Skip to main content
23. október 2017

Háskóli Íslands fagnar viku opins aðgangs

""

Háskóli Íslands fagnar alþjóðlegri viku opins aðgangs, sem stendur dagana 23. – 29. október, með því að kynna ORCID-auðkenni fyrir rannsakendur, minna á stefnu HÍ um opinn aðgang og hvetja starfsmenn til að vista afrit af ritrýndum tímaritsgreinum sínum í opna varðveislusafninu www.opinvisindi.is. 

Háskóli Íslands hefur sett sér stefnu um opinn aðgang þar sem hvatt er til að niðurstöðum rannsókna sem unnar eru við skólann og birtar í ritrýndum tímaritum séu gerðar aðgengilegar í opnum aðgangi. Sífellt fleiri  rannsóknasjóðir hérlendis og erlendis krefjast opins aðgangs að niðurstöðum og æ oftar einnig að gögnum. Háskólinn er aðili að varðveislusafninu www.opinvisindi.is þar sem starfsmenn geta vistað afrit af ritrýndum greinum sínum í opnum aðgangi. 

Háskóli Íslands hefur enn fremur gerst aðili að ORCID (Open Researcher and Contributor ID) og hvetur starfsmenn til að skrá sig fyrir auðkenni og virkja notkunarmöguleika þess. ORCID.org eru opin alþjóðleg samtök sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni. 

„ORCIDid er fastsett auðkenni fyrir rannsakendur (e. Persistent identifier, PID) og samanstendur af 16 stafa talnarunu. Notendur eru tæplega fjórar milljónir um allan heim og fer sífellt fjölgandi. Auðkennið er gjaldfrjálst fyrir einstaklinga og opið fræðafólki hvar sem það er statt á ferli sínum. ORCID-auðkenni fylgir einstaklingnum en er ekki bundið við vinnustað og hver og einn stýrir því hvort og hve mikinn aðgang aðrir hafa að upplýsingum. Rétt er að ítreka að ORCID skráir engar viðkvæmar persónuupplýsingar heldur aðeins það sem varðar rannsóknaferilinn: birtingar, veggspjöld, gagnasett, styrki, einkaleyfi og þess háttar,“ segir Birna Gunnarsdóttir, verkefnisstjóri við vísinda- og nýsköpunarsvið Háskóla Íslands og umsjónarmaður með ORCID og opnum aðgangi innan Háskóla Íslands.

ORCID sparar vinnu við að skrá inn upplýsingar og uppfæra rita- og ferilskrár og það sem tengist ORCID-númeri skilar sér sjálfkrafa í upplýsingakerfi þegar auðkennið er notað.

Notkun ORCID auðkennis stuðlar að því að 
•    höfunda sé rétt getið 
•    upplýsingar um verkefni, birtingar, einkaleyfi og styrki skili sér til HÍ og annarra
•    auka sýnileika rannsókna
•    útiloka að höfundum sem bera sama nafn sé ruglað saman
•    verk séu rétt merkt, óháð mismunandi rithætti nafna og íslenskum bókstöfum
•    réttar upplýsingar skili sér til rannsóknasjóða og útgefenda
•    upplýsingar um vísindastörf birtist rétt í starfsmannaskrá HÍ, á ytri- og innri vef.

Birna bendir á að margir starfsmenn Háskólans séu þegar komnir með ORCID-númer enda sé það notað til að auðkenna fræðafólk á sífellt fleiri stöðum. „Útgefendur biðja t.d. um ORCID-númer þegar höfundar senda greinar til birtingar og til að skrá ritrýni. Þá fara rannsóknasjóðir æ oftar fram á að umsækjendur gefi upp ORCID-númer.  ORCID safnar upplýsingum um birtingar sem tengjast viðkomandi númeri og þannig er tryggt að ritaskrá hjá ORCID er alltaf uppfærð,“ segir hún. 

Í Uglunni, innri vef Háskólans, er flýtileið að ORCID þar sem skráning er bæði fljótleg og einföld. „Starfsmenn sem ekki hafa ORCID-auðkenni eru beðnir að skrá sig og hinir sem þegar hafa ORCID auðkenni eru beðnir að tengja sig við Háskóla Íslands. Einnig er mælst til þess að ORCID sé tengt við Ugluna þannig að ferilskrá sé rétt uppfærð í starfsmannaskrá á ytri og innri vefjum,“ segir Birna.

Tenging við Háskóla Íslands auðveldar skólanum að hafa yfirsýn yfir verkefni og birtingar á vegum skólans og getur sparað starfsfólki vinnu því hægt verður að heimila að starfsfólk Vísinda- og nýsköpunarsviðs yfirfari skráningar, t.d. í tengslum við framtal starfa, og tengi eldri birtingar við ORCID-auðkenni. Starfsmaður hefur alltaf lokaorðið um skráningar á auðkenni sitt og getur afturkallað heimildina hvenær sem er. Þess má geta að þeir sem þegar eru með önnur auðkenni, t.d. ResearcherID og Scopus Author ID, geta tengt þau við ORCID þannig að upplýsingar færist sjálfkrafa á milli.

Sérstakar kynningar um ORCID auðkennið verða haldnar á fræðasviðum Háskóla Íslands í vetur og Birna getur aðstoðað við skráninguna ef þörf krefur.

Dæmi um ORCID-síðu
 

orcid