Skip to main content
25. janúar 2024

Góðir gestir heimsóttu nemendur við Viðskiptafræðideild

Góðir gestir heimsóttu nemendur við Viðskiptafræðideild  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Frú Eliza Reid, Eva Guðrún Kristjánsdóttir og Guðný Ljósbrá Hreinsdóttir heimsóttu nemendur við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands á fyrstu vikum vormisseris. 
Frú Eliza Reid heimsótti nemendur í námskeiðinu Stjórnun fjölbreytileika og inngilding sem dr. Erla Sólveig Kristjánsdóttir, prófessor í Viðskiptafræðideild, kennir í grunnnámi. Í námskeiðinu er lögð áhersla á að nemendur fái tækifæri til að bera kennsl á þörfina á að þróa vinnumhverfi sem byggir á jafnréttishugsun og inngildingu ólíkra hópa. Eliza deildi reynslu sinni með nemendum um hvernig er að vera innflytjandi á íslenskum vinnumarkaði, erlend forsetafrú, skyldur hennar í því embætti og verkefni. Eliza ræddi einnig um fjölgun innflytjenda á Íslandi og breytingar sem þær hafa í för með sér og fleira.

Eva Guðrún Kristjánsdóttir, sem heldur úti hlaðvarpinu Grænkerið og er einnig fyrrum nemandi Viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands, var gestur í námskeiðinu Neytendahegðun og markaðsstarf sem Auður Hermannsdóttir kennir í grunnnámi. Í námskeiðinu er lögð áhersla á að nemendur öðlist skilning á hegðun neytenda enda er slíkt grundvallaratriði í öllu markaðsstarfi. Eva kynnti fyrir nemendum viðfangsefni lokaritgerðar sinnar þar sem hún útbjó markaðsáætlun fyrir Grænkerið. Fjallaði hún um það hvers vegna mikilvægt er að útbúa slíka áætlun, hversu vel sú vinna hefur nýst henni í stefnumótun hlaðvarpsins og við gerð aðgerðaáætlunar. Grænkerið er vaxandi miðill sem varð til á meðan að námi Evu stóð og gaman er að sjá hvernig námið hjálpar nemendur að ná markmiðum sínum.

Guðný Ljósbrá Hreinsdóttir, framkvæmdastjóri Wake Up Reykjavík, sem útskrifaðist með MS-gráðu Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, var gestur í námskeiðinu Alþjóðamarkaðssetning sem Auður Hermannsdóttir kennir í meistaranámi. Í námskeiðinu öðlast nemendur þekkingu og skilning til að takast á við margvísleg verkefni sem fyrirtæki sem selja vörur eða þjónustu á erlendum mörkuðum þurfa að sinna. Guðný ræddi um meistaraverkefni sitt og hvernig það hefur nýst fyrirtækinu til gagns en verkefnið hlaut meðal annars verðlaun frá Rannsóknarmiðstöð ferðamála. Þar skoðaði Guðný ummæli um fyrirtækið, sem birst hafa á TripAdvisor, og sagði hún nemendum frá því hvernig hægt er að fara óhefðbundnar leiðir við markaðsrannsóknir. Wake Up Reykjavík er ferðaþjónustufyrirtæki sem býður upp á matarferðir um miðbæ Reykjavíkur í fylgd með leiðsögumanni þar sem ferðamenn fá að kynnast matarmenningu landsins og fræðast um borgina.

Dr. Erla Sólveig Kristjánsdóttir og frú Eliza Reid
Eva segir frá Grænkerinu, hlaðvarpi sínu
Guðný framkvæmdarstjóri Wake Up Reykjavík segir frá lokaverkefni sínu