Skip to main content
15. maí 2017

Hannes í Eistlandi, Ítalíu, Úkraínu og Bretlandi

""

Hannes H. Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði, hefur flutt marga fyrirlestra víða um heim síðustu misseri, jafnframt því sem hann hefur unnið að skýrslum, ritgerðum og bókum.

Hannes flutti fyrirlestur á hádegisverðarfundi Chicago Council on Global Affairs í Reykjavík 16. júní 2016 um það hvar Ísland ætti að skipa sér í heiminum. Taldi hann landið standa andspænis tveimur kostum. Annar væri samstarf við grannþjóðirnar beggja vegna Atlantshafs, Noreg, Bretland, Bandaríkin og Kanada að ógleymdum Færeyjum og Grænlandi. Hinn væri aðild að Evrópusambandinu. Ef til vill gæti landið sameinað þessa kosti, starfað í öryggis- og varnarmálum með Bandaríkjunum og Bretlandi en tryggt sér óheftan aðgang að Evrópumarkaðnum með samningum.

Sama dag flutti hann fyrirlestur á ráðstefnu stjórnmálafræðinga í Reykjavík um það hvers vegna íslenska vinstrið væri smærra og róttækara en á öðrum Norðurlöndum. Skýringin á smæð þess væri eflaust að iðnþróun hefði verið skemur á veg komin á Íslandi þegar nútímaflokkar tóku að myndast auk þess sem arfleifð sjálfstæðisbaráttunnar gerði stéttabaráttuflokkum erfitt fyrir. Skýringin á róttækni þess — þeirri staðreynd, að kommúnistar sigruðu jafnaðarmenn í baráttunni um verkalýðshreyfinguna og menningarlegt forræði — væri hins vegar, að Ísland væri eins og Finnland nýtt ríki án rótgróinna hefða eins og Svíþjóð, Danmörk og Noregur auk þess sem Ísland og Finnland hefðu verið mun fátækari á öndverðri 20. öld en önnur norræn ríki.

Hannes flutti fyrirlestur á ráðstefnu Evrópuvettvangs minningar og samvisku í Vijandi í Eistlandi 29. júní 2016 um brottflutninga og nauðungarflutninga í Evrópu á 20. öld. Fyrirlestur hans var um tvo Þjóðverja, sem bjuggu á Íslandi fyrir stríð, en örlög þeirra fléttuðust saman á einkennilegan hátt. Henny Goldstein var gyðingur sem hraktist til Íslands undan nasistum og giftist íslenskum manni, Hendrik Ottóssyni. Bruno Kress var hins vegar nasisti sem kom til Íslands til að rannsaka málfræði. Hann var styrkþegi rannsóknastofnunar SS-sveitanna, Ahnenerbe, en í stríðinu flutti sú stofnun bróður Hennyar úr Auschwitz í Natzweiler-fangabúðirnar nálægt Strassborg en þar voru gerðar á honum tilraunir áður en hann var myrtur. Eftir stríð settist Kress að í Austur-Þýskalandi og gerðist kommúnisti. Þegar Henny Goldstein bar kennsl á hann í sextugsafmæli Brynjólfs Bjarnasonar vorið 1958 varð nokkurt uppnám í veislunni en málið var þaggað niður. Kress varð heiðursdoktor við Háskóla Íslands 1986.

Í júlí flutti Hannes erindi á sumarskóla frjálslyndra framhaldsskólanema um heimspeki frelsisins. Gerði hann þar greinarmun á átta ólíkum frjálshyggjuhópum eða „skólum“, þar á meðal austurríska skólanum, Chicago-skólanum og aðdáendum skáldkonunnar Ayn Rand. Hann tók einnig þátt í pallborðsumræðum á alþjóðlegri ráðstefnu 29. ágúst 2016 um uppboðsleiðina í sjávarútvegi ásamt þeim prófessor Charles Plott, dr. Tryggva Þór Herbertssyni og Helga Á. Grétarssyni dósent. Benti hann þar á þá niðurstöðu fiskihagfræðinnar, þegar fiskveiðar urðu bundnar handhöfum kvóta, að þá hefðu aðrir ekki verið sviptir öðrum rétti en þeim að gera út á núlli, án gróða. 

