Skip to main content
5. janúar 2024

Hringfarinn styrkir menntaverkefni vísindafólks HÍ í Kenía um 10 milljónir

Hringfarinn styrkir menntaverkefni vísindafólks HÍ í Kenía um 10 milljónir - á vefsíðu Háskóla Íslands

Fræðafólk í stærðfræði við Háskóla Íslands, sem stendur á bak við Styrktarfélagið Broskalla og vinnur að því að styðja nemendur í Kenía til háskólanáms, tók við tíu milljóna króna styrk úr Styrktarsjóði Hringfarans á fjölsóttum viðburði í Hátíðasal Háskóla Íslands í gær, 4. janúar. Aðstandendur Broskalla leita nú að fleiri bakhjörlum fyrir verkefnið.

Verkefni styrktarfélagsins ber heitið Menntun í ferðatösku (e. Education in a suitcase) og grundvallast á vefkennslukerfinu SmileyTutor sem hefur verið í þróun innan Háskóla Íslands um árabil. Það hefur að geyma kennsluefni, m.a. í stærðfræði, tölfræði og tölvunarfræði, ásamt æfingum sem aðstoða nemendur við að tileinka sér námsefnið. Kerfið hefur bæði verið nýtt í Háskóla Íslands og framhaldsskólum hér á landi og sömuleiðis í skólum, á bókasöfnum og víðar í Kenía.

Kennslukerfið hefur einnig að geyma umbunarkerfi sem felst í því að nemendur sem standa sig vel í verkefnum vinna sér inn punkta eða broskalla sem þeir geyma í rafrænu veski. Punktana geta nemendur nýtt til kaupa á námsgögnum og ýmsum nauðsynjavörum fyrir sig og fjölskyldur sínar. Styrktarfélagið Broskallar heldur utan um þennan hluta verkefnisins og aflar fjár til þess en ásamt því að vinna sér inn broskalla öðlast nemendur í Kenía um leið kunnáttu sem þarf til að standast inntökupróf í háskóla. 

Á fundinum í Hátíðasal Háskóla Íslands kynntu aðstandendur kennslukerfisins og styrktarfélagsins, þau Gunnar Stefánsson, prófessor við Raunvísindadeild, og Anna Helga Jónsdóttir, dósent við sömu deild, árangur þess og framtíðarsýn. Nú þegar hafa 4.000 nemendur í fátækrahverfum og flóttamannabúðum í Kenía nýtt sér kerfið m.a. til að undirbúa sig fyrir háskólanám. Í máli þeirra Gunnars og Önnu Helgu kom fram að verkefnið er nú rekið á 45 stöðum í Kenía og hefur það m.a. stuðlað að auknum tækifærum fyrir stúlkur til náms í Kenía.

Auk þeirra Gunnars og Önnu Helgu tóku fulltrúar íslenskra samstarfsaðila þeirra í Kenía til máls og ræddu um ávinninginn af verkefninu. Þá sagði Hringfarinn Kristján Gíslason frá kynnum sínum af verkefninu en hann hefur m.a. vakið mikla athygli fyrir þætti sem hann hefur unnið um hringferð sína um jörðina og sýndir hafa verið á RÚV. Á ferð sinni um Kenía kynntist Kristján Broskallaverkefninu og hefur styrktarfélag hans og konu hans, Ásdísar Baldursdóttur, stutt myndarlega við verkefnið, m.a. með tækjakaupum og fimm milljóna króna framlagi úr Styrktarsjóði Hringfarans. Sjóðurinn hefur verið helsti bakhjarl verkefnisins ásamt utanríkisráðuneytinu og Háskóla Íslands.

Á fundinum í Hátíðasal tilkynnti Kristján enn fremur að sjóðurinn myndi styrkja Broskallaverkefnið um 10 milljónir til viðbótar og tók Gunnar Stefánsson við þeirri gjöf fyrir hönd verkefnsins.

Viðburðinum í Hátíðasal lauk svo með ávarpi Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra. 

Á vef Broskalla er hægt að forvitast frekar um verkefnið í Kenía og þar er jafnframt hægt að leggja því lið með mánaðarlegum framlögum, kaupum á bókum Hringfarans eða með því að leggja inn á reikning styrktarfélagsins.

Myndir Kristins Ingvarssonar frá viðburðinum á sjá hér að neðan.

Frá viðburðinum í Hátíðasal. Frá vinstri á myndinni eru Ásdís Baldursdóttir og Kristján Gíslason, aðstandendur styrktarsjóðs Hringfarans, Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra, Gunnar Stefánsson og Anna Helga Jónsdóttir, aðstandendur Menntunar í ferðatösku, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.