Skip to main content
22. júní 2019

Hagur háskólans er þjóðarhagur 

""

Rektor Háskóla Íslands vék að mikilvægi þekkingarsköpunar og markviss nýsköpunarstarfs þegar hann ávarpaði á þriðja þúsund kandídata við brautskráningu í Laugardalshöll í dag. Brautskráð var frá öllum deildum skólans, bæði í grunn- og framhaldsnámi. 

„Nánast í viku hverri erum við minnt á ávinninginn sem samfélagið hefur af nýsköpunar- og frumkvöðlastarfi,“ sagði Jón Atli Benediktsson og benti í því sambandi á hátæknifyrirtækið Marel sem varð til þegar frumkvöðlar við Háskóla Íslands lögðu krafta sína saman við framsýna aðila í sjávarútvegi.  

„Hjá Marel starfa nú um sex þúsund manns í 30 löndum við að þjónusta viðskiptavini í 180 ríkjum,” sagði háskólarektor. „Markaðsvirði fyrirtækisins er nú um 420 milljarðar króna. Vart þarf að taka fram að fyrirtæki á borð við Marel skapa gríðarlega fjölbreytt tækifæri fyrir háskólamenntaða einstaklinga úr ólíkum greinum.“  

Jón Atli sagði það miklu skipta fyrir okkur öll að byggja hér upp þróttmikið umhverfi þar sem frumkvöðlar Háskólans og aðilar úr atvinnulífinu fái tækifæri til að hagnýta hugvitið öllum til hagsbóta eins og gerst hefði í tilviki Marel. Alþjóðlegar mælingar virtra matsstofnana sýni ótvírætt að Háskóli Íslands sé í allra fremstu röð alþjóðlega hvað varðar samstarf við atvinnulíf og áhrif á samfélagið.

„Þetta eru ávextir stefnumörkunar Háskóla Íslands til skemmri og lengri tíma. Hagur Háskólans er þjóðarhagur,“ sagði Jón Atli og vitnaði í orð Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta, um að „þekkingin skapi orðspor þjóðanna.“

Háskólar skapi andrúmsloft sem hvetur til opinnar umræðu

Jón Atli beindi því loks til kandídata að hafa í huga mikilvægi menntahugsjónarinnar sem feli í sér að leita sannleikans sannleikans vegna og þroskans þroskans vegna. „Þar skipta jafnrétti og virðing fyrir öðru fólki, samfélaginu og náttúrunni miklu máli en ekki síður barátta fyrir tjáningarfrelsi. Til að standa undir nafni verða háskólar að skapa andrúmsloft sem hvetur til gagnrýninnar og opinnar umræðu þar sem fólk er óhrætt við að láta skoðanir sínar í ljós, jafnvel þegar þær eru óvinsælar eða fara á móti straumnum,“ sagði Jón Atli Benediktsson. 

Í ávarpi sínu vísaði Jón Atli sérstaklega til þess hversu ánægjulegt það væri að sjá stóraukna sókn í kennaranám en tekist hefði að snúa öfugþróun að þessu leyti með samstilltu átaki Háskólans, stjórnvalda og annarra hagsmunaaðila. „Nú stefnir í gríðarlega aðsókn að námi á Menntavísindasviði á komandi skólaári. Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi kennarastarfsins í okkar samfélagi og er afar brýnt að það sé metið að verðleikum.“ 

Háskólarektor hvatti í lokin kandídatana til að hagnýta sér þá þekkingu sem þeir hefðu öðlast í námi sínu við Háskóla Íslands til að láta gott af sér leiða í þágu samfélags, lífríkis og umhverfis. 

„Áskoranir blasa við hvert sem litið er, í loftslagsmálum, þróun lýðræðis, upplýsingamengun og misskiptingu auðs og valda. Þetta er sá veruleiki sem þið takið við af okkur,“ sagði Jón Atli og hélt svo áfram. „Ég vona svo sannarlega að úrlausnarefni samtímans virki starfsorku ykkar og baráttugleði fremur en að ala á deyfð og vonleysi. „Mannshöfuð er nokkuð þungt,“ kvað skáldið Sigfús Daðason og bætti við „en samt skulum við standa uppréttir.“ Með þekkinguna að vopni eruð þið sannarlega reiðubúin að mæta lífinu upprétt í öllum sínum fjölbreytileika bæði ein og í samvinnu við aðra.“  

Myndir Kristins Ingvarssonar frá brautskráningunni

Myndir úr myndakössum í anddyri Laugardalshallar.

Myndakassi vinstra megin í anddyri: https://instamyndir.smugmug.com/220619S3/n-bjPxsc/

Myndakassi í miðju anddyri: https://instamyndir.smugmug.com/220619S2/n-t2gxMk/

Myndakassi hægra megin í anddyri: https://instamyndir.smugmug.com/220619R2/n-CQw9dj/

Brautskráningarkandídatar á athöfn