Hannes flutti svo erindi á ráðstefnu Institute of Economic Affairs í Flórens á Ítalíu 8. september 2016 um samnýtingarbölið (tragedy of the commons) og þá lausn þess sem Íslendingar hefðu fundið í fiskveiðum með því að úthluta varanlegum og framseljanlegum aflakvótum til útgerðarfyrirtækja. Árið 2015 kom út eftir hann um þetta efni bókin The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable hjá Háskólaútgáfunni. Í september var hann einnig umsegjandi (commentator) á málstofu um trúarbrögð og siðferði á þingi alþjóðasamtaka frjálslyndra fræðimanna, Mont Pelerin Society, í Miami í Florida, en Hannes sat í stjórn samtakanna 1998–2004 og skipulagði þing þeirra á Íslandi 2005.

Í október flutti Hannes fyrirlestur á ráðstefnu Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, Þjóðarspeglinum, um það hvort íslenska þjóðin hefði borið siðferðilega ábyrgð á Icesave-skuldbindingum Landsbankans. Ræddi Hannes hugtakið samábyrgð og komst að þeirri niðurstöðu að íslenska þjóðin hefði ekki borið neina ábyrgð á þessum viðskiptum einkaaðila enda hefði íslenska ríkið í einu og öllu farið að reglum Evrópska efnahagssvæðisins um innstæðutryggingar.

Á ráðstefnu Evrópuvettvangs minningar og samvisku í Kænugarði í nóvember 2016 gerði Hannes grein fyrir ritröð sem hann ritstýrir, Safni til sögu kommúnismans, en þar endurútgefur Almenna bókafélagið ýmis rit sem komið hafa út á íslensku gegn alræðisstefnunni. Árið 2016 voru gefin út Leyniræðan um Stalín eftir Níkíta Khrústsjov, El campesino – Bóndinn eftir Valentín González og Julián Gorkin, Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum eftir Ants Oras, Eistland: Smáþjóð undir oki erlendis valds eftir Anders Küng og Þjónusta, þrælkun, flótti eftir Aatami Kuortti. Skrifar Hannes formála og skýringar í öll ritin.

Á hádegisverðarfundi Adam Smith Institute í Lundúnum 28. nóvember flutti Hannes erindi um íslenska kvótakerfið en meðal annarra gesta voru breskir þingmenn og fyrrverandi ráðherrar og Þórður Ægir Óskarsson sendiherra. Að kvöldi mánudagsins sat Hannes ásamt öðrum gestum kvöldverð í lávarðadeild Breska þingsins sem líffræðingurinn og metsöluhöfundurinn dr. Matt Ridley bauð til. Daginn eftir, 29. nóvember, hitti Hannes sjávarútvegsráðherra Breta, George Eustice, en mikill áhugi er í Bretlandi á reynslu Íslendinga af því að haga fiskveiðum enda er Bretland að ganga úr Evrópusambandinu og því ekki lengur bundið sameiginlegri fiskveiðistefnu þess.

Útgefnar bækur árið 2016

Hannes gaf út þrjár bækur árið 2016, Sögu stjórnmálakenninga, sem prentuð var sem handrit handa nemendum hans í stjórnmálaheimspeki, og tvö stutt rit aðallega ætluð ferðamönnum, Elves and Hidden People og The Saga of Egil – The Warrior Poet. Komu allar bækurnar út hjá Almenna bókafélaginu. Hann birti einnig í Andvara rækilegt æviágrip Ólafs Björnssonar prófessors og ýmsar greinar og ritdóma í innlendum og erlendum tímaritum. Hannes vinnur nú að skýrslu um erlenda áhrifaþætti íslenska bankahrunsins fyrir fjármálaráðuneytið, og verður henni væntanlega skilað árið 2017.

Hannes flytur erindi um fórnarlömb alræðisstefnunnar í Viljandi í Eistlandi 29. júní 2016