klárlega gert við tækifæri!“

COVID-19 faraldurinn hefur breytt rekstarumhverfi matvöruverslana töluvert.