Skip to main content
15. ágúst 2023

Hólmfríður Garðarsdóttir gestakennari við Viktoríu-háskóla

Hólmfríður Garðarsdóttir gestakennari við Viktoríu-háskóla - á vefsíðu Háskóla Íslands

Samstarf Hugvísindasviðs Háskóla Íslands og Viktoríu-háskóla í Kananda (UVIC) hefur verið tekið upp að nýju á grunni samstarfssamnings frá 2015 og Hólmfríður Garðarsdóttir, prófessor við Mála- og menningardeild HÍ, mun gegna gestakennarastarfi við UVIC á komandi haustmisseri.

Samkvæmt samstarfssamningnum sinnir fræðafólk frá HÍ gestakennarastarfi við deild germanskra og slavneskra fræða við UVIC með áherslu á skandinavísk fræði, auk þess að flytja opinbera fyrirlestra um íslenskar bókmenntir og menningu við skólann. Margareth Beck-sjóðurinn við UVIC, sem stofnaður var af ekkju Richard Beck, prófessors í norrænum fræðum, styrkir samstarfið og er fyrirlestraröðin nefnd eftir þeim.

Hólmfríður mun kenna námskeið sem fjallar um birtingarmyndir kvenna í bókmenntum skandinavískra kvenna með áherslu á skáldverk eftir íslenskar konur. Beck-fyrirlestrarnir þrír sem Hólmfríður stendur fyrir fjalla um íslenskar konur í hlutverkum sjókvenna, loftslagaðgerðasinna og rithöfunda. Auk Hólmfríðar munu Margaret Willson, fræðimaður við Seattle-háskóla í Bandaríkjunum, Unnur Birna Karlsdóttir, forstöðumaður Rannsóknasetur HÍ á Austurlandi, og Soffía Auður Birgisdóttir, vísindamaður við Rannsóknasetur HÍ á Höfn í Hornafirði, taka þátt í fyrirlestraröðinni.

Þau Ástráður Eysteinsson, Birna Arnbjörnsdóttir, Guðrún Björk Guðsteinsdóttir og Jón Karl Helgason hafa áður gegn gestakennarastarfinu við Viktoríu-háskóla.

Hólmfríður Garðarsdóttir, prófessor við Mála- og menningardeild HÍ.